XLIIII.

Og hann leiddi mig út aftur að því yðsta portinu helgidómsins mót austrinu. En það var tillukt. Og Drottinn sagði til mín: Þetta port skal vera tillukt og ekki upplúkast og inn um það skal enginn ganga utan alleinasta Drottinn Guð Ísraels. Hann skal ganga þar inn um og það skal vera tillukt, að höfðingjunum þó undanteknum. Því að höfðinginn skal sitja þar inni til að neyta brauðsins fyrir Drottni. Hann skal innganga um lofthúsið og ganga so út aftur um það hið sama.

Síðan leiddi hann mig að því portinu mót norðrinu frammi fyrir húsinu. Og eg sá og sjá þú, að húsið varð fullt af dýrð Drottins og eg féll fram á mína ásjónu. Og Drottinn sagði til mín: Þú mannsins son, hygg þú glögglegana að og sjá þú og hlýttu innvirðilega öllu því hvað eg vil segja þér af öllum siðvenjum og setningum í húsi Drottins og gæt vel að því hvernin að þar skal innganga og að öllum útgöngunum helgidómsins.

Og seg þú því óhlýðuga Ísraels húsi: Svo segir Drottinn Drottinn: Þér af Ísraels húsi gjörið þar helst formikið út af með allar yðar svívirðingar. Því að þér innleiðið í minn helgidóm framanda fólk með einu óumskornu hjarta og óumskornu holdi fyrir hverja að þér óhelgið mitt hús nær eð þér offrið mínu brauði, feitinn og blóðinu og brjótið so minn sáttmála með öllum yðar svívirðingum og haldið ei þær siðvenjurnar míns helgidóms heldur gjörið yður sjálfum nýjar siðvenjur í mínum helgidómi.

Þar fyrir segir Drottinn Drottinn so: Þar skal enginn framandi meður einu óumskornu hjarta og óumskornu holdi koma í minn helgidóm af öllum þeim útlendingum sem eru á meðal Ísraelsbarna, já og ekki heldur þeir Levítarnir sem í burt viku frá mér og eru gengnir villuvega frá mér með Ísrael eftir þeirra afguðum. Þar fyrir skulu þeir bera sínar syndir.

En þeir skulu þjóna í mínum helgidómi út í dyragæslunni hússins og þeir skulu þjóna í húsinu og skulu ekki utan slátra brennioffrinu og öðru því offri sem fólkið hefur hingað og standa fyrir prestunum til að þjóna þeim af því að þeir þjónuðu hinum öðrum fyrir þeirra afguðum og gáfu so Ísraelshúsi eina hneykslan til að syndgast. Þar fyrir hefi eg útrétt mína hönd yfir þá, segir Drottinn Drottinn, að þeir skuli bera sínar syndir. Og ekki skulu þeir nálægjast mig til að framflytja mitt kennimannsembætti og eigi heldur að koma til nokkurs míns helgidóms hjá því allra heilagasta heldur skulu þeir bera sína vanvirðu og sínar svívirðingar sem þeir frömdu. Þar fyrir hefi eg sett þá fyrir aðgæslumenn, til allra þjónustu í húsinu og til alls þess sem menn skulu gjöra þar inni.

En prestarnir af Levítunum Sadók slekti sem héldu siðvenjurnar míns helgidóms þá eð Ísraelsbörn féllu frá mér, þeir skulu ganga fyrir mig og þjóna mér og standa frá inni fyrir mér so að þeir skulu offra mér því hinu feita og blóðinu, segir Drottinn Drottinn. Þeir skulu ganga inn í minn helgidóm og ganga fyrir mínu borði og þjóna mér og halda mínar siðvenjur.

Og nær eð þeir vilja ganga inn um það hið innsta portið á fordyrinu skulu þeir færa sig í þau línklæðin og ekki neitt ullklæði á sér hafa so lengi sem að þeir þjóna í því hinu innsta portinu fordyrsins. Og þeir skulu hafa línhúfur á sínum höfðum og línklæði um sínar lendar og eigi skulu þeir gyrða sig í sveita. Og nær eð þeir ganga einhverju sinni út til fólksins af því yðsta forydrinu þá skulu þeir færa sig af þeim klæðunum í hverjumþeir hafa þjónað og leggja þau hinu sömu í herbergi helgidómsins og færa sig aftur í önnur föt so að þeir helgi ekki fólkið í sínum klæðum. Eigi skulu þeir raka sín höfuð og þeir skulu ekki heldur láta hárið vaxa mjög ofsa langt heldur skulu þeir láta kringskera það. Og enginn kennimaður skal þá vín drekka nær eð þeir skulu ganga í það innsta fordyrið. Og öngva ekkju né þá sem við mann er skilin skulu þeir taka sér til eiginkonu heldur eina mey af því sæðinu hússins Ísrael eður eina eftirlátna kennimanns ekkju.

Og þeir skulu kenna mínu fólki so að þeir viti að gjöra greinarmun á millum hins heilaga og hins óheilaga og á milli hins hreina og hins óhreina. Og nær eð þar kemur eitthvert kærumál fyrir þá þá skulu þeir standa og dæma um það og úrskurða það eftir mínum lagarétti og halda mín boðorð og siðvenjur og halda allar mínar hátíðir og helga mína þvottdaga. Og þeir skulu ekki ganga til neins framliðins og saurga sig so utan alleinasta til föður og móður, sonar eða dóttur, bróður eða systur sem ekki hafur enn gift verið, yfir þeim mega þeir saurga sig. Og mann skal telja sjö daga eftir það eð hann er hreinsaður. Og nær eð hann gengur inn aftur í helgidómin í það innsta fordyrið til að þjóna í helgidóminum so skal hann offra sínu syndaoffri, segir Drottinn Drottinn.

En arfleifðin sem þeir skulu hafa vil eg sjálfur vera. Þar fyrir skulu þér ekkert land gefa þeim í Ísrael til eignar því að eg er þeirra arfleifð. Þeir skulu hafa sitt uppheldi af mataroffrinu, syndaoffrinu og sakaroffrinu og allt það sem forlofað er í Ísrael þá skal það vera þeirra. Og allur hinn fyrsti ávöxtur og frumgetningarnir af öllu upphafningaroffri þa skal vera kennimannanna. Þér skuluð og einnin gefa kennimönnunum hið fyrsta af öllum mat so að blessunin skuli vera í þínu húsi. En öll dauð hræ eður það sem dýrbitið er, sé það af fuglunum eður fénaði, það sama skulu kennimennirnir ekki eta.