IIII.

Viltu snúa þér, Ísrael, segir Drottinn, þá snú þér til mín. Og ef þú vilt í burt taka þína svívirðing frá mínu augliti þá skaltu ekki útdrifinn verða. Þá muntu og sverja hræsnislaust, réttvíslega og heilaglega: „So sannarlega sem það Drottinn lifir“ og hinir heiðnu munu í honum blessaðir verða og hrósa sér af honum. Því að so segir Drottinn til þeirra í Júda og Jerúsalem: Plægið að nýju og sáið ekki á meðal klungurþyrnanna. Umskerið yður fyrir Drottni og í burt takið þá yfirhúðina yðvars hjarta, þér menn í Júda og þér borgarlýður í Jerúsalem, upp á það að mín reiði skuli ekki út fara sem eldur og brenna so að enginn kunni út að slökkva fyrir yðvarar illsku sakir.

Já kunngjörið það í Júda og kallið hátt í Jerúsalem og segið: „Blásið í herlúðrana út í landinu!“ og kallið með hárri raust og segið: „Samansafnið yður og látum oss draga inn í þær sterku borgirnar.“ Setjið upp merkið í Síon, safnið yður til samans og dveljið ei við því að eg flyt eina ógæfu og stóra eymd hingað í frá norðrinu. Það leónið kemur hingað, farandi úr sínu rjóðri, og sá fordjarfarinn heiðingjanna er út dreginn af sínu takmarki að hann foreyði þitt land og uppbrenni þína staði svo að enginn búi þar inni. [ Þar fyrir íklæðist sekkjum, syrgið og sýtið því að sú grimmdarreiðin Drottins vill ekki stillast yfir oss.

Á þeim tíma skulu hjörtun kónganna og höfðingjanna blauð verða, segir Drottinn. Prestunum skal ofbjóða og prophetunum ógna. En eg sagða: [ Drottinn Drottinn, mjög hefur þú látið þessu fólki og Jerúsalem það bregðast þá þeir sögðu: Þar mun hjá yður friður vera, og sverðið er þó komið allt til sálarinnar. Á þeim sama tíma mun segjast til fólks þessa og Jerúsalem: Þar kemur einn þurr [ vindur hingað yfir um fjöllin so sem á eyðimörkinni, á þann veginn sem liggur til dótturinnar míns fólks, ekki til að vinsa eður að hreinsa með. Já þar skal koma einn vindur sem skal verða þeim of sterkur, þá vil eg og ganga í dóm við þá. Sjá þú, hann kemur farandi hingað sem skýjaklasi og hans vagnar so sem annað stormviðri. Hans hestar eru fljótari en ernur. Vei oss, vér munum í eyði lagðir verða.

Svo þvo þú nú, Jerúsalem, þitt hjarta af illskunni so að þér verði hjálpað. Hversu lengi skulu þeir slæmu lærdómar hjá þér vera? Því að þar kemur eitt heróp í frá Dan og ill tíðindi hingað í frá fjallinu Efraím, hvernin heiðingjarnir hrósa sér. Og það er víðfrægt vorðið allt til Jerúsalem að þar komi varðmenn úr fjarlægum löndum og munu æpa herópi í móti þeim stöðunum Júda. Þeir munu umsitja þá allt um kring so sem aðrir varðmenn um grundirnar því að þeir hafa mig til reiði reittan, segir Drottinn. Það hefur þú til verðlauna fyrir þína breytni og þín verk. Þá mun þitt hjarta og finna hversu mikil að er þín illska.

Hvernin er mér so hjartað sárt! Mitt hjarta það flökrar so í mínu brjósti og hefur öngva hvíldarró. Því að mín sála heyrir herlúðursins hljóð og bardagans slag og hvert dauðlegt heróp eftir annað. Því að allt landið verður í eyði lagt, mínar herbúðir og landtjöld verða skyndilegana niðurrifin. Hversu lengi á eg þó að sjá þau merkin og heyra herlúðursins hljóð? En mitt fólk er galið og trúir mér ekki, heimskir eru þeir og skeyta því ei. Nógu hyggnir eru þeir til illt að gjöra en vel að gjöra þa vilja þeir ekki læra.

Eg leit á landið, sjá þú, það var tómt og í eyði, og í himninum, og hann var myrkur. Eg leit til fjallanna og sjá þú, að þau hristust og allir háir hálsar þeir skulfu og sjá þú, eg sá að þar var enginn maður og allir fuglar undir himninum voru í burt flognir. Og sjá þú, eg sá það akurlöndin voru í eyði og allir staðirnir á þeim voru niðurbrotnir fyrir Drottni og fyrir hans grimmdarreiði.

Því að so segir Drottinn það allt landið skal foreytt verða og þó vil eg ekki öldungis í eyðileggja það. Þar fyrir skal landið verða hörmulegt og himinninn þar fyrir ofan sorgarlegur af því að eg hefi talað það. Eg hefi ályktað það og eg skal ei angra mig um það, eg vil og eigi heldur láta af því. Allir staðirnir skulu flýja fyrir því riddara og skotmanna herópinu og í burt hlaupa á þykkvar skógarmerkur og inn skríða í þá bjarghellana, allir staðirnir skulu í eyðileggjast so að enginn skal þar inni búa.

Þú hin niðurbrotna, hvað viltu þá til gjöra? En þó að þú skrýddir þig með purpuraklæðum og með gulllegum gersemum og prýddir þitt andlit, þá skrýddir þú þig þó til forgefins. Því að þeir sem nú látast lúta þér þeir munu helst fyrirlíta þig og þeir munu helst stunda eftir þínu lífi. Því að eg heyrða eitt hljóð líka sem þeirrar eð fæða skal, eina kveinan so sem þeirrar sem að er í sinni fyrstu fæðingarhríð: Þau háhljóðin dótturinnar Síon sem að grætur og útréttir hendurnar: A, vei mér, eg hlýt nú með öllu niður í grunn að forganga fyrir manndrápinu!