III.

Og sem sveinninn Samúel þjónaði Drottni fyrir Elí þá var Guðs orð dýrt á þeim sama tíma og þar urðu sjaldan vitranir.

Og það skeði svo á þeim sama tíma að Elí lá í sínum stað og hans augu voru næsta blind svo hann mátti ekki sjá. Og Samúel hafði lagt sig í musteri Drottins þar sem Guðs örk var áður en Guðs lampar slokknuðu. Og Drottinn kallaði: „Samúel.“ [ Hann svaraði: „Sjá, hér er eg.“ Og hann rann til Elí og sagði: „Sjá, hér er eg, þú kallaðir mig.“ Hann sagði: „Eg kallaði þig ekki. Far aftur til hvílu þinnar og sof.“ Og hann gekk í burt og lagði sig aftur til svefns.

Og Drottinn kallaði enn eitt sinn: „Samúel.“ Og Samúel stóð upp og gekk til Elí og sagði: „Sjá, hér er eg, þú kallaðir mig.“ Hann svaraði: „Eigi kallaði eg þig, minn son. Far burt aftur og legg þig að sofa.“ En Samúel þekkti þá enn ekki Drottin og mál Drottins hafði þá enn ekki birst fyrir honum. Og Drottinn kallaði Samúel í þriðja sinn. Og hann stóð upp og gekk til Elí og sagði: „Sjá, hér er eg, þú kallaðir mig.“ Þá merkti Elí að Drottinn kallaði sveininn og sagði til hans: „Far í burt aftur og legg þig að sofa. Og verði oftar kallað á þig þá svara þú: Tala þú, Drottinn, því þinn þénari heyrir það.“ Samúel gekk í burt og lagði sig í sinn sama stað.

Þá kom Drottinn og gekk þangað og kallaði sem fyr: „Samúel, Samúel.“ [ Og Samúel svaraði: „Tala þú því þinn þénari heyrir.“ Og Drottinn sagði til Samúel: „Sjá, eg gjöri einn hlut í Ísrael og hver það heyrir þar skal klingja fyri báðum hans eyrum. Á þeim degi vil eg upvekja yfir Elí það eg hefi talað í móti hans húsi. Eg vil uppbyrja og fullkomna það. Því eg hefi áður undirvísað honum það að eg vil vera dómari yfir hans húsi ævinlega sökum þess misgjörnings að hann vissi hversu hans synir breyttu sér skammarlega og hann leit ekki eitt sinn reiðuglega þar til. Því sór eg Elí húsi að þessi Elí hússins misgjörningur skyldi ekki verða forlíktur, hverki með fórnum né matoffri, ævinlega.“

Og Samúel lá allt til morguns og lauk upp dyrum á Drottins húsi. En ei þorði hann að segja Elí þessa sýn. Þá kallaði Elí hann og sagði: „Samúel, minn son.“ Hann svaraði: „Sjá, hér er eg.“ Elí sagði: „Hvað er það orð sem þér er sagt? Leyn öngu af fyrir mér. Guð gjöri þér það og það ef þú nú leynir nokkru fyrir mér af því sem þér er sagt.“ Þá sagði Samúel honum það allt saman og leyndi öngvu af. En hann sagði: „Hann er Drottinn, hann gjörir hvað honum er þekkt.“

Samúel vóx upp og Drottinn var með honum og þar féll ekki eitt af öllum hans orðum á [ jörð. Og allur Ísraelslýður frá Dan til Bersaba vissi að Samúel var Drottins trúlyndur spámaður. Og Drottinn opinberaðist upp frá þessu í Síló því Drottinn birtist Samúel í Síló fyrir Drottins orð. Og Samúel hóf upp að prédika fyrir öllum Ísrael.