XI.

Og að árinu liðnu á þeim tíma sem kóngar voru vanir að fara herfarir þá sendi Davíð Jóab og sína þénara með honum og allan Ísrael og bauð þeim að þeir skyldu afmá Amónsyni og setjast um Rabba. [ En Davíð sat heima í Jerúsalem.

Svo bar til einn dag að Davíð stóð upp af sinni sæng eftir miðdag og gekk upp á loftið í kóngshöllinni og sá af loftinu og gat að líta hvar ein kvinna var að lauga sig og sú kvinna var harla fögur. Og Davíð sendi þangað og lét spyrja hver sú kvinna var og honum var sagt að hún hét Bersabe, dóttir Elíam, hústrú Úría Hetither. Og Davíð sendi boð þangað og lét sækja hana. Og sem hún kom inn til hans þá svaf hann með henni. Og hún hreinsaði sig af sínum saurindum og fór heim til síns húss. [

Og kvinnan fékk getnað og sendi þegar og lét kunngjöra það Davíð og sagði: „Eg em orðin ólétt.“

Þá sendi Davíð boð Jóab og lét honum segja: „Sent heim til mín Uriam Hetheum.“ Og Jóab sendi Uriam til Davíðs. Og sem Úrías kom heim fyrir kónginn þá frétti Davíð hvernin Jóab og herinn hefði sig og hversu bardaginn gengi. [ Og Davíð sagði til Úría: „Far í þitt hús og lauga fætur þína.“ En sem Úrías gekk út af kóngsins höllu þá var borin eftir honum kóngsins sending. Og Úrías fór að sofa fyrir hallardyrum með öðrum þjónustumönnum síns herra og fór ekki heim í sitt hús.

En sem Davíðs þénarar sögðu honum það að Úrías hefði ekki farið í sitt hús þá sagði Davíð til hans: „Ert þú ekki nýkominn heim af ferð? Því fórst þú ekki heim í þitt hús?“ Úría svaraði Davíð: „Örkin og Ísrael og Júda eru í tjöldum og Jóab, minn herra, og míns herra þénarar liggja á berri jörðu og skylda eg þá fara í mitt hús, eta þar og drekka og sofa hjá minni kvinnu? [ Fyrir þitt líf og heilsu andar þinnar skal mig það ekki henda.“ Davíð sagði til Úría: „Þá vertu hér í dag en á morgun vil eg láta þig fara aftur.“ Svo var Úrías í Jerúsalem þann dag og þann annan dag. Og Davíð hafði hann í boði sínu og hann át og drakk með honum og gjörði hann drukkinn. En að kveldi lagði Úrías sig að sofa í sinni sæng með síns herra sveinum og kom ekki í sitt hús.

Um morgun skrifaði Davíð bréf til Jóab og sendi það með Úría so látandi: [ „Setjið Uriam í öndverða fylking þar sem bardaginn er harðastur og víkið frá honum so að hann verði sleginn í hel.“ Sem Jóab barðist nú á borgina skipar hann Uriam þar til ásóknar sem hann vissi hraustasta stríðsmenn fyrir vera. En sem borgarmenn gengu út og börðust við Jóab þá féllu nokkrir af Davíðs þénurum og í þeirri svipan féll og Úrías Hetither. [

Þá sendi Jóab og lét undirvísa Davíð hvernin bardaganum gengi. Og hann bauð sendimanninum og sagði: „Nær þú hefur sagt kóngi allan atburð þessa bardaga og ef þú sér að hann verður reiður og segir til þín: Því gáfu þér yður undir borgina í þessu stríði? Vissu þér ekki hvernin menn plaga að skjóta ofan af borgarveggnum? Hver sló til dauða Abímelek, son Jerúbeset? Setti ekki ein kvinna kvarnarsteinsbrot í höfuð honum af múrnum svo hann dó í Tebes? Hvar fyrir gáfu þér yður undir borgarvegginn? Þá skalt þú segja: Þinn þénari Úrías Hetither er og svo fallinn.“

Sendimaðurinn fór og kom til Davíðs og flutti Davíð allt það sem Jóab hafði lagt fyrir hann. Og sendimaðurinn sagðí til Davíðs: „Borgarmenn báru oss ofurmegni og gengu út til vor á völluna en vér tókum í móti þeim og eltum þá að borgarhliði. En skotmennirnir báru skot ofan á oss af múrnum og drápu nokkra af kóngsins þénurum. Þar féll og Úrías Hetither, þinn þénari.“ Davíð svaraði sendimanninum: „Svo skalt þú segja Jóab: Lát ekki þetta á þig bíta því að ýmsir falla fyrir sverði. Eggja þú herlið þitt að herja á borgina so þú brjótir hana og verið allhraustir.“

Þegar Úrías kvinna fréttir að hennar bóndi Úrías var fallinn harmaði hún og grét dauða bónda síns. [ En sem hennar harmi linnti sendi Davíð eftir henni og lét leiða hana í sitt hús og hún varð hans eiginkvinna og fæddi honum einn son. En þetta mislíkaði Drottni er Davíð gjörði.