IX.

Þá kallaði Tóbías engilinn til sín sem hann ætlaði að maður mundi vera og talar til hans: [ „Asarías, minn bróðir, heyr þú orð mín. Þó eg gæfi þér sjálfan mig til þræls þá væri það einskisvert hjá þínum velgjörðum. Ekki að síður bið eg þig: Tak þessa þræla og úlfalda og farðu til Gabels í borg Medorum Rages og fær honum handskrift þessa og tak við peningunum af honum og bið hann að koma til brúðkaups míns. [ Því að þú veist að faðir minn telur stundir og daga og ef eg væri einum degi lengur í burt hryggðist þá enn framar hans önd. So og veistu hversu mikillega að Ragúel hefur beðið mig svo eg má honum eigi nei segja.“

Þá tók engillinn Rafael fjóra af þrælum Ragúels með sér og tvo úlfalda og fór til borgarinnar Rages og fann Gabel og fékk honum handskriftina og tók við öllu fénu af honum og sagði honum af syni Tóbías allt það sem gjörst hafði og bauð honum til brúðkaupsins.

Og þar þeir allir samt komu heim aftur til húsa Ragúels fundu þeir Tóbías sitjandi yfir máltíð. Og þeir risu upp hvorir í móti öðrum og kysstust. Og Gabel tárfelldi, lofaði Guð og sagði: [ „Blessi þig Guð Drottinn Ísrael því að þú ert sonur góðs manns, réttferðugs og guðrækins, hver að mikið gott hefur gjört þurfandi mönnum. Blessuð sé þín húsfrú og foreldrar. Gefi það Guð að þið sjáið ykkar börn og barnabörn allt í þriðja og fjórða ættlið. Og blessað sé þitt sáð af Ísraels Guði hver eð ríkir og drottnar að eilífu.“ Og þá þeir allir höfðu ansað „Amen“ gengu þeir til borðs. En brúðkaupsveisluna og gleðskapinn héldu þeir með guðhræðslu.