XXXI.

Og það skeði á því ellefta árinu, þann fyrsta daginn í þeim þriðja mánaðinum, að orð Drottins skeði til mín og sagði: [ Þú mannsins son, seg þú til faraó konungsins í Egyptalandi og til alls hans fólks: Hverjum þenkir þú þá að þú sért líkur í þinni vegsemd?

Sjá þú, Assúr var sem eitt sedrustré á Líbanon með fögrum greinum og laufþykkvum og mjör hár so að hans toppur stóð hátt á meðal þeirra stóru digru greinanna. [ Vatnið gjörði það að hann varð so stór og djúpið að hann vóx so hátt. Hans vatsrásir gengu utan um kring bolinn á honum og hans lækir til allra viðartrjánna í landinu. Þar fyrir varð hann hærri en öll tré í landinu og fékk margar greinir og langa kvistu því að hann hafði nóglegt vatn til að útbreiða sig með. Allir himinsins fuglar gjörðu hreiður á hans kvistum og öll skógdýrin höfðu unga undir hans greinum og þar bjuggu öll stórmenni undir hans skugga. Hann hafði fagrar, stórar og langar greinir því að hans rætur höfðu mikið vatn. Og þar var ekki neitt sedrustré honum líkt í Guðs aldingarði og grenitrén kunnu ekki að jafnast við hans greinir og þau kastaneutrén voru ekkert hjá hans greinum. Já hann var so fagur að þar var ekki neitt fegra tré í Guðs aldingarði. Eg gjörði hann og prýðilegan að hann fékk margar greinir og öll lystileg tré í Guðs aldingarði hötuðu hann.

Þar fyrir segir Drottinn Drottinn so: Af því að hann er orðinn so hár að hans toppur stóð á meðal stórra, hárra, þykkra greina og hans hjarta upphóf sig af því að hann var so hár, þar fyrir gaf eg hann í hendur þeim megtugasta á meðal heiðinna þjóða sem skyldi handtéra við hann og í burt drífa hann so sem hann hafði verðskuldað með sínu óguðlegu athæfi, so að hinir annarlegu skulu upprykkja honum sem að eru þeir hervíkingarnir heiðinna þjóða og í burt dreifa honum og hans greinir skulu liggja á fjöllunum og í öllum dölonum og hans greinir í sundurmolaðar í hjá öllum lækjum í landinu, so að allt fólkið á jörðunni skal í burt víkja frá hans skugga og yfirgefa hann og allir fuglar himinsins sátu á hans niðurföllnum stofni og öll skógrýdin lögðu sig á hans greinir, svo að engin tré skyldu upphefja sig héðan af í hjá vatninu í sinni hæð af því að topparnir standa á meðal stórra, þykkra greina og það ekki neitt tré hjá vatninu skuli upphefja sig yfir annað því að þeir skulu allir undir jörðina og ofurseljast í dauðann sem aðrir menn þeir eð niður fara í gröfina.

So segir Drottinn Drottinn: Á þeim tíma nær eð hann ofan fór til helvítis þá gjörða eg einn harmagrát að undirdjúpin huldu hann og hans vatsstraumar hlutu kyrrir að standa og þau hin stóru vötnin kunnu ekki að renna og eg gjörði það að Líbanon bar harm eftir hann og öll trén á sléttlendinu í burt þornuðu yfir honum. Eg hrædda heiðingjana þá eð þeir heyrðu hann falla, þann tíð eg steypta honum til helvítis niður meður þeim sem ofan fara í gröfina. Og öll þau lystilegu trén undir jörðunni þau hinu eðlabornustu og hin bestu á Líbanon og öll þau sem fyrr höfðu staðið hjá vatninu unnu honum vel. Því að þau hlutu einnin með honum ofan að fara til helvítis til þeirra sem vegnir voru með sverðinu með því að þeir höfðu búið undir skugganum hans armleggja á meðal heiðinna þjóða.

Hversu stór meinar þú þá að þú (faraó) sér með þínu bramli og vegsemdarskrauti á meðal þeirra lystilegra trjánna? Því að þú hlýtur niður að fara undir jörðina með þeim lystilegu trjánum og liggja meðal hinna óumskornu sem í hel vegnir eru meður sverði. Þannin skal það ganga faraó með öllu hans fólki, segir Drottinn Drottinn.