II.

Og eg, góðir bræður, þá eg kom til yðar kom eg ekki meður orðahæð eður hárri visku til yðar að boða yður Guðs prédikan. Því eg hélt mig ekkert vita yðar á milli utan Jesúm Krist þann hinn krossfesta. Og eg var hjá yður meður veikleika og með ugg og ótta miklum. Mín ræða og mín prédikan var eigi í snilldarorðum mannlegrar visku heldur í auðsýningu andans og kraftarins so að yðar trú sé ei af mannlegri visku heldur af Guðs krafti.

En þar vér ræðum um það er þó speki á meðal þeirra sem algjörðir eru en þó engin þessa heims speki og eigi þessa heims höfðingja hverjir eð forganga heldur segum vér af þeirri heimuglegri hulinni Guðs speki hverja Guð hefur fyrirhugað fyrir aldir til vorrar dýrðar, hverja enginn þessara heims höfðingja hefur þekkt. Því ef þeir hefðu þekkt hana þá hefðu þeir eigi krossfest Drottin dýrðarinnar, heldur eftir því sem skrifað er: „Það eigi hafi auga séð og eigi eyra heyrt og ekki í mannsins hjarta komið hvað Guð hefur fyrirbúið þeim er hann elska.“ [

En oss hefur Guð það opinberað fyrir sinn anda. Því andinn rannsakar alla hluti, einnin djúpleika Guðdómsins. Hver manna er sá eð viti hvað í manninum er utan alleinasta sá andi sem með sjálfum honum er? So líka veit og enginn hvað Guðs er nema Guðs andi. En vér höfum ei meðtekið þessa heims anda heldur þann anda sem af Guði er so að vér vitum hvað oss er af Guði gefið, hvar vér og af segjum, eigi meður þeim orðum sem mannleg viska kennir heldur með þeim orðum sem heilagur andi lærir, dæmandi so andleg efni andlegana. En [ líkamlegur maður skynjar ekkert það sem er af Guðs anda af því að það er honum heimska og hann fær eigi skilið því að það hlýtur andlegana að úrskurðast. En sá andlegur er hann gegnumsér alla hluti en hann verður af öngum rannsakaður. Því að hver hefur þekkt hugskot Drottins eða hver lagði honum nokkuð ráð? En vér höfum Krists hugskot.