II.

Og þriðja dag þar eftir varð brúðkaup til Kana í Galilea og þar var móðir Jesú. [ Jesús var boðinn og hans lærisveinar til brúðkaupsins. Og er þá þraut vínið sagði móðir Jesú til hans: „Þeir hafa eigi vín.“ Jesús sagði til hennar: [ „Þú kona, hvað hefi eg með þig? Mín stund er ei enn komin.“ Móðir hans sagði við þjónustumennina: „Hvað helst hann segir yður, það gjörið.“ En þar voru sex steinker, sett eftir venju ebreskrar hreinsunar. Hvert eitt tók tvo eða þrjá mælir. Jesús talaði til þeirra: „Fyllið upp kerin af vatni.“ Og þeir fylltu þau allt á barma. Og hann sagði þeim: „Hellið nú á og færið kæmeistaranum. Og þeir færðu honum. En þá kæmeistarinn smakkaði vínið það vatn hafði verið vissi hann ekki hvaðan það kom en þjónustumennirnir sem vatnið sóttu vissu það. Hann kallar á brúðgumann og segir honum: „Allir menn gefa í fyrstu gott vín og nær þeir gjörast ölvaðir þá það hið léttara. En þú hefur geymt hið góða allt til þessa.“

Þetta er hið fyrsta jarteikn það Jesús gjörði til Kana í Galilea og hann opinberaði sína dýrð og hans lærisveinar trúðu á hann. Eftir það fór hann ofan til Kapernaum, hann og móðir hans, bræður hans og lærisveinar og voru þar eigi mjög marga daga.

Þá var og nálæg páskahátíð Gyðinga. Og Jesús fór upp til Jerúsalem og fann í musterinu sitjandi þá sem seldu naut, sauði, dúfur og þá sem umskipti gjörðu á peningum. [ Þá gjörði hann sér svipu af strengjum og rak út alla af musterinu, bæði naut og sauði og hratt niður peningum og borðum þeirra er umskiptin gjörðu og sagði við þá sem dúfurnar seldu: „Beri þér þetta burt héðan og gjörið eigi míns föðurs hús að söluhúsi!“ Hans lærisveinar hugleiddu þá hvað skrifað er: „Vandlæti húss þíns át mig.“

Þá önsuðu Júðar og sögðu honum: „Hvert teikn sýnir þú oss að þú megir þetta gjöra?“ Jesús svaraði og sagði þeim: [ „Brjótið þetta musteri en eg skal á þriðja degi það uppreisa.“ Þá sögðu Gyðingar: „Þetta musteri er uppbyggt í sex og fjörutígi ár en þú vilt uppreisa það á þrim dögum?“ Hann talaði um musteri síns líkama. Og þá hann var af dauða upprisinn hugleiddu hans lærisveinar að hann hafði þetta mælt og trúðu Ritningunni og þeim orðum er Jesús hafði talað.

En sem hann var í Jerúsalem um páska, á þeim hátíðardegi, þá trúðu margir á hans nafn, þeir sem sáu þau tákn er hann gjörði. En Jesús trúði þeim eigi til um sjálfan sig af því að hann þekkti alla og þurfti eigi við að nokkur bæri manninum vitni því að hann sjálfur vissi hvað með manninum var.