V.

Og Holofernes stríðshertuginn af Assyria fékk að vita að Ísraelssynir bjuggust við og vildu reisa vörn og að þeir höfðu inntekið klettana á fjöllunum. Þá reiddist Holofernes og heimti til sín alla höfðingja og höfuðsmenn þeirra Moabitis og Ammonitis og sagði til þeirra: „Segið fram, hvað fyri fólk er það sem býr á fjöllunum? Hverjar hafa þeir sterkar borgir? Hver er styrkur þeirra og hvað fyrir stríðsfólk og kónga hafa þeir að þeir alleina heldur en allir aðrir í Austurálfu fyrirlíta oss og hafa ekki útgengið í móti oss að meðtaka oss með friði?“

Þá svaraði Akíor, sá eð höfðingi var allra Ammónssona, og sagði: [ „Minn herra, vilt þú ljúflega heyra það þá vil eg segja þér sannleik, hvaða fólki er þetta sem á fjöllum þessum býr og ei ljúga fyrir þér. Þetta fólk er komið úr Kaldealandi og bjó í fyrstu í Mesopotamia því að þeir vildu ekki fylgja afguðum sinna foreldra. [ Þar fyrir yfirgáfu þeir sína forfeðra siðvenjur hverjir eð höfðu marga afguði so þeir gæti þjónað einum Guði á himnum hver eð einnin bauð þeim að fara burt þaðan og að búa í Haram.

Og þá hallæri var í öllum löndum reistu þeir ofan í Egyptaland. Þar fjölgaði þá svo í fjögur hundruð ár að þeir urðu ekki taldir. En þá Egyptalandskóngur áþjáði þá með leirburði og tígulsteinagjörð til að uppbyggja hans borgir þá kölluðu þeir til Drottins. Hann sló Egyptaland með margháttuðum plágum. Og þá þeir egypsku höfðu nú burt rekið þá frá sér og plágunum létti af þeim og þeir vildu ná þeim aftur og færa þá inn í landið í þrældóm þá upplauk Guð á himnum sjónum fyrir þeim so að vatnið stóð á báðar hendur so sem einn múrveggur og þeir gengu þurrum fótum á mararbotni og komust þaðan. [ En þá egypskir með öllum þeirra her fóru eftir þeim drukknuðu þeir allir í sjónum svo þar komst ekki einn undan sá þar kunni frá að segja.

Og þá þetta fólk kom úr Hafinu rauða settu þeir sín tjöld í eyðimörkinni fjallsins Sina þar sem áður kunni enginn maður að búa né vera. [ Þar urðu þau beisku vötnin sæt so þeir gátu drukkið. Og í fjörutígi ár fengu þeir brauð af himni og hvert sem þeir fóru, hafandi ei boga, örvar, skjöld né sverð, þá stríddi Guð fyrir þá og þeir fengu sigur. Og enginn fékk þessu fólki skaða gjört nema þá aðeins það gekk af boðorðum Drottins Guðs síns. Því að so oft sem þeir tilbáðu annan heldur en þeirra Guð þá urðu þeir yfirunnir og með allri svívirðing herteknir. En so oft sem þeir iðruðust þess að þeir höfðu vikið í burt frá boðorðum þeirra Guðs þá gaf Guð á himnum þeim aftur sigurvinning á þeirra óvinum.

Fyrir þá skuld afmáðu þeir konungana þeirra Kananíta, Jebúsíta, Perisíta, Hetíta, Hevíta, Amoreíta og alla magtarmenn í Hesbon og eignuðust þeirra lönd og borgir. Og so lengi sem þeir syndguðust ekki á móti sínum Guði þá gekk þeim vel því að þeirra Guð hatar ranglæti. Þeir hafa og fyrir þessa daga verið oft útreknir af mörgum þjóðum og herleiddir í ókunnug lönd af því að þeir höfðu gengið af þeim boðorðum sem þeirra Guð hafði gefið þeim til þess að lifa þar eftir. En nú fyrir litlu eru þeir aftur komnir úr þeirri útlegð í hverri þeir voru þá þeir höfðu snúið sér til Drottins þeirra Guðs og eru komnir aftur til þessara fjallbyggða og búa að nýju í Jerúsalem þar sem er þeirra helgidómur.

Þar fyrir, minn herra, lát rannsaka ef að þetta fólk hefur syndgast á móti Guði sínum. Þá viljum vér reisa upp þangað og þeirra Guð mun sannlega gefa þá í þínar hendur so þú munt þá yfirvinna. En hafi þeir ekki syndgast í móti þeirra Guði þá vinnum vér öngvan sigur á þeim. Því að þeirra Guð mun hjálpa þeim en vér munum verða að háðungu öllu landinu.“

Þá Akíor hafði þetta talað þá reiddust allir höfuðsmenn Holofernis og hugsuðu sér að lífláta hann og sögðu sín á milli: „Hver er þessi sem slíkt dirfist að segja að Ísraelssynir skuli verjast fyrir Nabogodonosor kóngi og hans herliði? Eru þetta ekki nakið fólk og öngvir stríðsmenn? En so að Akíor sjái að hann hefur logið þá viljum vér reisa upp þangað og þá vér föngum þá inu bestu menn þá viljum vér láta í hel stinga Akíor með þeim svo að vita skulu allar þjóðir að Nabogodonosor er landsins guð en enginn annar.“