VIII.

Nú sem sá hinn sjöundi mánuður var kominn og allir Ísraelssynir voru í sínum stöðum samansafnaðist allur almúginn svo sem einn maður á því breiða stræti sem liggur fyrir Vatsportsdyrunum og sagði til Esdra hins skriftlærða að hann skyldi láta sækja Móses lögmálsbók sem að Drottinn hafði boðið Ísrael. [ Og Esdra kennimaður bar lögmálsbókina fram fyrir allan almúgann, bæði menn og kvinnur og alla þá sem hana kunnu að skilja, á þeim fyrsta degi þess sjöunda mánaðar. [ Og hann las í henni á því breiða stræti hvert eð lá fyrir Vatsportinu frá því að lýsti um morguninn og inn til miðdags, fyrir köllum og konum og hverjum þeim sem skilja kunni. Og allt fólkið sneri sínum eyrum til lögmálsbókarinnar.

En Esdra sá skriftlærði stóð upp á einum hávum tröppum af tré hverjar þeir höfðu gjört að prédika á. Og þar stóðu hjá honum Matitja, Sema, Anaja, Úría, Hilkía og Maeseja til hægri handar. En hjá hans vinstri stóð Padaja, Nísael, Malkía, Hasúm, Hasbadana, Sakaría og Mesúllam. Og Esdra opnaði bókina fyrir öllu fólki því hann stóð upp yfir öllu fólkinu. [ Og sem hann upplauk henni þá stóð allt fólkið. Og Esdra lofaði Drottin þann mikla Guð en allt fólkið svaraði: „Amen, amen“ með sínum uppréttum höndum og beygðum knjám og tilbáðu Drottin, fallandi til jarðar. En Jesúa, Baní, Serebja, Jamín, Akúb, Sabtaí, Hódaja, Maeseja, klíta, Asarja, Jósabad, Hanan, Plaja og Levítarnir komu fólkinu til að hugleiða og gaumgæfa lögmálið. Og fólkið stóð hver í sínum stað. Og þeir lásu Guðs lögmálsbók klárlega og skilmerkilega so að allir máttu skilja það þeir lásu.

Og Nehemías (sem er Hatírsata) og Esdra kennimaður sá skriftlærði og Levítarnir sem eggjuðu fólkið til að hugleiða, þeir sögðu til alls almúgans: „Þetta er sá dagur sem er helgaður Drottni yðar Guði. Verið því ekki hryggvir og grátið ekki.“ Því að allt fólkið grét þá það heyrði lögmálsins orð. Því sagði hann til þeirra: „Farið og etið af því feita og drekkið af því hinu sæta, sendið þeim og nokkuð sem ekki hafa neitt tilreitt því að þessi dagur er helgaður vorum Guði. Þar fyrir sturlið yður ekki því að gleði Drottins er yðar styrkur.“ Og Levítarnir stilltu allt fólkið og sögðu: „Hafið hljótt því að þessi dagur er heilagur, hryggist ekki.“ Og allt fólkið gekk burt að eta og drekka og sendu einn part þar af og gjörðu sér einn mikinn fögnuð. Því að þeir höfðu skilið þau orð sem að lesin vorur fyrir þeim.

Og annars dags komu þeir yppustu feður til samans með öllu fólkinu og kennimennirnir og Levítarnir til Esdram þess skriftlærða að hann skyldi undirvísa þeim í lögmálsins orðum. [ Og þeir fundu skrifað í lögmálinu að Drottinn hafði boðið fyrir Mosen að Ísraelssynir skyldu búa í laufskálum á þeirri hátíð í þeim sjöunda mánuði. Og þeir létu það opinberlega kunngjörast og útberast um allar þeirra borgir og í Jerúsalem og sögðu: „Farið út á fjöllin og safnið viðsmjörsviðargreinum og öðrum laufviðargreinum af hörðum trjám, mirrutrjám, pálmviðartrjám og greinum af þykkvum trjám svo vér megum gjöra oss laufskála eftir því sem skrifað stendur.“

Og fólkið gekk út, sóttu viðina og gjörðu sér laufskála hver á sínu þaki og í sínum garði og í garðinum hjá Guðs húsi og á því breiða stræti hjá Vatsportinu og á því breiða stræti hjá Efraímsporti. Og sá allur almúgi af þeim sem komnir voru aftur af fangelsinu gjörðu laufskála og byggðu þar í. Því að Ísraelssynir höfðu ekki so gjört síðan Jósúa son Nún var og allt til þessa dags. Og þar var ein mjög stór gleði. Þar var og lesið í Guðs lögmálsbók hvern dag frá þeim fyrsta degi allt til hins síðasta. Og þeir héldu hátíðina í sjö daga en á hinum áttunda degi héldu þeir samkomuna svo sem tilheyrði.