XVII.

Philistei draga nú her saman til bardaga og söfnuðust saman í Sókó í landi Júda og settu sínar herbúðir millum Sókó og Aseka við landsenda Damen. En Saul og Israelismenn komu saman og settu sínar herbúðir í Eikidal og bjuggust til bardaga á móti Philisteis. En Philistei tóku sér stöðu öðrumegin á einni hæð og þeir Israelite öðrumegin á annarri hæðinni so að eitt dalverpi var á milli þeirra.

Þá gekk fram af herbúðum Philisteis einn risi. [ Hann hét Golíat (og var) af Gat. Hann var sex álna hár og þverar handar betur. Hann hafði eirhjálm á höfði og spangarbrynju hafði hann svo þunga að hún vó fimm hundruð siclos. Brynhosur hafði hann af eiri á beinum og eirskjöld á herðum. Og hans spjótskaft var sem vefjarrifur og járnið hans spjóts vó sex hundruð siclos járns. Og hans skjaldsveinn gekk fyrir honum.

Og hann stóð við og hrópaði á Ísraels herlið og sagði til þeirra: „Því eru þér útfarnir að búast til bardaga? Er eg ekki einn Philisteus en þér þjónar Saul? Útveljið einn af öllum yður og látið hann koma hingað til mín. Ef hann getur barist við mig og yfirunnið mig so skulum vér vera yðrir þénarar. [ En ef eg get yfirunnið hann og fellt hann þá skulu þér vera vorir þrælar og þjóna oss.“ Og þessi Philisteus sagði: „Á þessum degi hefi eg hæðilega talað við Ísraels her. Látið mig fá þann mann að hann gangi á hólm við mig.“ Nú sem Saul og allur Ísraelslýður heyrði þessa Philistei orð þá blöskraði þeim og þeir urðu mjög hræddir.

Davíð var eins manns son af Efrata af Betlehem í Júda sem hét Jesse. Hann hafði átta sonu og var gamall á dögum Saul og vel aldraður á millum annarra manna. Og þeir þrír stæstu og elstu synir Jesse voru í herför með Saul. Sá elsti hét Elíab, annar Abínadab en þriðji Samma. En Davíð var yngstur. [ En þessir þrír inir elsu fóru í stríð með Saul. Þá fór Davíð heim aftur til síns föðurs frá Saul og gjætti hjarðar síns föðurs í Betlehem. En þessi Philisteus gekk fram bæði kveld og morna og bauð sig fram í fjörutígi daga.

En Jesse sagði til síns sonar Davíðs: „Minn son, tak fyrir þína bræður eitt efa byggs og þessi tíu brauð og far sem skjótast til þinna bræðra þar þeir eru í hernum, og þessa tíu feska osta, og ber þá til höfuðsmannsins og verð vís um þína bræður, hvað þeim líður, og gjör hvað þeir bífala þér.“ En Saul og allir Ísraelsmenn voru í Eikidal og börðust við Philisteis.

Á þeim næsta degi þar eftir reis Davíð snemma upp og fékk mann til að gæta hjarðar og gekk sinn veg og bar það sem hans faðir Jesse hafði boðið honum og kom að vagnborginni. Þá var herfólkið útdregið og komið í sín herklæði og æpti heróp því að Ísrael hafði fylkt sínu liði. Þeir Philistei voru og búnir til bardaga á móti Ísrael.

Davíð lét í geymslu það hann bar hjá þeim sem fansinn geymdi og rann fram til hersins, fann sína bræður og heilsaði þeim. Og sem hann var að tala við þá, sjá þú, í því kom fram sá risi sem hét Golíat, Philisteus af Gat. Hann gekk fram fyrir her Philistinorum og talaði so sem fyr og Davíð heyrði það.

En hver maður í Ísrael þá hann leit þennan mann flýði hver um sig fyrir honum og miklum ótta sló yfir alla. Og hver sagði til annars: „Hvort sástu þennan mann fram ganga? Því að hann er kominn að tala háðung til Ísrael. Og hver sem hann fellir þann vill kóngurinn sæma miklum auðæfum og gefa honum sína dóttur. Hann vill og gjöra frjálst hans föðurs hús af öllum þyngslum.“ Þá sagði Davíð til þeirra manna sem stóðu hjá honum: „Hvað skal sá sem yfirvinnur þennan Philisteum og burt tekur þetta brígsli af Ísrael? Því hvör er þessi hinn óumskorni Philisteum sem svo brígslar þeim lifandi Guðs her?“ Þá andsvaraði fólkið Davíð so sem áður: „Þvílíkt skal sá fá sem fellir þennan mann.“

En sem hans elsti bróðir Elíab heyrði hvað hann talaði við mennina varð hann reiður við Davíð og sagði: „Því komst þú hingað og hvar fyrir skildist þú við þá fáeina sauði geymslulausa í eyðimörkinni? Þekki eg drambsemi þína og illsku hjarta þíns. Þú ert hingað kominn að sjá bardagann.“ Davíð svaraði: „Hvað hefi eg nú gjört annað en það sem mér hefur verið bífalað?“ Og hann sneri frá honum til annars og talaði sömu orð sem fyrr. En fólkið svaraði honum so sem áður.

En sem fólkið heyrði þessi orð sem Davíð sagði þá kunngjörðu þeir það Saul. Og hann lét kalla á hann. Og Davíð sagði til Saul: „Einskis manns hjarta þarf að skelfast þess vegna. [ Þinn þénari skal fara og berjast við þennan Philisteum.“ Þá sagði Saul til Davíðs: „Eigi getur þú farið í móti þessum Philisteo að berjast við hann því þú ert einn smásveinn en hann er bardagamaður frá sínum barndómi.“

Davíð sagði til Saul: „Þinn þénari gætti hjarðar föður síns og þar kom eitt león og einn björn og tók einn sauð í burt frá hjörðinni. [ Og eg rann eftir honum og sló hann og eg frelsaði so sauðinn af hans munni. En sem hann reisti sig upp í móti mér þá greip eg hann og tók eg í hans [ kampa og sló eg hann svo í hel. Svo hefur þinn þénari drepið bæði león og bjarndýr. So mun og verða þessi óumskorni so sem einn af þeim því hann hefur lastað lifanda Guðs her.“ Og Davíð sagði: „Sá Drottinn sem frelsaði mig frá leóninu og birninum hann mun frelsa mig frá þessum Philisteo.“

Þá sagði Saul við Davíð: „Far þú, Drottinn sé með þér.“ Og Saul færði Davíð í sín klæði og setti eirhjálm á hans höfuð og færði hann í eina brynju. Og Davíð gyrti sverði yfir sín klæði og tók til að ganga því hann hafði aldrei reynt það fyrr. Þá sagði Davíð til Saul: „Eigi kann eg að ganga so því eg hefi eigi þar vana til.“ Og hann lagði herklæðin af sér. Og hann tók sinn staf í hönd og útvaldi sér fimm slétta steina af einum lækjarfarveg og kastaði þeim í sína fjártösku og í skreppu sína og tók stafslöngu í hönd sér og gekk svo í móti þessum Philisteo. Golíat gekk fram og fór í mót Davíð og hans skjaldsveinn gekk undan honum.

En sem Golíat getur að líta við og sér Davíð forsmáir hann hann því Davíð var einn smásveinn, rauðleitur og fagur í andliti. Og Philisteus sagði til Davíðs: „Hvert em eg hundur að þú kemur með einn staf í móti mér?“ Og hann bölvaði Davíð í sínum goðum og sagði til hans: „Kom til mín, eg skal þitt hold gefa fuglum loftsins og dýrum jarðar!“ En Davíð svaraði: „Þú kemur í móti mér með sverð, spjót og skjöld en eg kem í móti þér í Drottins Sebaóts nafni hver að er Guð Ísraels hers þann þú hefur spottað. [ Á þessum degi mun Drottinn gefa þig í mína hönd svo að eg skal fella þig og taka þitt höfuð af þér og gefa í dag líkami Philisteis hers fuglum loftsins og hrækvikindum jarðar svo að öll lönd viti að Ísrael hefur einn Guð og allur þessi almúgi skuli fá að vita að hjálp Drottins er ekki komin undir sverði og spjóti. Því að bardaginn er Drottins og hann mun gefa yður í vorar hendur.“

En sem Golíat stóð upp gekk hann fram og ætlaði að Davíð. Davíð skundaði og rann frá hernum í mót Golíat og greip stein úr tösku sinni, slengdi síðan og hæfði beint framan í ennið á Philisteo svo að steinninn festi í hans enni en Golíat féll áfram til jarðar. Svo sigraði Davíð þennan Philisteum með slöngu og steini og sló hann í hel. [ En því að Davíð hafði ekkert sverð í hendi þá hljóp hann að Golíat og tók hans sverð og rykkti því úr valinu og drap hann og hjó af hönum höfuðið.

En þegar að Philistei sáu það að þeirra sterkasti kappi var fallinn lögðu þeir á flótta. En Ísraelsmenn og Júda tóku sig upp, æptu heróp og sóttu eftir Philisteis allt þangað til menn komu í dalinn og allt að Ekrons portdyrum. Og Philistei féllu slegnir á veginum allt til borgarhliða Gað og Ekron. Og Ísraelssynir hvurfu aftur af flóttarekstrinum þeirra Philisteis og ræntu herbúðir þeirra. En Davíð tók Golíats höfuð og bar það til Jerúsalem en vopn hans lagði hann í tjaldbúð sína.

Í þann tíma sem Saul sá að Davíð gekk út á móti þeim Philisteo sagði hann til Abner síns hershöfðingja: „Hvers son er sá sveinn?“ Abner svaraði: „Svo sannarlega sem þín sál lifir, kóngur, þá veit eg það ekki.“ Kóngurinn svaraði: „Far og spyr að hvers son að sá sveinn sé.“ Þá Davíð kom nú aftur og hafði drepið Philisteum tók Abner hann og leiddi hann inn fyrir Saul en Davíð hélt á Golíats höfði í sinni hendi. Og Saul spurði hann að: „Hvers son ert þú, ungi sveinn?“ Davíð svaraði: „Eg er sonur þíns þénara Jesse í Betlehem.“