XIX.

En Jósafat kóngur Júda kom heim aftur með friði til Jerúsalem. Og Jehú sjáandi son Hananí gekk út í mót honum og sagði til Jósafat kóngs: [ „Skalt þú svo veita lið þeim óguðlega og elska þá sem hata Drottin? Og því er Guðs reiði yfir þér. En þó er þar nokkuð gott fundið hjá þér að þú hefur upphöggvið lunda af landinu og hefur tilbúið þitt hjarta að leita Drottins.“ So var Jósafat í Jerúsalem.

Og hann fór út í annað sinn á meðal fólksins frá Bersaba allt til fjallsins Efraím og leiddi þá aftur til Drottins þeirra feðra Guðs. Og hann setti dómendur í landið, í allar sterkar borgir Júda, nokkra í hverja borg, og hann sagði til dómandanna: [ „Gaumgæfið hvað þér gjörið því að ei dæmi þér mannanna dóma heldur Drottins og hann er með yður í dóminum. Látið því Drottins ótta vera hjá yður og varðveitið yður og gjörið það því að þar er ekkert ranglæti hjá Drottni vorum Guði, eigi heldur manngreinarálit og ei tekur hann gjafir.“

Og Jósafat skikkaði í Jerúsalem af Levítunum og prestunum og af þeim yppustu feðrum í Ísrael yfir Drottins dóma og yfir málaferlin og lét þá búa í Jerúsalem. Og hann bauð þeim og sagði: „Gjörið so í Drottins ótta alla hluti trúlega með algjörðu hjarta. Í öllum þeim málefnum sem koma fyrir yður frá yðar bræðrum sem búa í þeirra borgum, í millum blóðs og blóðs, í millum lögmáls og boðorða, í millum setninga og réttinda, skulu þér undirvísa þeim svo að þeir syndgist ekki í móti Drottni og að ei komi reiði yfir yður og yðar bræður. Gjörið svo og þá munu þér ekki syndgast. Sjá, Amarja kennimaður er sá yppasti yfir yður í öllum málefnum Drottins. Svo er Sebadja son Ísamel höfðingi í Júda húsi í öllum kóngsins málaferlum. Svo hafi þér embættismenn og Levítana fyrir yður. Styrkist og gjörið þetta og Drottinn mun vera með þeim góðu.“