XII.

Þá lét hann leiða hana þangað sem hans fjársjóðir voru geynmdir þar sem hún skyldi vera og bauð að gefa henni mat af sínu eigin borði. En Júdít svaraði og sagði: „Eigi þori eg enn nú að eta af þínum mat svo að eg syndgist ekki. En eg hefi haft nokkuð lítið með mér, þar af vil eg eta.“ Þá sagði Holofernes sjálfur: „Nær það er uppi sem þú hefur með þér haft, hvar skulu vér þá útvega þér þá meira?“ Júdít svaraði: „Minn herra, so víst sem þú lifi: Áður en þín ambátt hefur uppeytt öllu þessu þá mun Guð framkvæma fyrir mig það hann ætlar sér.“

Og þá þénararnir vildu leiða hana í tjaldið sem hann hafði boðið þá bað hún að hún mætti fá orðlof að ganga út kveld og morna og gjöra sína bæn til Drottins. Þá skipaði Holofernes sínum sængarsveinum að þeir skyldu láta hana hafa liðugan gang út og inn í þrjá daga að gjöra sína bæn til Guðs. Og á kveldin gekk hún út í það dalverpi gegnt Betulia og þvoði sig í vatni. Þar eftir bað hún til Drottins Ísraels Guðs að hann vildi gefa henni lukku þar til að frelsa sitt fólk. Og hún gekk heim aftur í tjaldið og hélt sér hreinni og neytti einskis fyrir aftaninn.

Á fjórða degi gjörði Holofernes sínum nánustu þénurum eina kveldmáltíð og hann sagði til Bagóa síns sængarsveins: [ „Far burt og tala þú um fyrir þeirri ebresku kvinnu að hún neiti ei að koma til mín. Því það er skömm fyrir þeim Assyriis að slík ein kvinna skuli fara ólegin frá oss og gabba so nokkurn mann.“ Þá kom Bagóa til Júdít og sagði: „Þú fríða kvinna, segðu ekki nei að koma til míns herra til æru og að eta og drekka með honum og að gjöra þig glaða.“ Þá sagði Júdít: „Hvörnin þori eg að varna mínum herra þess? Allt hvað minn herra vill það vill eg af hjarta gjarna gjöra alla mína daga.“

Og hún stóð upp og prýddi sig og gekk inn fyrir hann og stóð frammi fyrir honum. Þá veiktist Holofernis hjarta það hann brann af ástarhita til hennar. Og hann sagði til hennar: „Set þig niður, drekk og vert glöð það þú hefur fundið náð fyrir mér.“ Og Júdít svaraði: „Já herra, eg vil vera glöð því að um mína lífdaga hefi eg ekki svoddan æru fengið.“ Og hún át og drakk fyrir honum af því sem hennar ambátt hafði tilreitt. Og Holofernes gjörði sig glaðan með henni og drakk svo mikið sem hann var aldreigi vanur að drekka.