XIIII.

Samson gekk ofan til Timnat og sá þar eina kvinnu í Timnat á meðal þeirra Philisteis dætra. Og sem hann kom upp til sinna foreldra þá kunngjörði hann þetta sínum föður og sinni móðir og sagði: „Eg hefi séð eina kvinnu í Timnat meðal dætra þeirra Philisteis. Gefið mér nú þá ina sömu til eiginkonu.“ Hans faðir og móðir svöruðu honum: „Er þar nú engin kvinna á meðal þinna bræðradætra og hjá öllu þínu fólki að þú vilt fara þangað og fá þér eiginkvinnu hjá þeim óumskornu Philisteis?“ Samson svaraði sínum föður: „Lát mig fá þessa því hún þóknast mínum augum.“ En hans faðir og móðir vissu ekki að þetta var svo til sett af Drottni því hann leitaði yrkisefnis hjá Philisteis. Því að þeir Philistei drottnuðu í þann tíma yfir Ísrael.

Þá gekk Samson með sínum föður og sinni móður ofan til Timnat. [ Og sem þau komu að víngarði staðarins, sjá, þá kom leónshvölpur öskrandi á mót honum. Og Guðs andi kom yfir hann svo að hann sleit leónið so sem þá maður í sundurslítur eitt hafurkið og hafði þó alls ekkert í sinni hendi. Og eigi sagði hann sínum föður né móður frá þessu hvað hann hafði gjört.

En sem hann kom nú ofan talaði hann við kvinnuna og hún þóknaðist augum Samsonar. Og nokkrum dögum þar eftir kom hann aftur að fastna hana. Og hann gekk af veginum að sjá leónshræið og, sjá, að býflygi hafði borið hunang í leónshræið. Og hann tók það í sína hönd og át þar af á veginum og gekk til síns föðurs og sinnar móður og gaf þeim þar af og þau átu. En hann lét þau ekki vita að hann hafði tekið hunangið af leónshræinu. [

Og nú sem hans faðir kom ofan til konunnar þá gjörði Samson sitt brúðkaup þar so sem háttur var til ungra manna. Og sem þeir sáu Samson gáfu þeir honum þrjátígi lagsmenn sem hjá honum skyldu vera. [ En Samson sagði til þeirra: „Eg mun bera upp fyrir yður eina gátu. Sé það svo að þér getið leyst hana innan þessara sjö brullaupsdaga þá skal eg gefa yður þrjátígi skyrtur og þrjátígi hátíðarkyrtla. En ef þér getið ekki leyst mína gátu þá skulu þér gefa mér þrjátígi skyrtur og þrjátígi hátíðarkyrtla.“ [ Þeir svöruðu honum: „Ber þú upp þína gátu og lát oss heyra hana.“ Hann sagði þeim: „Matur fór út af etanda og sætleiki af þeim sterka.“ Og þeir gátu ekki ráðið þessa gátu í þrjá daga.

Á þeim sjöunda degi sögðu þeir til Samsons kvinnu: „Gjör þig blíða við bónda þinn og fá þú af honum að hann segi oss þessa gátu elligar þá skulum vér brenna þig og þíns föðurs hús með eldi. Hafi þér til þess innboðið oss að þér viljið útarma oss eða eigi?“ [ Kvinnan bað með tárum Samson og sagði: „Hatar þú mig en elskar ekki. Þú hefur borið upp eina gátu fyrir sonum míns fólks og ekki skýrt mér hana.“ Hann svaraði henni: „Sjá, eg hefi ekki sagt mínum föður og eigi minni móður það og ætlar þú að eg muni segja þér það?“

Og hún grét fyrir honum þá sjö daga á meðan brúðkaupið stóð yfir. En á þeim sjöunda degi sagði hann henni allan sannleik hér á því hún gjörði honum ónæði. Og hún sagði sonum síns fólks gátuna. Þá mæltu borgarmenn til hans á þeim sjöunda degi áður sólin gekk niður: „Hvað er sætara en hunang? Eða hvað er sterkara en león?“ Þá sagði Samson til þeirra: „Hefðuð þér ekki arið til með minni kvígu þá hefðu þér ekki getað leyst gátu mína.“

Og andi Drottins kom yfir hann og hann gekk ofan til Askalon og drap þar þrjátígi manna og tók þeirra klæðnað og gaf þeim hátíðaklæði sem réðu hans gátu. Og hann varð ákaflega reiður og fór upp til síns föðurs húss. En Samsons kvinna var gift öðrum, einum af hans stallbræðrum sem honum tilheyrði.