IX.

Og hann kallaði með hárri raust fyrir mínum eyrum og sagði: „Lát vitjunina staðarins nálægjast og hver einn skal hafa drápsvopn í sinni hendi!“ Og sjá þú, þar komu sex menn á veginn hingað frá því Yfirportinu sem stendur mót norðrinu og hver þeirra hafði eitt banvænlegt vopn í sinni hendi. Og þar var einn á meðal þeirra sem línklæði á sér hafði og ein skriffæri við sína síðu. Og þeir gengu þangað inn og stóðu hjá koparaltarinu.

Og dýrðin Guðs Ísraels lyfti sér upp frá kerúbín, yfir hverjum hún var undir hvelfing hússins, og kallaði á þann sem í línklæðunum var og skriffærin hafði við sína síðu. Og Drottinn sagði til hans: „Gakk þú í gegnum staðinn Jerúsalem og teikna með einu teikni í ennum þess fólksins sem stynja og aumka sig yfir öllum þeim svívirðingum sem þar ske inni.“

En hann sagði til þeirra hinna annarra so eg heyrða: „Gangið eftir honum í gegnum staðinn og sláið þar í bland, yðar augu skulu ekki vægja né þyrma. [ Sláið bæði gamla og unga, meyjar, konur og börn, alla til dauðs. En öngvan af þeim skulu þér áhræra sem teiknið hefur. En takið fyrst til á mínum helgidómi.“ Og þeir upphófu á því gamla fólkinu sem þar var fyrir húsinu.

Og hann sagði til þeirra: „Saurgið húsið og fyllið fordyrnar með dauða líkami. Gangið út.“ Og þeir gengu út og í hel slógu þá sem í staðnum voru. Og þá eð mannfallið var skeð þá var eg enn eftir orðinn. Og eg féll fram á mína ásjónu, kallaði og sagði: „Ó Drottinn Drottinn! Viltu þá fyrirfara þeim öllum sem eftir eru orðnir í Ísrael fyrst að þú úthellir so þinni reiði yfir Jerúsalem?“

Og hann sagði til mín: „Sú misgjörð hússins Ísraels og Júda er mikils til of stór. Þar er ekki utan ofríki í landinu og rangindi í staðnum. Því að þeir segja: Drottinn hefur yfirgefið landið og Drottinn hann sér oss ekki. Þar fyrir skal mitt auga ekki spara þá, eg vil og ekki sjá aumur á þeim heldur þá skal eg láta koma þeirra gjörning yfir höfuð þeim.“

Og sjá þú, að sá maðurinn sem í líninu var klæddur og skriffærin hafði við sína síðu svaraði og sagði: „Eg hefi svo gjört sem þú skipaðir mér.“