XII.

En er mikill og ótölulegur lýður flykktist þar saman so að nálega trað hver annan undir hóf hann upp og sagði til sinna lærisveina: [ „Í fyrstu vaktið yður fyrir súrdeigi Phariseorum, hvað er hræsni. Því að ekkert er so hulið að ei verði augljóst né nokkuð so leynt að eigi vitist. Fyrir því hvað þér segið í myrkrum það mun í ljósi heyrast og hvað þér í svefnhúsum hvíslið í eyra mun á ræfrum uppi prédikað.

En eg segi yður, vinum mínum: [ Hræðist eigi þá sem líkamann aflífa og eftir það fá þeir eigi meir að gjört. En eg vil sýna yður hvern þér skuluð hræðast: Hræðist þann sem eftir það er hann hefir líflátið þá hefir hann magt til að senda í helvíti. Að vísu segi eg yður, þá hræðist hann. Seljast eigi fimm skógarþrestir tveimur peningum og einn af þeim er eigi gleymdur fyrir Guði. So eru og öll höfuðhár yðar talin. Fyrir því skulu þér eigi óttast því að þér eruð dýrri en margir skógarþrestir.

En eg segi yður: Hver helst han viðurkennir mig hér fyrir mönnum þann mun Mannsins son viðurkenna fyrir englum Guðs. En hver hann afneitar mér hér fyrir mönnum honum mun afneitað verða fyrir Guðs englum. Og hver eð talar orð í gegn Guðs syni þá mun honum fyrirgefast en hver han hæðir að heilögum anda honum skal eigi fyrirgefast. [

En nær þeir draga yður inn í samkunduhús og fyrir sína yfirboðara og valdsmenn þá verið eigi hugsjúkir um hvernin eða hverju þér skuluð svara eða hvað þér skuluð segja því að heilagur andi mun fræða yður á sömu stundu hvað yður byrjar að segja.“ [

En nokkur af fólkinu sagði til hans: [ „Meistari, seg bróður mínum að hann skipti við mig arfleifð minni.“ En hann sagði honum: „Þú maður, hver setti mig fyrir dómara eða arfskiptismann yfir yður?“ Og hann sagði til þeirra: „Sjáið til og varið yður við allri ágirni því að enginn lifir þar af það hann hafi mikil auðæfi.“ Og hann talaði þá eina eftirlíking til þeira og sagði:

„Auðugur maður nokkur var sá hvers akur eð fært hafði frjóvan ávöxt. Hann hugsaði þá með sér og sagði: Hvað skal eg til gjöra? Eg hefi ei það hús hvert eg megi mínum ávexti í safna, og sagði: Það vil eg gjöra: Eg vil mína hlöðu niðurrífa og gjöra upp aðra meiri og safna þangað öllu því er mér hefir gróið og so mínum auðæfum. Og þá mun eg segja til sálu minnar: Sála mín, þú hefur mikinn auð samandregið til margra ára. Hvíl þig nú, et og drekk og haf allsnægtir og vert glöð. En Guð sagði til hans: Þú dári, á þessari nótt munu þeir þína sál af þér krefja og hvers verður það þá er þú hefur tilreitt? So er með þeim er sér draga sjóð saman og eru eigi í Guði ríkir.“

Þá sagði hann til sinna lærisveina: [ „Fyrir því segi eg yður: Sturlið eigi fyrir lífdögum yðar, hvað þér skuluð eta, og eigi fyrir líkama yðar, hverju hann skuli klæðast. Lífið er meira en fæðan og líkaminn meiri en fötin. Hyggið að hröfnunum. Þeir sá hverki né uppskera, eigi hafa þeir hlöðu né kjallara, og þó fæðir Guð þá. Miklum mun meiri eru þér þó fuglunum.

En hver yðar fær með sinni hugsýki aukið lengd sína alin einni? Því ef þér orkið eigi hins minnsta, hvað fyrir sturli þér þá fyrir hinu öðru? Hugleiðið hvernin liljugrösin vaxa. Þau vinna eigi né spinna. En eg segi yður það Salómon í allri sinni prýði var ei so skrýddur sem eitt af þeim.

Nú fyrst Guð skrýðir so það gras er í dag stendur á akri og á morgun verður í baksturofn látið, miklu meir mun hann þó klæða yður, ó þér vesaltrúaðir! Þér skuluð og eigi eftirspyrja hvað þér etið eða drekkið og eigi hefja yður hátt. Því að eftir þessu öllu sækir heiðin þjóð veraldar en faðir yðar veit vel að þér þurfið þessa við. Því leitið fyrst að Guðs ríki og hans réttlæti og mun yður þá allt tilfalla.

Hræðst eigi, þú veskul hjörð, því að það þóknaðist föður yðar að gefa yður ríkið. Seljið hvað þér hafið og gefið ölmusu. Gjörið yður og þá sekki er eigi eldast og þann sjóð er eigi minnkar á himnum, að hverjum þjófar fá eigi komist né melur skorið. Því hvar yðar sjóður er þar er og yðart hjarta.

Yðrar lendar sé umgyrtar og logandi ljós í höndum yðrum. [ Verið og líkir þeim mönnum er bíða eftir sínum lánardrottni hvenar hann muni aftur koma af brullaupum, so að þá hann kemur og ber sé strax fyrir honum upplokið. Sælir eru þeir þjónar hverja eð (þá er herrann kemur) finnur hann vakandi. Sannlega segi eg yður það hann mun upp stytta sig, lætur og þá til borðs sitja, gengur fyrir þeim og þjónar.

Og þó ef hann komi á annarri eykt eða á hinni þriðju og finni það líka so, sælir eru þeir þjónar. [ En það skulu þér vita að ef húsbóndinn vissi á hverri stundu eð þjófurinn kæmi þá vekti hann og léti eigi grafa sitt hús. Fyrir því verið og reiðubúnir því að Mannsins sonur mun á þeirri stundu koma er þér ætlið eigi.“

Þá sagði Pétur til hans: [ „Herra, segir þú þessa eftirlíking til vor eða til allra?“ En Drottinn sagði: „Hve mikils er vert um trúan og forsjálan fyrirsjónarmann hvern eð herrann setur finnur so gjörandi þá eð hann kemur! Sannlega segi eg yður það hann mun setja hann yfir allt hvað hann eignast. En ef sá sami þjón segir í hjarta sínu: Herra minn gjörir dvöl á að koma, og tekur að berja vinnumenn og ambáttir og að eta og drekka og sig drukkinn að gjöra, og þá kemur herrann þess þjóns á þeim degi er hann vonar eigi og á þeirri stundu er hann veit eigi og skiptir honum sundur og leggur honum sín laun meður ótrúuðum.

En hver sá þjón er veit síns herrans vilja og bjó sig eigi til, gjörði og eigi eftir hans vilja, hann mun mikla refsing fá. En sá hann veit eigi og gjörir það hegningar er vert, hann mun minni hirting fá. Því að þeim sem mikið er veitt, af honum æskist mikið, og hverjum mikið verður í hendur selt, af honum heimtist mikið.

Eg kom að snæra upp eld á jörðu – hvað eg gjarna vilda að hann brynni nú þegar! En eg hlýt áður með skírn að skírast. Og hversu eg þrengjunst þangað til hún fullkomnast! Meini þér að eg kæmi að senda frið á jörðu? [ Eg segi yður: Nei, heldur sundurþykkju. Því að héðan frá munu fimm verða í einu húsi sundurþykkir, þrír í móti tveimur og tveir í móti þremur. Faðirinn mun verða í móti syninum og sonurinn í móti föðurnum, móðurin í móti dótturinni og dótturin í móti móðurinni, og móðir konu manns í móti sonarkonunni og sonarkona í móti móðurkonu mannsins.“

En hann sagði til fólksins: „Hvenær þér sjáið ský upp ganga í vestri þá segi þér jafnskjótt að regn komi og það sker. Og nær þér sjái sunnanvind blása þá segi þér hita verða, það sker. Og þér hræsnarar, ásýnd himins og jarðar kunni þér að prófa en því prófi þér ei þennan tíma sem nú er? Eða fyrir því dæmi þér eigi af sjálfum yður hvað réttvíst er?

En nær þú gengur með þínum sökudólg fyrir valdsmanninn þá kosta kapps á veginum að þú losir þig frá honum að eigi dragi hann þig nokkuð sinn fyrir dómarann og dómarinn selji þig refsaranum og refsarinn kasti þér so í dýflissu. [ Eg segi það eigi fer þú út þaðan þar til þú borgar einnin hinn síðasta skarf.“