XII.

Á þeim tíma lagði Heródes hendur á nokkra af safnaðinum að pína þá. [ Hann lét þá drepa Jakob bróður Johannis með sverði. Og er hann sá að það þekktist Gyðingum fór hann til og lét höndla Petrum. En þetta var um páska. Og sem hann hafði hann grípa látið lét hann setja hann í myrkvastofu og fékk hann í hendur inum fjórða parti fjórðungastaðaskiptis hermanna til varðveislu, viljandi eftir páskana framselja hann fólkinu. [ Og Pétur geymdist að sönnu í myrkvastofu. En söfnuðurinn bað í ákafa fyrir honum til Guðs. Og þá er Heródes vildi hann framleiða láta svaf Pétur á þeirri nótt meðal tveggja stríðsmanna, bundinn tveimur járnviðjum, en varðmenirnir forvöruðu úti fyrir dyrunum myrkvastofuna.

Og sjá, að engill Drottins stóð þar og ljós skein í húsinu. [ Hann laust á síðu Péturs, uppvakti hann og sagði: „Statt upp skyndilega.“ Og hlekkirnir féllu af hans höndum. Engillinn sagði þá til hans: „Gyrt þig og tak skó þína á þig.“ Og hann gjörði so. Hann sagði og til hans: „Legg þinn kyrtil yfir þig og fylg mér.“ Og hann gekk út og fylgdi honum. Og eigi vissi hann það til sanns sem fyrir engilinn gjörðist heldur meinti hann sig sýn sjá. Og þeir gengu um hið fyrsta og annað varðhald og komu til járnhliðsins er lá til borgarinnar en það lauk sér upp sjálft. Og þeir gengu út. En sem þeir reikuðu eitt stræti veik engillinn sér jafnsnart frá honum.

Og er Pétur kom til sjálfs síns sagði hann: „Nú veit eg sennilega það Drottinn sendi engil sinn og frelsaði mig af hendi Herodis og af allri eftirvæntan Gyðingalýðs.“ Og sem hann gætti sín kom hann til húsa Maríu móður Johannis þess sem kallaður var Markús hvar eð margir voru til samans komnir og báðust fyrir. En sem Pétur laust á dyrahurðina gekk stúlka fram að sjá til, sú Rode var að nafni. Og er hún þekkti hljóð Péturs lauk hún eigi upp hurðunni fyrir feginleika heldur hljóp hún inn og sagði að Pétur stæði úti fyrir hurðunni. En þeir sögðu til hennar: „Ertu galin?“ Hún hélt því fastara á að það væri so. Þeir sögðu: „Það er hans engill.“ En Pétur klappaði því tíðara á. Og er þeir luku upp sáu þeir hann og undruðust. En hann benti þeim með hendinni að þeir þegði og sagði frá hvernin Drottinn hefði leitt hann út úr myrkvastofunni og sagði: „Kunngjörið þetta Jacobo og bræðrunum.“ Hann gekk út þaðan og gekk burt í annan stað.

En þá dagur kom var eigi lítil angursemi á milli stríðsmannanna hvað vorðið hafði af Pétri. [ En er Heródes heimti hann og fann eigi lét hann forheyra varðmennina og skipaði þá burtleidda, fór síðan af Judea ofan til Cesarea og þar dvaldist hann. Því að hann var missáttur við þá í Tyro og Sídon. En þeir komu með einu samheldi til hans og ráðguðust um við Blastum, hver eð var konungsins dróttseti, og beiddust friðar af því að þeirra byggðarlög nærðust af konungsins landi. En á tilsettum degi klæddist Heródes konunglegum skrúða, settist á dómstólinn og hóf sér ræðu til þeirra. En fólkið tók að kalla: „Guðs rödd er þetta en eigi manns!“ Jafnskjótt sló hann engill Drottins af því hann gaf eigi Guð heiðurinn. [ Varð hann etinn af möðkum og andaðist.

Orð Drottins tóku að vaxa og margfaldast. En er Barnabas og Saulus komu til Jerúsalem aftur og afventu þeim þær vistir og tóku með sér Johannem þann er að viðurnefni hét Markús.