XXVIII.

En að aftni þvottdagsins, sá er hefst að morni hins fyrsta dags þvottdaganna, kom María Magdalena og hin önnur María að sjá gröfina. [

Og sjá, þar varð jarðskjálfti mikill. Því að engill Drottins sté af himni, gekk þar að og velti steininum frá dyrunum og sat á honum. Og hans ásján var sem elding og hans klæði hvít sem snjár. En fyrir ógninni er af honum var urðu varðhaldsmennirnir sem væri þeir dauðir.

En engillinn svaraði og sagði til kvennanna: [ „Eigi skulu þér óttast því að eg veit að þér spyrjið að Jesú sem krossfestur var. Ei er hann hér, upp er hann risinn so sem hann sagði. Komi þér hér og sjáið þann stað hvar herrann var lagður. Gangið skyndilega og segið það hans lærisveinum að hann sé upprisinn af dauða og sjá, að hann mun ganga fyrir yður í Galileam. Þar munu þér sjá hann. Sjáið, eg sagði yður það.“

Og þær gengu skyndilega frá gröfinni meður ótta og fagnaði miklum og hlupu so hart að þær undirvísuðu það hans lærisveinum. En meðan þær gengu að kunngjöra það hans lærisveinum, sjá, þá mætti þeim Jesús og sagði: [ „Heilar séu þér. Og þær gengu til hans og héldu hans fótum og krupu fyrir honum niður. Þá sagði Jesús til þeirra: „Eigi skulu þér óttast. Farið og kunngjörið mínum bræðrum að þeir gangi í Galileam og þar skulu þeir mig sjá.“

En meðan þær gengu á burt, sjá, þá komu nokkrir af varðhaldsmönnunum í borgina og undirvísuðu kennimannahöfðingjunum allt hvað til hafði borið. [ Og þeir söfnuðust saman með öldungunum, haldandi ráðstefnu og gáfu stríðsmönnunum ærna peninga og sögðu: [ „Segið: Hans lærisveinar komu um nótt og stálu honum á meðan vér sváfum. Og ef það kann að heyrast fyrir dómaranum skulu vér stilla hann og gjöra að þér séuð traustir.“ Og þeir tóku peningana og gjörðu so sem þeim var kennt. Og þessi orðrómur er víðfrægur orðinn meðal Gyðinga allt til þessa dags.

En þeir ellefu lærisveinar gengu burt í Galileam á eitt fjall það eð Jesús hafði þeim fyrirskipað. Og er þeir sáu hann hnékrupu þeir honum en nokkrir efuðu það. [ Jesús gekk til þeirra, talaði við þá og sagði: „Allt vald er mér gefið á himnum og jörðu. Fyrir því gangi þér út og lærið allar þjóðir og skírið þær í nafni föður, sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt hvað eg bauð yður. [ Og sjáið, eg em með yður alla daga allt til enda veraldar.“

Hér er endi S. Mattheus guðspjalla.