XXIII.

Davíð gekk þaðan og flýði í eitt fylsni í Adóllam. [ En sem hans bræður og allt hans föðurs húss heyrði það þá komu þeir ofan þangað til hans. Og allir menn sem í nokkrum skuldum og vankvæðum voru og hryggðum voru vafðir söfnðuðust til hans. Og hann varð þeirra höfðingi so að þar urðu hjá honum nær fjögur hundruð manns.

Síðan gekk Davíð þaðan til Mispe í land Moabitarum og sagði til kóngsins í Móab: „Leyf mínum föður og minni móður að ganga hér út og inn hjá yður þar til að eg veit hvað Guð vill gjöra við mig.“ Og hann lét þau hjá Moabiters kóngi og þau voru hjá honum so lengi sem Davíð var í þeirra kastala. En prophetinn Gað sagði til Davíð: „Ver ekki lengur í þeim kastala heldur far aftur í Gyðingaland.“ [ Svo fór Davíð þaðan og kom inn í þann skóg sem heitir Haret. Það spurði Saul að Davíð og þeir menn sem hann hafði hjá sér voru út aftur komnir.

Sem Saul bjó í Gíbea og var staddur undir einum lundi í Rama og hélt á spjóti og allir hans þénarar stóðu í kringum hann þá sagði Saul til sinna manna sem í kring hann stóðu: „Heyrið, synir Jemíní! Mun son Jesse gefa yður öllum akra og víngarða og gjöra yður alla að höfðingjum yfir þúsund og yfir hundrað að þér hafið allir so sambundið yður á móti mér og þar er enginn sem þvílíkt hefur undirvísað mér fyrst að minn son hefur gjört samband með son Jesse? Og þar er enginn af yður sem slíkt harmi minna vegna og segi mér það. Því að minn sonur hefur uppvakið minn þræl í mót mér að hann situr um mig svo sem það augljóst er.“

Þá svaraði Dóeg Edomiter hver að stóð hjá kóngsins þénurum og sagði svo: [ „Eg sá son Jesse að hann kom í Nóbe til Ahímelek, son Ahítóp. Hann fór til frétta við Drottin hans vegna og gaf honum vistir og fékk honum sverðið það sem Golíat Philisteus hafði átt.“

Þá sendi kóngur og lét sækja Ahímelek kennimann, son Ahítóp, og allt hans föðurs hús og þá alla kennimenn sem voru í Nóbe. Og þeir komu allir til kóngsins. Og Saul sagði: „Heyrðu, son Ahítóp.“ Hann svaraði: „Hér er eg, minn herra.“ Og Saul sagði til hans: „Hvar fyrir bindur þú samtök í móti mér með syni Jesse og gafst honum brauð og fékkst honum sverð og ráðgaðist við Guð fyrir hann og uppvaktir hann að sitja um svikræði við mig svo sem augljóst er?“

Ahímelek andsvaraði kónginum og sagði: „Hver er þvílíkur á meðal allra þinna þénara sem Davíð, so dyggur, og kóngsins mágur, hlýðinn þínu boði og heiðarlega haldinn í þínu húsi? Mun eg þá fyrst byrjað hafa í dag að ráðgast um við Guð hans vegna? Það sé langt frá mér. Atli ekki kóngurinn sínum þénara slíkt í öllu mínu föðurs húsi. Því að þinn þénari vissi ekkert af þessu, hverki mikið né lítið.“

Kóngurinn svaraði Ahímelek: „Þú skalt sannlega deyja, þú og allt þitt föðurs hús.“ Og kóngurinn sagði til sinna þénara sem hjá honum voru: „Snúið yður og drepið kennimenn Drottins því að þeirra hendur eru með Davíð. Og þeir vissu þá hann flýði en kunngjörðu það ekki mér.“ En kóngsþénarar vildu ekki leggja sínar hendur á Guðs kennimenn að drepa þá. [ Þá talaði kóngurinn til Dóeg: „Far þú og vinn á þeim.“ Dóeg Edomita sneri sér við og vann á kennimönnunum og drap á þeim degi fimm og áttatígi kennimenn sem skrýddir voru lífkyrtlum. Hann sló og kennimanna borgina Nóbe með sverðseggjum, bæði menn og kvinnur, börn og brjóstmylkinga, hér með uxa og asna og sauði.

En einn komst undan af sonum Ahímelek, sonar Ahítób. [ Hann hét Abjatar og flýði til Davíðs og kunngjörði honum að Saul hafði drepið Guðs kennimenn. Þá svaraði Davíð Abjatar: „Sannlega vissa eg það á þeim degi þá Dóeg af Edóm var þar að hann mundi segja það Saul. Eg er sekur allra þeirra blóðs af þíns föðurs húsi. Nú vert þú með mér og óttast ekki því að hver sem leitar eftir þínu lífi sá skal og leita eftir mínu sjálfs lífi. Þú skalt hólpinn verða meður mér.“