II.

Þessir eru þeir heiðingjar sem Drottinn lét eftir vera að reyna með Ísrael sem ekki par vissu af Kanaans bardögum og að Ísraelssona ættkvíslir lærðu að berjast þeir sem áður vissu þar ekki af, sem er þeir fimm Philisteis höfðingjar og allir Cananiter og Sidoniter og Heviter sem bjuggu hjá fjallinu Líbanon frá því fjalli Baal Hermon og all til þess að komið er að Hemat. [ Þessir sömu voru eftir so að Ísrael skyldi reynast með þeim so það mætti opinbert verða hvort þeir vildu hlýða boðorðum Drottins sem hann hafði boðið þeirra forfeðrum fyrir Mosen.

Þá Ísraelssynir bjuggu so á meðal þeirra Cananiter, Hetiter, Amoriter, Pheresiter, Heviter og Jebusiter þá tóku þeir þeirra dætur sér til eiginkvenna og gáfu þeirra sonum sínar dætur og þjónuðu þeirra afguðum og gjörðu það sem Drottni mislíkaði og gleymdu Drottni þeirra Guði og þjónuðu Baalím og Astarót og uppkveiktu so Guðs reiði yfir Ísrael og hann felldi þá undir Kúsan Rísataím kóng í Mesopotamia. [ [ Og Ísraelssynir þjónuðu Kúsan Rísataím í átta ár.

Þá kallaði Ísrael til Drottins og Drottinn uppvakti þeim einn hjálparmann sem þá frelsaði, Atníel son Kenas, hver að var Kalebs yngsti bróðir. [ Og Guðs andi var með honum og hann var dómari í Ísrael. Hann reisti út að stríða og Guð gaf Kúsan Rísataím kónginn af Siria í hans hönd og hans hönd varð honum yfirsterkari. So var landið um kyrrt í fjörutígi ár. Og Atníel son Kenas deyði.

En Ísraelssynir gjörðu enn illa hluti í augliti Drottins so að Drottinn gaf styrk Eglon sem að var kóngur í Móab í mót Ísrael fyrir því að þeir gjörðu þaðsem Drottni mislíkaði. [ Og hann safnaði sonum Amón til sín og þeim Amalechitis og hann ferðaðist af stað og sló Ísrael og tók þann pálmastað frá þeim. Og þeir Ísraelssynir þjónuðu Eglon Móabskóngi í átján ár. Þá hrópuðu þeir til Drottins og Drottinn uppvakti þeim einn frelsara sem hét Ehúð son Gera, sonar Jemíní; hann var örvhentur.

Og það skeði svo að Ísraelssynir sendu Eglon Móabskóngi gáfur með honum. En Ehúð lét smíða sér eitt tvíeggjað sverð, einnrar álnar langt, og batt það undir sitt yfirklæði á því hægra læri og færði so kónginum þessar skenkingar. En Eglon var mjög feitur maður.

Og sem hann hafði afhent kónginum þessar gáfur þá lét hann fólkið frá sér sem gáfurnar höfðu borið og sneri sér frá Gilgal þar eð afguðinn var aftur til kóngsins og lét segja honum: „Eg hefi, kóngur, nokkuð heimuglegt að segja þér.“ En hann bað að gefa hljóð og þeir allir gengu út frá honum sem í kringum hann stóðu.

Og Ehúð kom inn til kóngsins en hann sat í sínum sumarsal. Og Ehúð sagði: „Eg hefi Guðs orð til þín.“ Þá stóð kóngurinn upp úr sínu sæti. En Ehúð útrétti sína vinstri hönd og greip sverðið sem hékk á hans hægra læri og lagði framan í kvið kóngi so það gekk allt upp yfir hjöltun og ísturin huldu hjöltin (því hann dró ekki sverðið aftur af hans kviði) og saurinn sprændi fram af kviðnum. En Ehúð gekk út af salnum og lét aftur dyrnar eftir sér og sló þeim í lás.

Og sem hann var útgenginn þá komu kóngsins þénarar inn og sáu að dyrnar á sumarsalnum voru afturluktar og sögðu hver til annars: „Ske má að kóngurinn sé genginn til nauðsynjaerinda sinna í náðhúsið hjá sumarsalnum.“ En sem þeir biðu so lengi þar til þeim leiddist, því enginn lauk upp dyrunum á salnum, þá tóku þeir lyklana og luku upp. Og sjá, þá lá þeirra herra dauður á gólfinu. En Ehúð komst undan á meðan þeir stöldruðu og gekk framhjá blóthúsinu og komst til Seírat.

Og sem hann kom inn þangað lét hann kveða við lúðra á Efraímfjalli. Og Ísraelsfólk dreif til hans og fylgdu honum af fjallinu og hann fór undan þeim og sagði til þeirra: „Fylgið mér eftir því Drottinn hefur gefið yður þá Moabiter yðar óvini í yðar hendur.“ [ Og þeir fylgdu honum eftir og þeir tóku öll vöð á Jórdan sem láu til Móab og létu öngvan mann komast yfir um og slógu þá Moabiter á þeim tíma, nær tíu þúsund menn, alla saman þá inu bestu og hraustustu stríðsmenn, so að þar komst ekki einn undan. So urðu Móabs innbyggjarar lægðir fyrir Ísraelsfólki á þeim tíma. Og landið hvíldist í áttatígi ár.

Því næst var Samgar son Anat. [ Hann sló sex hundruð Philisteos með einu plógjárni og hann frelsaði einnin Ísrael.