XXVIII.

Og er vér komust af þá vissum vér að eyin hét Melite. En þeir lýðir sýndu oss eigi litla vináttu, kveiktu eld og meðtóku oss alla vegna þess hreggviðris er yfir oss hafði drifið og fyrir kulda sakir. En þá Páll var að tína saman hrúgu með smáviðu og lagði á eldinn þá skreið naðra úr loganum og hrökktist á hönd hans. [ En er það sáu eyjarmenn að kvikvendið hékk á hendi hans sögðu þeir sín á milli: „Endilega mun þessi manndrápari vera hverjum hefndin leyfir ekki að lifa þó hann sé úr sjávarháska leystur.“ En hann flengdi nöðrunni á eldinn og honum varð ekkert meint af. En þeir meintu að hann mundu uppþrútna eður jafnsnart dauður niður detta. Og sem þeir höfðu lengi eftir því beðið og sáu ekkert vont á honum verða umhverfðu þeir sínu sinni og sögðu hann guð vera.

En í þeim sömu takmörkum hafði foringi eyjarinnar sín híbýli sá Publius hét, hver oss meðtók og veitti um þrjá daga allvingjarnlega. [ En so bar til það faðir Publii lá kvalinn í köldu og blóðfalli. Til hans gekk Páll inn og baðst fyrir og lagði hendur yfir hann og gjörði hann heilbrigðan. Þá það var skeð komu og hinir aðrir á eyjunni þangað sem sóttir höfðu og létu sig lækna og þeir veittu oss miklar virðingar. Og er vér sigldum þaðan lögðu þeir til hvað oss var þarfsamlegt.

En eftir þrjá mánuði sigldu vér þaðan á því skipi er var úr Alexandria hvert að í eyjunni hafði legið um veturinn. Það hafði fyrir merki tvíburateikn. Og er vér komum til Syracusa vorum vér þar í þrjá daga. Þaðan sigldum vér um kring og komum til Region. Og einum degi þar eftir sem sunnanvindur tók að blása komu vér annars dags til Puteolon hvar vér fundum bræðurna og urðum af þeim beðnir það vér tefðum hjá þeim um sjö daga. Og so komum vær í Romam. Og er þeir bræður sem þar voru heyrðu af oss gengu þeir út í móti oss allt til Apiser og Tretabern. Og þá er Páll leit þá gjörði hann Guði þakkir og fékk trúarefling. En þá vér komum í Romam afenti undirhöfðinginn bandingjana þeim æðsta hershöfðingja. [ En Páli var lofað að vera hvar honum líkaði með þeim einum stríðsmanni sem á honum tók vakt.

Það skeði á þriðja degi þar eftir að Páll samankallaði hina æðstu menn af Gyðingum. Þá þeir voru til samans komnir sagði hann til þeirra: [ „Þér menn, góðir bræður, eg hefi ekkert í gegn voru fólki gjört né í móti föðurlegri siðvenju og em þó bundinn Rómverjum í hendur fenginn hverjir mig vildu hafa lausan látið þá það höfðu mig heyrt með því að þar fannst enginn dauðasök með mér. En þá Gyðingar mæltu því í mót neyddust eg til að skjóta mér fyrir keisarann. Eigi so það eg hefða um nokkuð að áklaga mitt fólk. En fyrir það tilefni samankallaði eg yður það eg mætta sjá og samtal hafa við yður. Því fyrir sakir vonar Ísrael em eg þessari festi umvafður.“

Þeir sögðu til hans: „Engin bréf höfu vær fengið þinna vegna af Gyðingalandi og enginn bróðir er þaðan kominn sá af þér hafi nokkuð vont kunngjört eður til þín talað. Þó fýsir oss að heyra af þér hvað þú heldur því af þeim villudóm er oss það kunngjört að honum verði alls staðar í móti mælt.“ Og sem þeir einkuðu honum dag til þá komu margir til hans í herbergið hverjum hann útlagði og vitnaði Guðs ríki og taldi um fyrir þeim út af Jesú úr Moyses lögmáli og spámönnunum í frá morni allt til kvelds. Og nokkrir út af þeim trúðu því sem hann sagði en sumir trúðu því eigi.

Og er þeir voru ei samþykkir sín á milli gengu þeir í burt þá Páll talaði eitt orð: „Vel hefur heilagur andi sagt fyrir Esaiam spámann til feðra vorra, so mælandi: Far þú til þessa fólks og seg: Með eyrum munu þér það heyra og ei skilja og með augunum munu þér það sjá og ei þekkja. Því hjarta fólks þessa er forharðnað og með eyrunum heyra þeir þunglega og sín augu hafa þeir samanlukt so að þeir sjái ei með augunum og heyri ei með eyrunum og so þeir skilji ei með hjartanu og snerust so eg læknaði þá. Fyrir því sé yður kunnigt það heiðingjum er sent þetta Guðs hjálpræði og þeir munu heyra það.“ [ Og er hann talaði þetta gengu Gyðingar út frá honum og höfðu þrætu mikla sín á milli. En Páll bleif um tvö ár í sínu leiguhúsi og meðtók alla þá er til hans inngengu, prédikandi Guðs ríki og boðandi það hvað er var af Drottni Jesú Christo með allri röksemd án fyrirboðunar.