V.

Líttu í kring þig, Jerúsalem, til austurs, og skoða þá huggun sem til þín kemur af Guði. [ Sjáðu, þín börn þau sem burt voru flutt koma, já þau koma samansöfnuð bæði af austri og af vestri fyrir orð Hins heilaga og prísa Guðs dýrð. Jerúsalem, afklæð þig þínum sorgarklæðum og ískrýðst þínum dýrðarskrúða af Guði eilíflega. Íklæðstu kyrtli Guðs réttlætis og set upp á þitt höfuð kórónu dýrðarinnar Þess eilífa. Guð mun opinbera gjöra þína vegsemd undir öllum himninum því að þitt nafn skal nefnast af Guði eilíflega „Friður, réttlæti, heiður og guðhræðsla“.

Tak þig upp, Jerúsalem, og far upp á hæðina og lít um kring til austurs og skoða þín börn sem bæði af vestri og austri eru til samans komin fyrir orð Hins heilaga og eru glöð að Guð hefur minnst þeirra aftur. Þau eru af óvinunum burt flutt frá þér gangandi en Guð mun leiða þau til þín upphafin með heiður líka so sem ríkisins börn.

Því að Guð vill lækka öll há fjöll og uppfylla þær löngu lægðir og dali með land svo að Ísrael megi ferðast óhræddur og vegsama Guð. En skógarnir og öll ilmandi tré skulu skyggja á Ísrael eftir skipan Guðs. Því að Guð skal leiða Ísrael hingað aftur með gleði, með sinni dýrðlegri huggun, með miskunnsemi og sínu réttlæti.

Í Guðbrandsbiblíu er ritið Bréf Jeremía birt sem 6. kafli Barúksbókar. Til einföldunar á framsetningu er textinn birtur á vefnum undir yfirskriftinni Bréf Jeremía.