V.

Þá mun sá réttláti standa með mikilli hugarhreysti í gegn þeim sem að honum þrengdu og í burt köstuðu hans [ erfiði. Þá er þeir sjá slíkt munu þeir hræðilega skelfast vegna slíkrar sælu sem þeir ekki hugðu þeim og munu mæla hver við annan með angri og af hugarangist andvarpa: „Þessi er sá sem vér fyrri dáruðum og höfðum að aðhlátri. Vér gikkar héldum hans lifnað fyrir vitleysu og hans afgang smánarlegan. Hvernin er hann nú reiknaður á meðal Guðs barna og hans arfskipti er á meðal heilagra!

Þar fyrir þá höfum vér ekki fundið þann rétta veg og ljós réttlætisins hefur ekki skinið yfir oss og sólin er oss ekki upprunnin. Vér höfum æ gengið ranga og skaðsamlega vegu og höfum ráfað villustiguna en af vegi Drottins höfum vér ekkert vitað. Hvað hjálpar oss nú vor hoffrakt? Hvað höfum vér nú af vorum ríkdómi og metnaði? Það er allt umliðið sem einn skuggi og svo sem einn hljómur sem hjá líður, so sem skip skríður á vatni, hvers fótspor enginn kann að finna og eigi heldur þess farveg í vatninu þá það er fram um komið. Elligar sem einn fugl þar flýgur í loftinu hvers veg enginn finna kann því að hann hrærist og flýgur í loftinu, drífur og sundurklýfur veðrið með sínum þjótandi vængjum og þar eftir á getur enginn þar inni fundið nokkurt teikni slíks flugs. Eður so sem nær pílu er skotið til máls þar er sundurklofinn vindur fellur strax saman aftur so að enginn kann að finna hennar veg þar í gegnum.

So eru og vér. Eftir það vér fæddunst fengjum vér einn enda og höfum ekki sýnt á oss mannkostarmerki heldur erum vér foreyddir í vorri illsku.“ Því að von hins óguðlega er svo sem duft það vindur burt feykir og so sem hrím fyrir stormi og sem reykur fyrir vindi burt flýr og so sem þeim verður gleymt sem eigi er utan eins dags gestur.

En þeir réttlátu skulu lifa eilíflega og Drottinn er þeirra verðlaun og sá Hinn hæðsti hefur umhyggju fyrir þeim. Þar fyrir munu þeir öðlast eitt dýrðlegt ríki og fegurðarkórónu af hendi Drottins. Því að hann mun hlífa þeim með sinni hægri hendi og forsvara þá með sínum armlegg. Hann mun taka sitt vandlæti til harneskju og útbrynja skepnurnar til hefndar yfir óvinum. Hann mun íklæðast réttlætinu fyrir brynju og setja þann alvarlega dóm á höfuðið fyrir hjálm. Hann skal taka heilagleikann fyrir óyfirvinnanlegan skjöld og sína ströngu reiði mun hann brynja til sverðs. Og heimurinn mun draga út með honum til stríðs á móti þeim heimsku. Reiðarslög munu hæfa undir eins og falla af skýjunum til máls so sem að öðrum harðspenntum boga. Og stórt hagl mun falla út af reiði reiðarþrumunnar. So mun og vatnið sjávarhafsins uppþjóta í móti þeim og vatsstraumarnir skulu af öllum krafti gefa sig upp til samans og so skal einn sterkur stormur reisa sig upp í móti þeim og tvístra þeim í sundur sem hvirfilvindur.