XI.

Sem þeir voru á vegi þá þeir komu til Haram, hvað að er á miðjum vegi til Níníve, á hinum ellefta degi, þá mælti engillinn: „Tóbías minn bróðir, þú veist vel hversu þú skildir við föður þinn. Ef þér líkar so þá skulu við fara heim undan en húsfrú þín með hjúum ykkar og búsmala skal fara eftir á í hægðum.“ Og sem Tóbías líkaði þetta vel segir Rafael: [ „Hafðu hjá þér nokkuð af galli fisksins því þess mun þér þörf gjörast.“ Tók þá Tóbías með sér gall fisksins og fóru undan sína leið.

En Hanna sat daglega við þjóðbraut upp á bergi nokkru so hún mætti sjá víða langt til. Og sem hún horfði eftir honum úr þeim sama stað varð hún vör við son sinn langt frá og þekkti hann jafnsnart, hljóp hún þá heim og sagði þetta bónda sínum og mælti: „Sjá, hér fer sonur þinn.“

Og þá talar Rafael til Tóbías: „Jafnskjótt sem þú kemur til húss so bið þú og ákalla til Drottins og gjör honum þakkir. Síðan skaltu ganga til föður þíns og minnast við hann. Og strax þá smyr þú augu hans með gallinu úr fiskinum er þú hefur með þér og allt í senn munu lúkast upp augu hans og fær faðir þinn þá aftur sýn og verður harla feginn.“

Hleypur hundurinn þá heim undan sá þeir höfðu með sér haft og drattar halanum, stökkur upp og þykist við allt skylt eiga. Og faðir hans blindur sprettur strax á fætur og flýtir sér so mjög að hann meiðir sig. Kallar hann þá á einn svein þann er heldur í hönd honum og leiðir hann í móti syni sínum. Sömuleiðis gjörir móðir hans einnin og kysstu hann og grétu bæði saman af feginleik. Þegar nú sem þeir höfðu gjört sína bæn og Guði þakkað settust þeir niður.

Þá tekur Tóbías gallið fisksins og smyr þar með augu föður síns. Og þolir hann það nærri um hálfa stund. Tók þá slímið að fara af augum hans so sem hinna af eggi og hann dró það af hans augum. Fékk hann þá strax aftur sýn sína. Og lofuðu Guð hann og hans húsfrú og allir þeir eð það spurðu. Þá mælti Tóbías: „Þakkir gjöri eg þér, Guð Drottinn Israelis, að þú hefur hirt mig og þó aftur á ný heilan gjört mig so að eg sé nú minn sæta son.“

Að liðnum sjö dögum kemur Sara sonarkona hans með allri sinni fylgd, fénaði og úlföldum. [ Flutti hún með sér mikið gull, so og fé það er hann hafði fengið af Gabel. Sagði Tóbías þá sínum foreldrum frá hversu mikið gott að Guð hafði sýnt honum fyrir félaga hans er ferðaðist með honum. Komu þá til Tóbías frændur hans, Akíor og Nabat, og báðu honum hamingju og samfögnuðu með honum fyrir allt það gott sem Guð hafði honum gefið. Og sjö daga í samt mautuðust þeir allir til samans og voru glaðir.