Ísrael fór með öllu því hann átti. [ Og sem hann kom til Ber-Saba offraði hann síns föðurs Ísraels Guði fórnir. Og Guð sagði til hans um nótt í einni sýn: „Jakob, Jakob.“ Hann svaraði: „Hér er eg.“ Og hann sagði: „Eg er Guð, þíns föðurs Guð. Óttast þú ekki að fara í Egyptaland því að þar vil eg gjöra þig að einni mikillri þjóð. Eg vil fara ofan með þér í Egyptaland og eg vil leiða þig upp aftur hingað. Og Jósef skal leggja sínar hendur yfir þín augu.“ Jakob tók sig upp frá Ber-Saba og Israelis synir fluttu þeirra föður Jakob með sínum sonum og kvinnum í vögnum þeim sem faraó hafði sent að flytja þá á. Og þeir tóku sitt kvikfé og alla þá fjárhluti sem þeim hafði aflast í Kanaanslandi og komu í Egyptaland, Jakob og allt hans afkvæmi með honum, hans synir og hans sonasynir með honum, hans dætur og hans dætrabörn með honum og allt hans sæði flutti hann með sér til Egyptalands.

Þessi eru Ísraels sona nöfn sem komu í Egyptaland: Jakob og hans synir: Rúben, Jakobs frumgetinn son. [ Rúbens synir: Hanok, Pallú, Hesron og Karmí. Símeons synir: Jemúel, Jamín, Óhad, Jakín, Jóhar og Sál, sonur þeirrar kanversku kvinnu. Leví synir: Gerson, Gahat og Merarí. Júda synir: Ger, Ónam, Sela, Peres og Sera. En Ger og Ónan deyðu í landi Kanaan. En Peres synir: Hesron og Hamúl. Ísaskar synir: Tóla, Púa, Job og Simron. Sebúlons synir: Sered, Elom, Jahleel. Þessir eru synir komnir af Lea sem hún fæddi Jakob í Mesopotamia, með sinni dóttir Dína, þessar allar sálir voru að tölu þrjátigu og þrír með sonum og dætrum. [

Synir Gað eru þessir: Sifíon, Haggí, Súní, Esbon, Erí, Aródí og Arelí. Synir Asser: Jamna, Jesúa, Jesúí, Bría og Sera þeirra systir. En synir Bría: Heber og Malkíel. Þessir eru þeir synir af Silpa sem Laban gaf sinni dóttur Lea og hún fæddi Jakob þessar sextán sálir. [

Synir Rakel, Jakobs kvinnu: Jósef og Ben-Jamín, og Jósef gat í Egyptalandi Manasse og Efraím, sem Asnat Pótífersdóttir, kennimannsins í Ón, fæddi honum. Ben-Jamíns synir: Bela, Bekel, Asbel, Gera, Naaman, Ehí, Rós, Núpím, Húpím og Ard. Þessir eru þeir synir af Rakel sem hún gat Jakob, allir saman fjórtán sálir. [

Synir Dan: Húsím. Synir Neftalí: Jasheel, Gúní, Jeser og Sillem. Þessir eru synir af Bíla sem Laban gaf sinni dóttur Rakel, og hún fæddi Jakob þessar sjö sálir. [ Allar sálir sem komu með Jakob í Egyptaland og komnar voru af hans lendum (að undanteknum hans sonarkonum) eru allarsaman sex og sextígi sálir. En Jósefs synir sem fæddir eru í Egyptalandi eru tvær sálir. So að allar sálir sem komu í Egyptaland af Jakobs húsi voru sjötigu.

Jósef sagði til sinna bræðra og til síns föðurs húss: „Eg vil fara upp til fundar við faraó, kunngjöra honum og segja til hans: „Mínir bræður og mitt föðurs hús er komið til mín af landi Kanaan og eru fjárhirðar. Því þeir eru þeir menn sem umgengist hafa með fé. Þeirra kvikfé, smátt og stórt, og allt það þeir eiga hafa þeir haft hingað með sér. Og þá faraó kallar nú yður fyrir sig og segir: Hvað er yðart verklag? Þá skulu þér segja: Þínir þénarar eru þeir menn sem umgangast með kvikfé frá vorum ungdómi allt til þessa, bæði vér og vorir forfeður, so þér megið búa í landi Gósen. Því að þeir egypsku hafa andstyggð á öllum fjárhirðurum.“