XXII.

„Þér menn, góðir bræður og feður, heyrið nú mitt forsvar til yðar.“ [ En sem þeir heyrðu hann tala ebreska tungu til þeirra gjörðust þeir enn hljóðari. Og hann sagði: „Eg em maður Gyðingakyns, fæddur út í Tarsen í Cilicia en uppalinn í þessari borg til fóta Gamalielis og af öllu kostgæfi lærður í föðurlegu lögmáli og var laganna vandlætari líka sem þér eruð allir enn í dag. Eg hefi og þennan veg ofsótt allt til dauða. [ Eg batt og í varðhöld seldi bæði menn og konur so sem kennimannahöfðinginn og allir öldungar bera mér vitni um, af hverjum eg meðtók bréf til bræðranna og fór til Damasco það eg drægi þá bundna til Jerúsalem sem þar voru so að þeir mætti píndir verða.

En það skeði þá eg þangað fór og tók nálgast Damascum nær miðjum degi að leiftraði um mig skyndilega ljós mikið af himni og eg féll til jarðar og heyrði rödd þá er til mín sagði: [ Saul, Saul, hvar til ofsækir þú mig? En eg svaraði: Hver ertu, lávarður? Og han sagði til mín: Eg em Jesús af Naðsaret, hvern þú ofsækir. Og þeir sem með mér voru sáu að sönnu ljósið og urðu felmsfullir en röddina þá er við mig talaði heyrðu þeir ei. En eg sagða: Herra, hvað skal eg gjöra? Drottinn sagði til mín: Statt upp og gakk í Damascum. Þar mun þér sagt verða af öllu hvað þér tilskikkað er að gjöra. En sem eg gat ei séð fyrir ljósins bjartleik varð eg handleiddur af mínum förunautum og kom til Damascum.

En þar var guðhræddur mann eftir lögmálinu, Ananías, sá góðan orðstír hafði af öllum Gyðingum er þar bjuggu. [ Hann kom til mín, gekk að mér og sagði: Saul, bróðir, líttu upp. Og eg leit til hans á samri stund. Hann sagði þá: [ Guð feðra vorra hefur skikkað þig til að þú skyldir viðurkenna hans vilja og áttir að sjá Þann [ réttláta og heyra rödd af hans munni. Því að þú munt hans vottur verða til allra manna þeirra hluta sem þú hefur séð og heyrt. Og hvað tefur þig nú? Rís upp og lát skíra þig og afþvo so þínar syndir og ákalla þú nafn Drottins.

Það skeði og þá eg kom aftur til Jerúsalem er eg var á bæn í musterinu að eg varð numinn frá mér og eg sá hann. [ Þá sagði hann til mín: Skunda þig og far burt af Jerúsalem því að þeir meðtaka eigi þinn vitnisburð um mig. En eg sagða: Drottinn, þeir vita sjálfir það eg dró í myrkvastofu og lét lemja í ýmsum samkunduhúsum þá sem á þig trúðu. Og þá er blóð Stefáns þíns vottar úthelltist stóð eg þar hjá og var samsinnandi hans dauða og eg geymda þeirra föt sem hann í hel slógu. Og hann sagði til mín: Far héðan því að eg vil senda þig langt í burt meðal heiðinna þjóða.“ [

En þeir heyrðu honum allt að því orði, hófu upp raddirnar og sögðu: [ „Afmá þess háttar mann af jörðu því að honum er eigi leyfilegt að lifa!“ En sem þeir kölluðu vörpuðu þeir af sér klæðunum og fleygðu moldu í loft upp. Yfirhöfðinginn bauð þá að hann skyldi leiðast inn í kastalann og skipaði þeim að forheyra hann og húðstrýkja so hann fengi að vita fyrir hverja sök að þeir kölluðu so yfir honum. Og er hann reyrði hann að með taugum sagði Páll til undirhöfðingjans er stóð nær honum hvort þeim væri það leyfilegt að húðstrýkja rómverskn mann ódæmdan. [ Og er undirhöfðinginn heyrði það gekk hann til yfirhöfðingjans og undirvísaði honum það og sagði: „Hvað viltu til gjöra? Þessi maður er rómverskur.“

Þá kom yfirhöfðinginn þangað og sagði til hans: „Seg mér ef þú ert rómverskur?“ En hann sagði: „Já.“ Undirhöfðinginn svaraði: „Þennan borgarrétt hlaut eg ærnu fé að kaupa.“ Páll sagði: „Eg em rómverskur fæddur.“ Jafnskjótt gengu þeir frá honum sem hann skyldu hafa forheyrt og yfirhöfðinginn óttaðist eð hann fornam það hann var rómverskur að hann hafði látið binda hann.

Annan dag eftir vildi hann greinilegar vita fyrir hverja sök hann klagaðist af Gyðingum og leysti hann úr böndum og bauð kennimannahöfðingjum og öllu þeirra ráði samankoma og leiddi síðan Pál fram og setti hann hjá þeim.