Jósef bauð sínum ráðsmanni og sagði: „Fyll þú þessara manna sekki með korn, svo mikið sem í þeim liggur, og legg silfur sérhvers þeirra efst í hans sekk. Og legg mitt silfurker í Ben-Jamíns sekk og þá peninga sem hann gaf fyrir sitt korn.“ Hann gjörði sem Jósef bauð honum.

Um morguninn árla létu þeir þá fara af stað með sínum ösnum. Og sem þeir voru skammt burt farnir af staðnum þá sagði Jósef til síns ráðsmanns: „Rís upp og far eftir þessum mönnum og höndla þá og seg þú so til þeirra: Hvar fyrir hafi þér bítalað illt fyrir gott? Það borðker (sem þér hafið stolið) það er það af hverju minn herra drekkur og hvert hann hefur til síns spádóms, þér hafið vondslega gjört.“ Og þá hann hafði höndlað þá þá talaði hann þessi orð við þá.

Þeir svöruðu honum: „Því mælir minn herra soddan orð? Fjarlægt sé það þínum þénurum að gjöra slíkt. Sjá, þá peninga sem vér fundum efst í vorum sekkjum færðum vér hingað úr Kanaanslandi. Og hvernin skyldum vér þá nú stela annaðhvort silfri eða gulli úr þíns herra húsi? Hjá hverjum sem það finnst á meðal þinna þénara hann skal deyja. Þar til viljum vér og svo vera míns herra þjónar.“ Hann sagði: „Já, verði svo sem þér hafið mælt. Hjá hverjum sem það finnst, hann skal vera minn þræll. En þér skuluð fara í friði.“

Þá hröðuðu þeir sér og tóku ofan sínar klyfjar og lögðu á jörð og sérhver leysti til síns sekks. Og hann rannsakaði og hóf upp hjá þeim elsta og til hins yngsta. Þá fannst borðkerið í sekk Ben-Jamíns. En þeir rifu sín klæði og létu upp klyfjar sínar og fóru í borgina aftur.

Og Júda gekk með sínum bræðrum í Jósefs hús því að hann var þar þá enn. Og þeir féllu niður til fóta Jósef. Þá sagði Jósef til þeirra: „Því þorðu þér að gjöra þetta? Viti þér ekki að þvílíkur maður sem eg er kann vel að ráða slíkt?“ Júda sagði: „Hvað skulum vér segja, minn herra, eða hvað skulum vér tala? Eða hvernin kunnum vér að afsaka oss? Guð hefur fundið ranglæti þinna þénara. Sjá, vér og hann sem borðkerið fannst hjá erum míns herra þjónar.“ Hann sagði: „Það sé langt frá mér að eg gjöri það. Sá maður hjá hverjum kerið fannst hann skal vera minn þjón. En fari þér í friði upp til yðar föðurs.“

Þá gekk Júda að honum og sagði: „Minn herra, leyf þínum þénara að tala eitt orð fyrir þínum eyrum, minn herra, og að þú reiðist mér ekki þínum þénara því þú ert sem sjálfur faraó. [ Minn herra spurði sína þénara að og sagði: Hafi þér og einn föður eða bróður? [ Þá svöruðu vér: Vér höfum einn gamlan föður og einn ungan svein sem hann gat í sinni elli, en hans sammæddur bróðir er látinn og þessi er einn eftir af sinnar móður sonum og hans faðir elskar hann. Þá sagðir þú til þinna þénara: Færið hann hingað ofan til mín, eg vil auðsýna honum náð. Þá svöruðu vér mínum herra: Sveinninn má ekki koma frá sínum föður. En ef hann fer frá honum þá deyr hann. Þá sagðir þú til þinna þénara: Komi ekki yðar yngsti bróðir hingað með yður þá skulu þér ekki sjá mitt andlit framarmeir.

Þá fórum vér af stað og komum heim til þíns þénara, míns föðurs, og kunngjörðum honum míns herra orð. Þá sagði vor faðir: Ferðist af stað aftur og kaupið oss fæðslur nokkrar. Þá svöruðum vér: Ekki þurfum vér að fara ofan þangað nema því aðeins að vor yngsti bróðir sé með oss, þá viljum vér fara þangað, því vér þorum ekki að sjá þess manns andlit ef vor yngsti bróðir er ekki með oss. Þá sagði þinn þénari, minn faðir, til vor: Þér vitið að mín kvinna Rakel hefur fætt mér tvo sonu, annar þeirra fór heiman frá mér og segja menn að hann hafi verið rifinn í hel og síðan hefi eg ekki séð hann. [ Og ef þér takið nú þennan frá mér og kemur honum nokkur ólukka til á veginum þá munu þér leiða mínar hærur til grafarinnar með harmi.

Nú ef eg kem heim til þíns þénara, míns föðurs, og sveinninn er ekki með oss, fyrir því að hans sál hangir við sveinsins sál og nær hann sér að sveinninn er ekki með oss þá mun hann deyja. So færum vér þá, þínir þénarar, hærur vors föðurs, þíns þénara, með hjartans sorg til grafarinnar. Því að eg, þinn þénari, er í borgan fyrir sveininn við minn föður og sagði eg: Ef eg færi þér hann ekki aftur þá vil eg sekur vera alla mína daga. Lát nú þar fyrir þinn þénara vera eftir í sveinsins stað að þjóna mínum herra og lát sveininn fara upp með sínum bræðrum. Því að eigi get eg farið upp til míns föðurs ef að sveinninn er ekki með mér so eg sjái uppá þá hörmung sem koma mun yfir minn föður.“