XXXVII.

Sálmur Davíðs

Eigi skaltu gramur vera þeim illu, vert ekki heldur öfundsamur þeim illgjörðamönnum. [

Því að svo sem gras verða þeir skjótlega niðurslegnir og líka sem það hinu grænu jurtir þá þorna þeir upp.

Vona þú á Drottin og gjör hið góða, bú þú í landinu og leita þinnar atvinnu [ ærlega.

Haf þú þína unaðsemd á Drottni, hann mun gefa þér hvað sem þitt hjarta beiðist.

Bífala þú Drottni þinn veg og vona á hann, hann mun því vel til vegar koma

Og hann mun þína réttvísi hér framleiða sem ljós og þitt réttarfar líka sem hádegið.

[ Haltu kyrru fyrir fyrir Drottni og haf vaktan á honum, vert ei reiður við þá hverra illska að hefur framgang.

Yfirgef þú reiðina og lát í burtu fara þá grimmdarheiftina, reiðst þú ekki svo að þú einnin illa gjörir.

Því að þeir hinu illgjörnu verða afmáðir en hinir sem bíða Drottins þeir munu landið erfa.

Innan lítils tíma þá mun hinn óguðhræddi ei lengur vera og nær eð þú leitar að hans stað mun hann allur í burtu.

En hinir hógværu munu landið erfa og unaðsemd hafa í miklum friði.

Hinn óguðhræddi umsitur þann réttláta og nístir sínum tönnum til samans yfir honum.

En Drottinn hann hæðir að honum því að hann sér fyrir það hans dagur muni koma.

Hinir óguðhræddu rykkja út sverðum úr slíðrum, spenna upp bogann sinn svo að þeir felli hina fátæku og fáráðu og niðurdrepi hinn réttferðuga

en þeirra eigin sverð munu innganga í sjálfs þeirra hjarta og þeirra armbrysti mun í sundur brotna.

Það hið litla sem hinn réttláti hefur er betra heldur en þau hinu miklu auðæfin margra óguðhræddra.

Því að armleggur ómildra mun í sundur brotna en Drottinn hann styrkir hinn réttferðuga.

Drottni eru kunnir dagar þeirra hinna flekklausu og þeirra auður mun vara eilíflega.

Þeir munu ei til skammar verða í þeirri vondri tíð og á þeim hallæristímum munu þeir nógan saðning hafa.

Því að hinir ómildu munu fyrirfarast og þeir óvinir Drottins, þó þeir væri svo sem lystilegur aldingarður þá munu þeir þó so niður hjaðna líka sem reykur að öngvu verður.

Hinn óguðhræddi tekur lán og betalar ekki en sá hinn réttferðugi er miskunnsamur og gjafmildur. [

Því að þeir sem af honum blessaðir eru munu landið erfa en hinir aðrir sem af honum bölvaðir eru munu afmáðir verða.

Af Drottni mun greiðast þess manns gangur og hann hefur mikla þóknan á hans vegi.

Þó eð hann hrasi þá verður hann ekki í burt kastaður því að Drottinn heldur í hönd með honum.

Eg var ungur og em nú gamall orðinn og ekki hefi eg nokkurn tíma séð hinn réttferðuga vera yfirgefinn né hans sæði þurfa mat að þiggja.

Alltíð er hann miskunnsamur og lánar gjarnan og hans sæði mun blessað verða.

Lát af illsku og gjör gott og bú um aldur og ævi.

Því að Drottinn hann elskar réttindin og yfirgefur ekki sína heilaga, að eilífu verða þeir varðveittir en sæðið óguðhræddra mun fyrirfarast.

Hinir réttferðugu erfa landið og búa þar inni um aldur og ævi.

Munnur hins réttferðuga mælir visku og hans tunga hún talar réttindin.

Lögmálið hans Guðs er í hans hjarta, hans gangur skriðnar ekki.

Hinn óguðhræddi umsitur þann réttferðuga og leitar við honum í hel að koma

en Drottinn yfirgefur hann ekki í hans hendur og fyrirdæmir hann ei þá eð hann verður dæmdur.

Bíð þú Drottins og varðveit hans veg, þá mun hann upphefja þig svo að þú landið erfir, þú munt það sjá að hinir óguðhræddu verða afmáðir.

Eg sá einn óguðhræddan, sá var ríkilátur og hann þandi sig út og blómgaðist sem sedrusviður.

Og þá eg gekk þar framhjá, sjá þú, þá var hann horfinn, eg spurði að honum en hann fannst hvörgi.

Vertu meinlaus og réttsýn því að slíkum mun að síðustu vel ganga.

En hinir ranglátu munu allir til samans afmáðir verða og hinir óguðhræddu munu um síðir afmáðir verða.

En Drottinn hann hjálpar réttlátum, hann er þeirra styrkur á hörmungartímanum.

Og Drottinn mun hjá þeim standa og frelsa þá, hann mun í frá óguðhræddum frelsa þá og þeim hjálp veita því að þeir treysta á hann.