XXIIII.

Á hans dögum fór upp Nabúgodonosor kóngur af Babýlon og Jójakím varð honum skattgildur í þrjú ár. Og hann sneri sér og féll frá honum. Og Drottinn lét koma yfir hann stríðsfólk af Kaldea, af Syria, af Móab og af sonum Ammón og lét þá koma í Júda svo að þeir skyldu fyrirkoma honum, eftir orði Drottins sem hann hafði talað fyrir spámennina, sína þénara. Það kom svo yfir Júda eftir Drottins orðum að hann varpaði þeim frá sinni ásjónu sökum Manasses synda sem hann hafði gjört og fyri sökum þess saklausa blóðs sem hann úthellti og fyllti Jerúsalem með saklaust blóð. [ Það vildi Drottinn ekki fyrirgefa.

Hvað meira er að segja um Jójakím og allt hvað hann gjörði, sjá, það er skrifað í Júdakónga kroníku. Og Jójakím sofnaði með sínum feðrum og hans son Jójakín varð kóngur í hans stað. Og kóngur Egyptalands fór ekki þaðan í frá af sínu landi því kóngurinn af Babýlon hafði tekið frá honum allt það sem Egyptalandskóngur átti, frá Egyptalandslæk og allt að vatninu Euphrates.

Jójakín var átján ára gamall þá hann varð kóngur og hann ríkti þrjá mánuði í Jerúsalem. [ Hans móðir hét Nehústa, dóttir Elnatan af Jerúsalem. Og hann gjörði það sem Drottni illa líkaði so sem hans faðir.

Á þeim tíma fóru þénarar Nabogodonosor kóngs af Babýlon upp til Jerúsalem og komu til staðarins og settust um hann með herskildi. [ Og sem Nabogodonosor kom til borgarinnar með sínum þénurum þá settist hann um borgina. En Jójakín kóngurinn af Júda gekk út í móti kónginum af Babýlon með sinni móður, með sínum þénurum og með sínum höfðingjum og herbergissveinum. Og kóngurinn af Babýlon tók hann á því áttunda ári hans ríkis. Og hann tók í burt þaðan alla þá fésjóðu sem voru í Drottins húsi og í kóngsins húsi og braut í sundur öll gullker sem Salómon Ísraelskóngur hafði gjöra látið og sett í musteri Drottins, svo sem Drottinn hafði sagt.

Og hann herleiddi alla Jerúsalem, alla höfðingja, alla styrkvustu menn, tíu þúsund hertekna og alla trésmiði og allsháttaða smiði svo hann lét öngvan eftir vera nema fátækt almúgafólk í landinu. [ Og hann flutti Jójakín og kóngsins móður, kóngsins kvinnur og hans herbergjasveina til Babýlon. Hér með flutti hann og þá inu megtugu af landinu og af Jerúsalem í herleiðing til Babýlon og sjö þúsund trésmiði og hagleiksmenn, alla sterkustu stríðsmenn og flutti þá alla í Babýlon. [ En Babýlonskóngur setti Natanja hans föðurbróður til kóngs í hans stað og sneri hans nafni og kallaði hann Sedekía.

Sedekías hafði eitt ár og tuttugu að aldri þá hann varð kóngur og hann ríkti ellefu ár í Jerúsalem. [ Hans móðir hét Hamútal, dóttir Jeremie af Líbna. Og hann gjörði það sem Drottni illa líkaði so sem Jójakím gjörði. Því það skeði so með Jerúsalem og Júda af Drottins reiði þar til að hann kastaði þeim frá sinni ásjónu. Og Sedekías féll frá kónginum í Babýlon.