XI.

Þá svaraði Sófar af Naema og sagði: [ „Nær eð einn hefur lengi talað má hann þá og einnin ekki hlýða til? Skal og málugur maður alltíð rétt hafa? skulu menn þegja fyrir þinnar margmæli sakir að þú megir svo þitt skimp fremja það enginn þaggi þig niður? Þú segir: Mitt mál það er hreinferðugt og eg em hreinn í þínu augliti. Óhó, væri ekki vel að Guð vildi tala við þig og upplúka sínum vörum og kunngjöra þér þann heimuglega vísdóm! Því að hann hefði vel meira að handtéra við þig svo að þú mættir formerkja að hann minnist ekki á allar þínar misgjörðir. Þenkir þú að þú munir vita svo mikið sem Guð veit og það að þú munir svo fullkomlegana hitta upp á alla hluti sem sá Hinn almáttugi? Hann er hærri en himininn, hvað vilt þú gjöra? Djúpari en helvítið, hvað kannt þú að vita? Lengri er hann en jarðríkið og breiðari en hafið. Þó að hann umvelti eður niðurbyrgi eður þeim í einn hóp til samans safni, hver vill banna honum það? Því hann þekkir vel þá hégómamenn, hann sér vel þá ódyggð og skyldi hann ekki gæta að því? Einn fáfengur blæs sig upp og ein fædd manneskja vill vera sem annað [ ótamið villudýr.

Hefðir þú fyrirbúið þitt hjarta og útbreitt þínar hendur til hans, ef að þú hefðir yfirgefið þitt ranglæti sem er þér innan handar og látið það langt í frá þér svo að enginn óréttindi væri í þínu heimili, þá mættir þú upphefja þitt andlit óstraffanlega og vera svo öruggur en ekki óttablandinn. Þá mundir þú gleyma þinni armæðu og minnast so lítt á hana svo sem á vantið er framhjá rennur. Og tíminn þinna lífdaga mundi upprenna sem hádegið sjálft og myrkrið mundi vera sem morgunljósið og mættir þú hugsvala þér með því að þar væri von fyrir höndum og kynnir svo með hvíld í gröfina að komast og að þú mættir hvíla þig og það enginn gjörði þér ónáðir og margir mundu þá biðja fyrir þér. En augun hinna óguðlegu þau munu veikari verða og munu það ei umflúið geta því að á þeirra von þá skal sálu þeirra brestur verða.“