XX.

Og Benhadad kóngur í Syria dró saman allt sitt herlið og þar voru tveir og þrjátígir kóngar með honum og hestar og vagnar og hann flutti sinn her upp og settist um Samariam og barðist á borgina. [ Og hann sendi boð til Akab Ísraelskóngs í borgina og lét svo segja honum: „So segir Benhadad: Þitt silfur og þitt gull er mitt og þínar kvinnur og þín bestu börn heyra mér til.“ Ísraelskóngur svaraði og sagði: „Minn herra kóngur, sé svo sem þú hefur sagt: Eg er þinn og allt það eg hefi.“

Og sendimenn komu aftur og sögðu: „Svo segir Benhadad: Sökum þess að eg sendi þér boð og lét segja þér: Þú skalt gefa mér þitt silfur og þitt gull, þínar kvinnur og þín börn þá vil eg senda mína sveina til þín á morgun um þennan sama tíma að þeir skulu rannsaka hús þitt og þinna þénara og þeir skulu taka í sínar hendur það allt sem þú hefur kært og bera það burt.“

Þá kallaði kóngur alla landsins öldunga og þá inu elstu og sagði: „Hugleiðið og sjáið hvað vont hann hefur í sínu sinni. Hann sendi boð til mín eftir mínum kvinnum og börnum og eftir mínu gulli og silfri og eg hefi ekki neitað honum þess.“ Þá svöruðu allir þeir inu elstu og allt fólkið honum: „Þú skalt ekki játa eða samþykkjast þessu.“ Og hann sagði til sendiboða Benhadad: „Segið mínum herra kónginum: Allt það sem hann bauð sínum þénara í fyrstu, það vil eg gjöra en þetta kann eg ekki að gjöra.“ Sendimenn fóru og sögðu honum það aftur. Þá sendi Benhadad til hans og lét so segja honum: „Guðirnir gjöri mér það og það ef moldin af Samaria skal verða so mikil að sérhver fái einn hremming fullan af því öllu fólki sem mér eftir fylgir.“ Þá svaraði Ísraelskóngur og sagði: „Segið honum: Sá sem herklæðist hann skal ekki hrósa sér svo sem hinn sem herklæði hefur aflagt.“ En sem Benhadad það heyrði þar hann sat og drakk með kóngunum í sínum landtjöldum þá sagði hann til sinna þénara: [ „Búið yður til.“ Og þeir bjuggust í móti borginni.

Og sjá, þar kom einn spámaður til Akab Ísraelskóngs og sagði: „Svo segir Drottinn: Þú hefur séð allan þennan ógrynni her? Sjá þú, á þessum degi vil eg gefa hann í þínar hendur so þú vitir að eg er Drottinn.“ Akab sagði: „Fyrir hvern?“ Spámaðurinn svaraði: „So segir Drottinn: Fyrir þjónustumenn héraðshöfðingjanna.“ Hann sagði: „Hver skal vígið vekja?“ Spámaðurinn svaraði: „Þú.“ Þá taldi hann skjaldsveina höfðingjanna og þeir voru að tölu tvö hundruð tveir og þrjátígir. En hann taldi eftir það alla Ísraelssonu, allt fólkið, sjö þúsund menn. Og þeir drógu út um miðjan dag en Benhadad drakk og var drukkinn í sínu tjaldi með tveimur og þrjátígi kóngum hverjir eð komnir voru honum til liðs. Og landshöfðingjasveinarnir fóru fyrst út.

Benhadad sendi út og þeir undirvísuðu honum og sögðu: „Þar fara menn út af Samaria.“ Hann sagði: „Grípið þá lifandi hvert sem þeir eru komnir friðar að beiðast eður að berjast.“ En sem landshöfðingjasveinarnir voru komnir út þá fór herinn eftir þeim. Og hver um sig drap þann sem honum mætti svo að þeir sýrlensku flýðu undan. En Ísrael rak flóttann eftir þeim. Og Benhadad kóngur af Syria komst á hest og flýði með riddörum. [ Og Ísraelskóngur fór út og sló bæði hesta og vagna og fólkið með honum og veitti eitt mikið slag þeim Syris.

Þá gekk einn spámaður til Ísraelskóngs og sagði til hans: „Far þú og afla þér styrks og sjá til hvað þú gjörir því kóngurinn af Syria mun draga her saman í móti þér aftur þegar þetta ár er úti.“ Því kóngsins þénarar af Syria sögðu til hans: „Þeirra Guðir eru fjallanna Guðir og því yfirunnu þeir oss. En mættum vér berjast við þá á sléttlendi þá munum vér sigrast á þeim. Gjör nú svo, tak kóngana burt hvern af sínum stað og gef þeim heimleyfi en set þú höfðingja í þeirra stað. Bú þá þér og herlið so mikið sem það var er þú misstir frá þér og hesta og vagna eins sem þeir aðrir voru og lát oss berjast á jafnlendi við þá. Hvað skal gilda, vér viljum þá sigrast á þeim?“ Kóngurinn hlýddi þeirra ráðum og gjörði svo.

En sem það ár var nú liðið þá heimti Benhadad saman her sinn, þá Syros, og dró upp til Afekk að berjast við Ísrael. Ísraelssynir bjuggust og svo til bardaga, tóku vistir með sér og fluttu her sinn í móti þeim og settu sínar herbúðir gagnvart þeim þvílíkast sem tvær litlar geitfjárhjarðir væri en Syri uppfylltu landið.

Þá gekk einn guðsmaður fram og sagði til Ísraelskóngs: „So segir Drottinn: Sökum þess að þeir sýrlensku hafa sagt að Drotitnn sé fjallaguð en ekki Guð dalanna því hefi eg gefið þennan mikla mannfjölda í þína hönd so þér vitið að eg er Drottinn.“ Og þeir hvorutveggju fylktu liði sínu í sjö daga. Á þeim sjöunda degi tókst bardaginn. Og Ísraelssynir slógu hundrað þúsund fótgönguliðs á einum degi af þeim Syris. [ En þeir sem eftir lifðu flúðu til Afekk inn í staðinn. Og múrinn féll á þá sem undan komust og þeir voru að tölu sjö og tuttugu þúsund manns. Benhadad flýði og inn í staðinn frá einu herbergi og til annars.

Þá sögðu hans þénarar til hans: „Sjá, vér höfum heyrt að Ísraels húss kóngar eru miskunnsamir kóngar. Því skulum vér íklæðast sekkjum og látum bönd um vor höfuð og göngum svo út fyrir Ísraels kóng. Ske má að hann láti þína önd lífi halda.“ Og þeir færðu sig í hárklæði og létu bönd um höfuð sér og fóru til fundar við Ísraelskóngs og sögðu: „Benhadad, þinn þénari, lætur segja þér: Eg bið, lát mína sál halda lífi.“ Hann sagði: „Lifir hann enn nú þá er hann minn bróðir.“ En mennirnir tóku strax þetta orð af hans munni og útlögðu það sér til góða og svöruðu: „Já, þinn bróðir Benhadad.“ Hann sagði: „Farið og látið hann koma á minn fund.“ Þá gekk Benhadad út til hans og hann lét hann sitja hjá sér í sínum vagni. Og hann sagði til hans: „Eg vil gefa þér nú aftur þær borgir sem minn faðir tók frá þínum föður og gjör þér stræti í Damasco líka sem minn faðir gjörði í Samaria. Eg vil og gjöra einn sáttmála við þig og láta þig lausan.“ Og hann gjörði eitt friðarsáttmál við hann og gaf honum fararleyfi.

Þá mælti einn af spámannanna sonum til síns náunga fyrir Drottins orð og sagði: „Kæri, slá þú mig.“ En hann vildi ekki slá hann. Þá sagði hann til hans: „Sökum þess að þú vildir ekki hlýða röddu Drottins, sjá, þá skal eitt león slá þig nær þú gengur frá mér.“ Og sem hann gekk frá honum mætti honum león og drap hann. Og hann fann einn annan mann og sagði til hans: „Kæri, slá þú mig.“ Og sá maður sló hann og veitti honum sár. Þá gekk spámaðurinn í burtu og kom á veginn fyrir kóng og torkenndi sitt andlit með moldu. En sem kóngurinn dró þar framhjá þá kallaði hann til kóngsins og sagði: „Þinn þénari fór til bardaga og sjá, einn maður veik sér burt og leiddi einn mann til mín og sagði: Geym þú þenna mann en komist hann í burt þá skal þitt líf vera í veði elligar skalt þú gjalda eitt centener silfurs. Og þá þinn þénari hafði nokkuð að gjöra hér og þar þá var hinn allur í burt.“ Ísraelskóngur sagði til hans: „Það er þinn dómur, þú hefur sjálfur sagt það.“

Þá strauk hann moldina af sínu andliti og Ísraelskóngur þekkti hann að hann var einn af spámönnunum. Og hann sagði til hans: „So segir Drottinn: Sökum þess að þú lést þann bölvaða mann burt sleppa þá skal þín sál vera í staðinn hans sálar og þitt fólk í staðinn hans fólks.“ [ Eftir það ferðaðist Ísraelskóngur þaðan með þungu skapi og reiði í sitt hús og kom til Samariam.