XXIIII.

En eftir fimm daga fór Ananías kennimannahöfðingi og öldungarnir ofan og meður þeim Tertúllus mælskumaður, hverjir sig tjáðu fyrir landsdómaranum í gegn Páli. [ En að Páli fyrirkölluðum tók Tertúllus til að áklaga hann og sagði: „Af því vér lifum í miklum friði undir þér og margar sæmdir veitast þessu fólki fyrir þína framsýni, ágjatasti Felix, hvað vér jafnan og í hvern stað til vor kjósum með allri þakkargjörð. En að eg dragi það eigi langsamlega fyrir þér bið eg þig fyrir þína manndyggð að þú heyrir oss fáein orð.

Þennan mann höfum vér fundið skaðlegan þann sundurþykki uppæsir meðal allra Gyðinga um allan heim og foringja hins naðverska villudóms. Hann hefur og einnin viðurleitast að saurga musterið, hvern vér gripum og vildum hafa dæmt hann eftir lögum vorum en Lysias yfirhöfðingi kom þar fram og greip hann með miklu ofurefli úr vorum höndum, bjóðandi hans áklögurum til þín að koma. Af hverjum þú mátt kenna ef sjálfur vilt eftirgrennslast alla þá hluti um hverja vér áklögum hann.“ Þá lögðu Gyðingar til og sögðu það so vera.

En Páll (þá er landstjórnarinn bauð honum að tala) svaraði: [ „Með því að eg veit þig nú um mörg ár dómara verið hafa þessarar þjóðar vil eg sjálfur með óskelfdu hugarfari mína sök forsvara. Því að þú mátt vita að það eru eigi meir en tólf dagar það eg kom aftur upp til Jerúsalem að biðjast fyrir. Og eigi hafa þeir fundið mig tala við nokkurn í musterinu eður gjörandi nokkurt upphlaup með fólkinu, hvorki í borgum né samkunduhúsum, og eigi geta þeir þetta sannað um hvað þeir kæra mig.

En það játa eg þér að eg þjóna (eftir þeim vegi hvern þeir kalla villudóm) so Guði minna feðra að eg trúi öllu því hvað í lögmálinu skrifað er og spámönnönum, hafandi þá von til Guðs hverrar þeir sjálfir vænta, einkum upprisu framliðinna, bæði réttlátra og ranglátra. En í þessu sama iðka eg sjálfan mig jafnan að hafa hindranarlausa samvisku bæði við Guð og menn.

En mörgum árum eftir kom eg og færða mínu fólki ölmusugjafir og offur. Þar með fundu þeir mig að eg lét mig hreinsa í musterinu, eigi með hávaða né nokkru upphlaupi. En þar voru nokkrir Gyðingar úr Asia hverjir hér ættu að vera fyrir þér og áklaga mig ef þeir hefði eitthvað mér í móti. Elligar lát þessa sjálfa segja hvort þeir hafa nokkurt rangferðugt á mér fundið á meðan eg stend hér fyrir ráðinu, nema alleinasta fyrir þessa eins orðs sakir þá er eg stóð þeirra í milli og kallaði: Um upprisu framliðinna verð eg í dag af yður áklagaður.“

Og er Felix heyrði þetta teygði hann fyrir þeim því að hann vissi grannt af þessum vegi og sagði: [ „Nær Lysias yfirhöfðingi kemur ofan þá vil eg forheyra yðar málefni.“ En hann skipaði undirhöfðingjanum að forvara Pál og láta hann hafa hvíld og fyrirbjóða ei neinum af hans að þjóna honum eður til hans að koma.

Nokkrum dögum þar eftir kom Felix með húsfreyju sinni Drusilla hver eð var Gyðingakyns. Þau kölluðu á Pál og heyrðu af honum um trúna sem er á Christum. En þá Páll talaði um réttvísi og hreinlífi og af eftirkomanda dómi skelfdist Felix og ansaði: „Gakk héðan að sinni. Nær eg hefi tómstund til mun eg þig kalla láta.“ En hann vænti jafnframmi það honum mundi peningar gefast af Páli so að hann léti hann lausan. Fyrir því lét hann oftsinnis kalla á hann og átti tal við hann. En að liðnum tveimur árum kom Portíus Festus í Felix stað. Felix vildi þá sýna Gyðingum velsemd og lét þá Pál bundinn eftir sig. [