IX.

Því næst gekk Júdít í sitt svefnherbergi og færði sig í einn sekk og dreifði ösku yfir sitt höfuð og féll fram fyrir Drottni, kallaði til hans og sagði: [

„Drottinn Guð míns föðurs Símeons, hverjum þú gafst sverðið til að straffa heiðingjana sem jungfrúnni höfðu nauðgað og hana skammað. Og þú þar í mót lést fangaðar og herteknar verða þeirra kvinnur og dætur af þínum þénurum sem vandlættu þína vandlæting, hjálpa þú mér fátækri ekkju, Drottinn minn Guð. Því öll hjálp sem forðum daga og þar eftir er skeð, hana hefur þú veitt. Og hvað þú vilt það hlýtur að ske því að nær eð þú vilt hjálpa þá bregst það ekki og þú veist vel hvernin þú skulir óvinina straffa.

Lít þú nú yfir herlið þeirra Assyriis so sem þú forðum tíð leist til hers þeirra egypsku þá þeir runnu eftir þínum þénurum með mikilli magt og treystu upp á sína vagna, riddara og mikið herlið. [ En þá þú leist til þeirra þá urðu þeir hræddir og djúpið sló þeim niður og vatnið drekkti þeim. Lát nú so ske og þessa, Drottinn, þeir sem treysta upp á sína magt, vagna, spjót og skot og þekkja þig ekki og hugsa ekki að þú, Drottinn vor Guð, ert sá sem hjálpar í bardaganum frá upphafi og með réttu kallast Drottinn. [ Útréttu þinn armlegg so sem forðum og sundurslá óvinina með þinni magt að þeir fyrirfarist fyrir þína reiði, þeir sem hrósa sér að þeir skuli niðurbrjóta þinn helgidóm og saurga tjaldbúð þíns nafns og um koll kasta þínu altari með sínu sverði. Straffa þeirra drambsemi með þeirra eigin sverðum að hann verði veiddur með sjálfs hans augum þá hann sér mig og verði prettaður með mínum vinsamlegum orðum.

Gef mér stöðugleika að eg ekki hræðist hann og hans veldi heldur að eg geti niðurslegið hann. Það skal vera prís þínu nafni að ein kvinna hefur lagt hann við velli. Því þú, Drottinn, kannt að efa sigurvinning fyrir utan fólksfjölda og þú hefur ekki lyst á styrkleika hestsins. Þeir drambsömu þóknuðust þér enn nú aldrei en alltíð hefur þú haft þóknan á bæn þeirra sem eru aumir og lítillátir.

Drottinn Guð himnanna, þú sem skapað hefur vötnin og ert einn Drottinn allra hluta, heyr mína bæn fátækra, eg sem treysti alleina upp á þína miskunnsemd. Minnstu, Drottinn, á þinn sáttmála og gef mér orð í munn hvað eg skal tala og hugsa og gef mér lukku þar til so að þitt hús megi standa og allir heiðingjar megi formerkja að þú ert Guð og enginn annar en þú.“