XI.

En Atalía móðir Ahasía þá hún sá að sinn sonur var dauður tók hún sig upp og lét drepa allt konunglegt kyn. [ En Jóseba, dóttir Jóram kóngs, Ahasía systir, hún tók Jóhas, son Ahasía, og kom honum leynilega undan frá kóngsins sonum sem í hel voru slegnir með hans fóstru í eitt svefnherbergi. [ Og hann var geymdur fyrir Atalía svo hún gat ekki deytt hann. Og hann var fæddur upp á laun með sinni fóstru í húsi Drottins sex ár. En Atalía var drottning í landinu.

En á því sjöunda ári sendi Jójada út og tók til sín þá inu yppustu hundraðshöfðingja, höfuðsmenn og stríðsmenn og bauð þeim að koma til sín í Drottins hús og gjörði sáttmál við þá og tók einn eið af þeim í Drottins húsi og sýndi þeim kóng síns son. [ Og hann bauð þeim og sagði: „Þetta er nú það sem þér skuluð gjöra. Þriðji partur af yður skal ganga á þvottdeginum og halda vörð yfir kóngsins húsi. En annar flokkur skal vera hjá því porti Súr og hinn þriðji flokkur hjá því porti sem liggur á bak stríðsmannabúðum. Þér skuluð og so halda vörð yfir Massa húsi. En tvær sveitir af yður öllum á þvottdegi skulu ætíð halda vörð og fylgd kóngi í húsi Drotins. Og þér skuluð vera í kringum kónginn, allir vopnaðir. Og ef nokkur gengur inn um garð musterisins sá skal dauða deyja. En þér skuluð vera hjá kónginum ætíð nær hann gengur út og inn.“

Og hundraðshöfðingjarnir gjörðu allt það sem Jójada prestur bauð þeim og þeir tóku sína menn að sér, þeir sem inngengu í hátíðarhaldið, með þeim sem útgengu frá hátíðarhaldinu og komu til Jójada prests. En presturinn fékk hundraðshöfðingjunum spjót og skjöldu sem átt hafði Davíð kóngur og varðveitt voru í Guðs húsi. [ Og fylgdarmenn stóðu í kringum kónginn, hver með sinni verju í sinni hendi, frá því hægra horni hússins og að því vinstra horni á mót altarinu og í kringum húsið. Og hann leiddi kóngsins son fram. Og hann setti kórónu á hann og afhenti honum [ vitnisburðinn og þeir settu hann til kóngs og glöddust með fagnaði og klöppuðu lófum saman og sögðu: „Vor kóngur fái lukku!“

En sem Atalía heyrði hark og háreysti fólksins þá kom hún með öðru fólki í Drottins hús og sást um og sjá, þá stóð kóngurinn við stólpann so sem siður var til en söngvararnir og spilmennirnir stóðu hjá kónginum og allt landsfólkið var fagnandi og blésu í básúnir. Þá reif Atalía í sundur í sín klæði og sagði: „Svikræði, svikræði!“ En Jójada prestur bauð þeim hundraðshöfðingjum hverjir að settir voru yfir herinn og sagði til þeirra: „Leiðið hana út af musterinu í garðinn og ef nokkur fylgir henni þá drepið hann með sverði.“ Því presturinn hafði sagt: „Hún skal ekki deyja í Drottins húsi.“ Og þeir lögðu hendur á hana og þeir færðu hana á þann veg sem kallast Hestahlið og liggur til kóngsins garðs og þar drápu þeir hana. [

Þá gjörði Jójada eitt sáttmál á millum Drottins og kóngsins og fólksins að þeir skyldu vera Drottins fólk. Svo og gjörði hann sáttmála í millum kóngsins og fólksins.

Eftir það gekk allt landsfólkið í Baals kirkju og niðurbraut hans altari og niðurbraut hans bílæti ofan í grunn og þeir slógu Natan Baals prest í hel fyrir altarinu. Og kennimaðurinn setti fyrirsjónarmenn yfir Drottins hús. Og hann tók hundraðshöfðingjana og hermenn og allt fólkið landsins og þeir færðu kónginn ofan frá Drottins húsi og komu á veginn þann sem lá frá skutulsveinaportinu til kóngsins húss og hann setti sig í kóngsins hásæti. Og allur landslýður varð glaður og borgin stöðvaðist. En þeir slógu Athaliam til dauðs hjá kóngsins húsi. Og Jóas var sjö ára gamall þá hann tók kóngdóm.