II.

Og hann sagði til mín: „Þú mannsins son, statt upp á þína fætur, þá vil eg tala við þig.“ Og þá eð hann talaði svo við mig þá lifnaði eg við aftur og stóð upp á mína fætur og hlýddi honum sem talaði við mig.

Og hann sagði til mín: „Þú mannsins son, eg sendi þig til Ísraelssona, til þess frásnúna lýðsins sem mér er fráhorfinn orðinn. Bæði þeir og þeirra forfeður hafa gjört mér í mót allt til þessa dags. En þau börn til hverra að eg sendi þig hafa hörð höfuð og forhörðnuð hjörtu. Þú skalt segja til þeirra: So segir Drottinn Drottinn, hvort heldur að þeir hlýða því eða ekki – það er eitt óhlýðugt hús – þá skulu þeir þó samt vita að þar er spámaður á meðal þeirra.

Og þú, mannsins son, skalt eigi hræðast þá og ekki óttast þeirra orð. Þeir eru andvígir og hvassir klungurþyrnar hjá þér og þú býr á meðal flugorma. En þú skalt ei hræðast þeirra illyrði og ekki heldur uggablandinn vera fyrir þeirra yggldum tillitum þó að þeir séu samt eitt óhlýðugt hús heldur skaltu segja þeim mín orð hvort heldur að þeir hlýða þeim eða eigi. Því að það er eitt óhlýðugt fólk.

En þú, mannsins son, heyrðu hvað eg segi þér og vert ekki óhlýðugur svo sem það hið óhlýðuga húsið er. Lúk þínum munni upp og et það hvað eg mun gefa þér.“ Og eg leit til og sjá þú, þar var ein hönd útrétt á móti mér sem hafði eitt samanbrotið bréf. Það útbreiddi hún fyrir mér og það var alskrifað utan og innan og þar inni stóð skrifaður harmasprengur og sorgargrátur og eymdarvé og hann sagði til mín: „Þú mannsins son, et þú það sem fyrir þér er, sem er þetta bréfið, og gakk so í burt og prédika fyrir Ísraels húsi.“ Þá upplauk eg mínum munni og hann gaf mér bréfið að eta. Og hann sagði til mín: „Þú mannsins son skalt eta þetta bréf sem eg gef þér í þinn kvið og fylla þinn kvið þar með.“ Þá át eg það og það var so sætt í mínum munni sem hunang.

Og hann sagði til mín: „Þú mannsins son, gakk burt til Ísraels hús og prédika þeim mín orð. Því eg sendi þig ekki til þess fólks sem eitt framanda mál hefur og eitt ókunnigt tungutæki heldur til húsins Ísrael, já vissilega ekki til þess mikla múgafólksins sem hefur annarlegt mál og óskiljanlegt tungutæki, hverra orð að þú skilur ekki. Og þó að so væri að eg senda þig enn til þvílíkra þá mundu þeir þó gjarnan heyra þér. En Ísraels hús hefur hörð enni og harðúðug hjörtu. En þó hefi eg gjört þitt andlit hart í gegn þeirra andliti og þitt enni í gegn þeirra ennum. Já eg hefi gjört þitt enni svo hart sem einn adamas hver að harðari er en grjótsteinn. [ Þar fyrir óttast þú ekki og vert eigi hræddur við þá þó að þeir sé eitt svodan óhlýðugt hús.“