II.

Og á þeim fjórða og tuttugasta degi í þeim sétta mánaði og á öðru ári Darii kóngs, á þann fyrsta og tuttugasta dag í þeim sjöunda mánaði, þá skeði orð Drottins fyrir Haggeum propheta og sagði: [ Segðu til Sóróbabel Sealtíelssonar Júda höfðingja og til Jósúa Jósedekssonar kennimannshöfðingja og til þess eftirblífna fólks og seg: Hver er nú eftirblifinn á meðal yðar sem sá þetta hús í sinni fyrri fegurð? Og hvernin sjái þér það nú? Er það ekki so að það þykir yður einskisvert vera?

Og nú, Sóróbabel, vertu hughraustur, segir Drottinn. Vert öruggur, þú Jósúa Jósedeksson, þú prestahöfðingi. Verið hughraustir, allt fólk í landinu, segir Drottinn, og erfiðið því eg er með yður, segir Drottinn Sebaót. Eftir því orði þá eg gjörði sáttmála með yður þá þér dróguð af Egyptalandi, þá skal minn andi blífa með yður. Óttist ekki.

Því að so segir Drottinn Sebaót: [ Þar er nú einn lítill tími til að eg vil hræra himin og jörð, sjóinn og þurrlendið, já eg vil hræra alla heiðingjana. Þá skal sá huggari allra heiðingja koma. Og eg vil gjöra þetta hús fullt af dýrð, segir Drottinn Sebaót, því að bæði silgur og gull er mitt, segir Drottinn Sebaót. Þessi síðsta hússins dýrð skal vera stærri en hins fyrra var, segir Drottinn Sebaót. Og eg vil gefa frið í þessum stað, segir Drottinn Sebaót.

Á þeim fjórða og tuttugasta degi þess níunda mánaðar, á því öðru ári Darii, skeði orð Drottins til Haggeum propheta og sagði: So segir Drottinn Sebaót: Spyr prestana að lögmálinu og segðu: Ef nokkur ber heilagt kjöt í skauti síns kyrtils og áhrærði síðan með sama skauti brauð, kál, vín, oleum eða hvað fyrir mat það væri, verður það þá og heilagt? Og prestarnir svöruðu og sögðu: „Nei.“ Haggeus sagði: Ef nokkur óhreinn sá sem snortið hefur eitt hræ og ef hann snertur síðan eitt af þessu, verður það þá og óhreint? Prestarnir svöruðu og sögðu: „Það verður óhreint.“ Þá svaraði Haggeus og sagði: Líka so er þessi lýður og þessir menn fyrir mér, segir Drottinn, og allur gjörningur þeirra handa og það þeir offra er óhreint. [

Og sjáið nú hvernin það hefur gengið yður frá þessum degi og áður til forna fyrr en nokkur steinn var lagður upp á annan í musteri Drottins, að þegar nokkur kom til kornhrúgunnar sá sem hafa skyldi tuttugu mælikeröld þá urðu þar varla tíu. Kæmi hann til vínþrúgunnar og ætlaði að fylla fimmtígi tunnur þá urðu varla tuttugu. Því eg plágaði yður með þurrum vindi, brenndu korni og hagli í öllu yðar arfiði. En þó líka vel sneru þér yður ekki til mín, segir Drottinn.

Því gefið gætur að frá þessum degi og til forna, sem er frá þeim fjórða og tuttugasta degi á þeim níunda mánuði allt til þessa dags, sem lagðist grundvöllur á musteri Drottins. Hugleiðið það því sæðið liggur enn nú í hlöðunni og það ber nú enn ekki ávöxt, hvorki víntréð, fíkjutréð, granatatréð og ei heldur olíutréð. En frá þessum degi vil eg gefa blessan.

Og orð Drottins skeði í annan tíma til Haggeum, á þann fjórða og tuttugasta dag í mánuðinum, og sagði: Segðu til Sóróbabel höfðingjans í Júda og seg þú: Eg vil hræra himin og jörð og [ umvelta stólum kónganna og eyðileggja þá megtugu konunga heiðingjanna og eg vil bæði vögnum og riddörum umturna so bæði menn og hestar skulu niðurfalla hver fyrir annars sverði. Á sama tíma, segir Drottinn Sebaót, vil eg taka þig, Sóróbabel Séaltíelsson, minn þénara, segir Drottinn, og eg vil halda þér sem einum signetishring því eg hefi útvalið þig, segir sá Drottinn Sebaót.

Ending prophetans Haggei