XV.

Eftir þetta kom andi Drottins yfir Assarja son Óbeð. [ Hann gekk út í mót Assa og sagði til hans: „Heyr mig Assa og allur Júda og Benjamín. Drottinn er með yður því að þér eruð með honum og þá þér leitið að honum lætur hann yður finna sig. En ef þér yfirgefið hann þá mun hann yfirgefa yður. Þar skulu líða margir dagar í Ísrael að þar mun enginn sannur Guð vera, enginn prestur sá sem kennir og ekkert lögmál. Og þá þeir snúa sér í sinni neyð til Drottins Guðs Ísraels og leita að honum þá mun hann láta sig finna. [ Og á þeim tíma skal þeim ekki vegna vel sem að ganga út og inn því þar skal verða ein stórmikil hörmung yfir öllum þeim sem búa á jörðunni. Því eitt fólk skal berjast í móti öðru og einn staður í mót öðrum því Guð skal skelfa þá með alls kyns angist. En þér skuluð vera með einu góðu geði og takið ekki yðar hendur þar frá því yðar gjörningur hefur sín laun.“

En sem Assa heyrði þessi orð og spádóm Óbeð spámanns þá styrktist hann og í burt tók allar svívirðingar af öllu Júda- og Benjamínslandi og svo líka af þeim borgum sem hann hafði unnið á fjallinu Efraím og hann endurbætti altari Drottins það sem stóð fyrir Drottins fordyrum. [ Og hann samansafnaði öllum Júda og Benjamín og þeim útlendu af Efraím, Manasse og Símeon því margir af þeim í Ísrael féllu til hans þá þeir sáu að Drottinn hans Guð var með honum.

Og þeir söfnuðust saman í Jerúsalem í þeim þriðja mánuði á fimmtánda ári ríkis Assa og færðu Drottni þann sama dag fórnir af því herfangi sem þeir höfðu heimfært, sjö hundruð uxa og sjö þúsund sauði, og þeir bundu samtök með sér að leita Drottins þeirra feðra Guðs af öllu hjarta og af allri sálu. Og hver sá sem ekki vildi leita Drottins Ísraels Guðs hann skyldi missa lífið, meiri háttar og minni, bæði menn og kvinnur. [ Og allur Júda varð glaður yfir eiðnum því að þeir höfðu svarið af alúð síns hjarta og þeir leituðu hans af öllum vilja og hann lét þá finna sig og Drottinn gaf þeim frið umhverfis.

Og kóng Assa afsetti sína móður Maeka af [ valdinu því hún hafði stiftað Mipleset í einum lundi. Og Assa afmáði hennar Mipleset og braut það í sundur og brenndi það í læknum Kedron. [ En þær hæðir í Ísrael voru ekki burt teknar. Þó var Assa hjarta rétt alla hans daga. Og hann flutti inn í Guðs hús það sem hans faðir hafði helgað og það hann sjálfur hafði helgað, silfur, gull og ker. Og þar var enginn ófriður inn til þess fimmtánda og tuttugasta árs Assa kóngs.