XIII.

En þá kveld var komið gengu hans þénarar í burtu til tjalda og þeir voru allir drukknir. Og Bagóa lét aftur Holofernes herbergi og gekk í burtu. Og Júdít var einsömul hjá honum í herberginu. Þá Holofernis lá nú í sænginni, var drukkinn og sofandi, þá sagði Júdít til sinnar ambáttar að hún skyldi aðgæta úti fyrir herberginu.

Og Júdít gekk að sænginni og baðst fyrir í hljóði með grátandi tárum og sagði: „Drottinn Ísraels Guð, gef mér styrk og hjálpa mér mildilega að fullkomna þetta verk sem eg hefi með öllu trúnaðartrausti til þín mér fyrir hendur tekið, að þú upphefjir þinn stað Jerúsalem so sem þú hefur lofað.“

Eftir þessa bæn gekk hún að súlunni sem var hjá sænginni og tók sverðið sem þar hékk og dró það út og tók í hans hár og sagði í annað sinn: „Drottinn Guð gefi mér styrkleika á þessari stundu.“ Og hún hjó tvisvar á hálsinn með öllu afli. Þar eftir skar hún höfuðið af honum og velti bolun ofan úr sænginni og tók með sér sængarklæðið.

Því næst gekk hún út og fékk Holofernis höfuð sinni ambátt og bauð að kasta því í einn sekk. Og þær gengu út báðar saman eftir þeirra vana so sem að vildu þær ganga í gegnum herbúðirnar og biðjast fyrir og þær gengu um kring yfir um dalinn so að þær kæmi leynilega að staðarportinu.

Og Júdít kallaði til varðhaldsmannanna: „Látið upp portin því að Guð er með oss. Hann gaf Ísrael sigurvinninginn!“ Og er varðhaldsmennirnir heyrðu hennar raust þá kölluðu þeir jafnsnart á öldungana staðarins. Þeir komu allir til hennar það þeir voru allareiðu vonarlausir um það að hún mundi aftur koma. Þá kveiktu þeir ljós og gengu í kringum hana allt til þess hún kom á flötinn. Og hún bað þá að þegja og hlýða til og sagði svo:

„Þakki þér Drottni vorum Guði sem ekki yfirgefur þá sem honum treysta og oss hefur miskunn veitt fyrir mig, sína ambátt, so sem hann hét Ísraels húsi og hefur á þessari nóttu fyrirkomið fjandmanni fólks síns fyrir mínar hendur.“ Og hún tók upp höfuð Holofernis, sýndi þeim það og sagði: „Sjáið, þetta er höfuð Holofernis hershöfðingja þeirra Assyriis. Og sjáið, þetta er sængarklæðið undir hverju hann lá þá hann var drukkinn. Þá sló Drottinn Guð hann í hel með einni kvenmannshendi. So sannlega sem Drottinn lifir þá varðveitti hann mig fyrir sinn engil að eg er ekki saurguð orðin á meðan eg var úti og hann hefur leitt mig hingað aftur syndlausa með stórum fögnuði og sigri. Þar fyrir þakkið honum allir því hann er miskunnsamur og hjálpar ætíð.“

Og þeir þökkuðu allir Drottni og sögðu til hennar: „Blessaður sé Drottinn sá sem í dag hefur til skamamr gjört vorn óvin fyrir þig.“ Og Oseas Ísraelsfólks höfðingi sagði til hennar: [ „Blessuð ertu, dóttir, af Drottni þeim hæðsta Guði fram yfir allar kvinnur á jörðu. Og lofaður sé Drottinn sem skapað hefur himin og jörð, sá sem þér gaf lukku til að slá í hel höfðingjann vorra óvina og hefur gjört þitt nafn dýrðlegt að þeir skulu alltíð prísa þig, allir þeir sem minnast á verk Drottins, af því að þú hlífðir ekki þínu lífi í angist og neyð þíns fólks heldur hefur þú frelsað það fyrir Drottin vorn Guð.“ Og allt fólkið sagði: „Amen, amen!“

Því næst var Aríok kallaður. [ Og Júdít sagði til hans: „Ísraels Guð hvern þú hefur prísað að hann kynni að hefnast á sínum óvinum, hann hefur á þessari nóttu fyrirkomið höfði þeirra óguðlegu fyrir mína hönd. Og að þú sjáir það, þá er hér höfuð Holofernis sem drambsamlega lastaði Ísraels Guð og þér hótaði að slá þig í hel þá hann sagði nær Ísraelsfólk verður hertekið þá vildi hann í hel slá þig meður þeim.“ Og sem Aríok sá Holofernis höfuð varð hann hræddur so að hann leið niður. En sem hann raknaði við aftur féll hann niður fyrir fætur henni og sagði: „Blessuð ertu af þínum Guði í öllum byggðum Jakobs því að Ísraels Guð skal vegsamaður verða á þér meðal allra þjóða þar þíns nafns getið verður.“