XXI.

Sálmur Davíðs fyrir að syngja

Drottinn, kóngurinn gleður sig í þínum krafti og hvað harla glaður er hann út af þínu hjálpræði!

Þú gefur honum sína hjartans vild og synjar ekki þess hvað hans munnur beiðist. Sela.

Því að þú yfirhellir hann með velsemdarblessun, kórónuna af gulli setur þú upp á hans höfuð.

Hann biður þig um líf og þú gefur honum langa lífdaga um aldur og að eilífu.

Mikil er hans dýrð í þínu hjálpræði, þú leggur honum vegsemd og prýði til.

Því að þú setur hann til blessunar eilíflega, þú gleður hann með fögnuði þíns andlits.

Því að kóngurinn hann vonar upp á Drottin og fyrir miskunnsemi Hins hæsta mun hann stöðugur standa.

Þín hönd mun finna alla þína óvini, þín hægri hönd mun hitta þá eð þig hata.

Þú munt gjöra þá líka sem eldsins ofn á tíma þinnar reiði, Drottinn mun uppsvelgja þá í sinni reiði og eldurinn mun uppéta þá.

Þeirra ávöxt muntu tortýnast láta af jörðu og þeirra sæði í burt frá mannanna sonum.

Því að þeir þenktu þér illt að gjöra og samsettu þær ráðagjörðir hverjar þeir fengu ekki fullkomnað.

Því að þú munt gjöra þá að [ örlum, þinn bogastreng muntu spenna í gegn þeirra augsýn.

Drottinn, upphef þig í þínum krafti, þá viljum vér syngja og lofa þitt magtarveldi.