Jósef var fluttur í Egyptaland. Og Pótífar, einn egypskur maður, dróttseti og [ hofmeistari Pharaonis kóngs keypti hann af þeim Ismaelitis sem fluttu hann ofan þangað. [ Og Guð var með Jósef so hann varð lukkusamur og var í húsi síns herra þess egypska. Og hans herra sá að Drottinn var með honum því að allt hvað hann gjörði, það lét Drottinn vel lukkast fyrir hans hendur. Og Jósef fann náð í augliti síns herra og þjónaði honum. Og hann setti hann yfir allt sitt hús og allt hvað hann hafði, það gaf hann honum undir hans hendur. Og upp frá þeim tíma sem hann hafði sett hann yfir sitt hús og yfir alla sína fjárhluti þá blessaði Drottinn og auðgaði þess hins egypska hús vegna Jósefs. Og þar var iðugleg Guðs blessan yfir öllu því sem hann hafði, bæði heima í húsinu og so á ökrunum úti. Og því gaf hann alla sína eigu Jósef í hendur og tók sér ekkert fyrir hendur, af því hann var hjá honum, utan það hann át og drakk. En Jósef var vænn að yfirliti og fríður í ásjónu.

Það skeði eftir þessa tilburði að kona hans herra renndi augum til Jósefs og sagði: „Sof þú hjá mér.“ En hann vildi ekki og sagði til hennar: „Sjá, minn herra tekur sér ekkert fyrir hendur það sem er í hans húsi heldur hefur hann lagt það allt í mitt vald, og hann hefur ekkert so stórt í sínu húsi að hann geymi það fyrir mér, að frátekinni þér því að þú ert hans eiginkvinna. Hvernin má eg nú þá gjöra so mikið óhæfuverk og syndgast á móti Guði?“ Hún talaði daglega svoddan orðum við Jósef. En hann vildi í öngvan máta samþykkjast henni í því að hann lægi með henni eða væri hjá henni.

Það skeði so á nokkrum degi að Jósef gekk inn í eitt hús til sýslu sinnar og þar var enginn mann af heimafólkinu. [ Hún tók þá í hans skikkjulaf og sagði so til hans: „Sof þú með mér.“ En hann lét eftir sína skikkju í hennar höndum og gekk út af húsinu. Og sem hún sá nú að hann lét sína yfirhöfn eftir í hennar höndum og flýði í burt þá kallaði hún á fólkið, að það kæmi í húsið til hennar og sagði til þeirra: „Sjáið, hann hefur haft hingað þann ebreska mann til að veita oss vanvirðu. Hann kom hér inn til mín og vildi hafa legið með mér, en eg kallaði með hárri röddu. En sem hann heyrði að eg hrópaði so og kallaði þá sleppti hann sinni skikkju við mig en flýði sjálfur og fór út.“

Og hún hélt hans skikkju hjá sér þar til að hans herra kom heim. Og hún sagði honum öll þau sömu orð og mælti: „Hér kom sá inn ebreski sveinn inn til mín, sá þú hefur haft hingað, og vildi vanvirða mig. En þá eg tók til að hrópa og kalla þá lét hann eftir sína yfirhöfn hjá mér og flýði í burtu.“ Og sem hans herra heyrði orð sinnar kvinnu sem hún talaði til hans og sagði: „So hefur þinn þénari gjört við mig“, þá varð hann mjög reiður.

Þá tók hans herra hann og kastaði honum í myrkvastofu þar sem kóngsins fangar voru varðveittir. [ Og hann lá þar í myrkvastofunni. En Drottinn var með Jósef og miskunnaði honum og lét hann finna náð hjá höfðingja myrkvastofunnar. So hann bífalaði undir hans hönd alla bandingjana sem voru í myrkvastofunni so að allt hvað hann átti að gjöra það bífalaði hann Jósef að gjöra sinna vegna, so að höfðinginn myrkvastofunnar tók sér ekki neitt fyrir hendur. Því að Drottinn var með Jósef og Guð gaf lukku til alls þess sem hann gjörði.