LXIIII.

Sálmur Davíðs fyrir að syngja

Heyr þú mína raust þá eð eg grátbæni þig, varðveit mitt líf fyri þeim grimma óvin.

Skýl þú mér fyrir samkundum þeirra illskufullra, fyrir flokki þeirra illgjörðamanna,

hverjir eð sínar tungur hvetja sem sverð, þeir eð með sínum eitruðum orðum svo skjóta sem með pílum,

að þeir svo heimuglega skjóti hinn saklausa, skyndilega þá skjóta þeir að honum og óttast það ekki.

Flugdjarfir eru þeir með sínar vondslegar ráðagjörðir og segja hversu þeir vilja þær snörur útleggja og mæla svo: „Hver er hann sá eð það kunni að sjá?“

Þeir uppkveikja rangindin og hylja þau heimuglega, eru forslegnir og hafa kyndugleg illskupör.

En Guð mun skyndilega skjóta þá so að þeim mun dátt við verða.

Þeirra eigin tungur munu fella þá svo að hver sem þá sér mun gjöra sköll að þeim

og allir þeir menn sem það sjá þeir munu segja: „Guð hefur það gjört“ og formerkja að það sama er hans verk.

Hinir réttferðugu munu gleðja sig í Drottni og treysta upp á hann og öll góðfús hjörtu munu gleðjast þar af.