VIII.

Sem Samúel tók að eldast setti hann sonu sína dómendur yfir Ísrael. [ Hans frumgetinn son hét Jóel en sá annar Abía og þeir voru dómendur í Bersaba. En hans synir gengu ekki eftir hans vegum heldur hneigðust þeir til ágirndar og meðtóku gáfur af mönnum og hölluðu réttinum.

Þá samansöfnuðust allir inu elstu menn af Ísrael og komu til Ramat til Samúel og sögðu til hans: „Sjá, þú ert nú orðinn gamall og þínir synir ganga ekki í þín fótspor. Þar fyrir set þú einn kóng yfir oss þann yfir oss kann að dæma so sem allar þjóðir hafa.“ [

En þetta mislíkaði Samúel að þeir sögðu: „Set yfir oss kóng sem kann að dæma yfir oss.“ [ Og Samúel bað til Drottins. Og Drottinn sagði til Samúel: „Hlýð þú orðum fólksins í öllu því sem það talar við þig. Því þeir hafa ekki útskúfað þér heldur mér að eg skuli ekki vera kóngur yfir þeim. Þeir gjöra við þig svo sem þeir hafa ætíð gjört frá þeim degi sem eg færði þá út af Egyptalandi allt til þessa dags og hafa yfirgefið mig og þjónað öðrum guðum. Þar fyrir hlýð þú nú þeirra raust en þó skalt þú vitna fyrir þeim og undirvísa þeim kóngsins rétt sem stjórna skal yfir þeim.“

Og Samúel sagði fólkinu öll þessi orð Drottins, þeim sem beiddust kóngsins af honum: [ „Þetta skal vera kóngsins réttur sem stjórna skal yfir yður: Hann skal taka yðar sonu til sinna vagna og gjöra þá riddara og fyrirrennara sem hlaupa skulu fyrir hans vögnum. Og suma mun hann setja til höfðingja yfir þúsund og yfir fimmtígi og suma skal hann gjöra að akurverksmönnum sem vinna skulu hans akra og suma að kornskurðarmönnum og suma að tilreiða hans herklæði og það sem heyrir til hans vögnum. [ Yðar dætur mun hann gjöra sér að þjónustukonum til smyrslagjörðar og matargjörðar og brauðbaksturs.

Hann skal og taka yðar bestu akra og víngarða og oleugarða og gefa það sínum þénurum. Hér með skal hann og taka tíund af yðar sæðum og víngörðum og gefa sínum geldingum og þénurum. Hann skal og taka yðar þénara og þjónustupíkur og yðar fegurstu ungmenni og yðar asna til sinnar vinnu. Hann skal og taka tíundir af yðar hjörð og þér skuluð vera hans undirgefnir þrælar. Og þá þér kveinið á þeim tíma undan yðar kóngi sem þér hafið útvalið yður þá skal Drottinn ekki bænheyra yður á þeim sama tíma.“

Og fólkið vildi ekki hlýða Samuelis fortölum og sögðu: „Í öngvan máta, heldur skal kóngur vera yfir oss so vér megum vera so sem allar aðrar þjóðir so að vor kóngur megi dæma yfir oss og fara út fyrir oss í bardaga vora.“ En Samúel hlýddi öllu því sem fólkið mælti og tjáði þetta fyrir Drottni. Og Drottinn sagði til Samúel: „Hlýð þeirra raust og set þeim einn kóng.“ Síðan sagði Samúel til Israelismanna: „Farið heim hver í sinn stað.“