XVI.

En er hann kom til Derben og Lystran, sjá, að lærisveinn var þar, Tímóteus að nafni, sonur einnrar trúaðrar Gyðingakonu en að feðerni grískur. [ Þessum báru þeir bræður gott vitni sem voru í Lystram og Iconia. Þennan vildi Páll með sér fara láta, tók að sér og umskar hann fyrir sakir þeirra Gyðinga sem voru í þeim stöðum. Því að þeir vissu allir það hans faðir var gírskur. En þá þeir fóru um borgir buðu þeir í þeim að varðveita þær setningar sem skikkaðar höfðu verið af postulunum og prestum þeim sem til Jerúsalem voru. Og so styrktust söfnuðirnir í trúnni og fjölguðust daglega að tölu.

Og þá þeir gengu um Phrygiam og Galitíuríki var þeim forboðið af heilögum anda að tala Guðs orð í Asia. [ En sem þeir komu til Mysian freistuðu þeir að ganga um Bythiniam og andinn lofaði þeim það eigi. En þá þeir gengu yfir um Mysian fóru þeir ofan til Troaden. Og Páli var sjón sýnd um nóttina að maður nokkur af Macedonia stóð og bað hann og sagði: [ „Far þú í Macedoniam og hjálpa oss!“ En sem hann hafði sjónina séð stunduðum vér strax að reisa í Macedonia, fullgjörðir í því það Drottinn kallaði oss þangað að prédika þeim guðsspjöll. En þá vér reistum frá Troada komu vér á réttu skeiði til Samothracian og annars dags til Neapolin og þaðan til Philippis hver að er hin æðsta og frelsishöfuðborg í Macedonia.

Og vær dvöldust í sömu borg nokkra daga. [ Og á þvottdeginum gengu vér af borginni að því vatni hvar þeir plöguðu að biðjast fyrir, settum oss og töluðum til þeirra kvenna er þar komu til samans. Og kona nokkur guðrækin, Lýdía að nafni, hver eð purpura seldi, verandi út af Thiatirisborg, heyrði til, hverrar hjarta Drottinn opnaði so að hún gætti að því hvað af Páli sagðist. En sem hún og hennar hús var skírt beiddi hún oss og sagði: „Ef þér haldið mig trúaða vera í Drottni þá gangið inn í mitt hús og blífið þar.“ Og hún neyddi oss.

En það skeði þá vér gengum til bænar að stúlka nokkur sú er hafði sannsagnaranda hljóp í móti oss hver eð gjörði sínum lánadrottnum mikinn bata í sannsögli. [ Þessi sama fylgdi Páli og oss alls staðar eftir, kallaði og sagði: „Þessir menn eru þjónar Guðs hins hæðsta, þeir eð boða yður hjálpræðisgötu!“ Þetta gjörði hún um marga daga. En það gramdist Páli. Því snerist hann við og sagði til andans: „Eg býð þér í nafni Jesú Christi að þú farir út frá henni!“ Og hann fór út á samri stund.

En er drottnar hennar sáu það að von sinnar ábatanar var úti gripu þeir Pál og Silam og leiddu þá á torg til höfðingjanna og færðu þá fyrir yfirboðarana og sögðu: [ „Þessir menn gjöra styrjöld í borg vorri með því þeir eru Gyðingar og boða þá venju er oss hæfir eigi með að taka né að gjöra með því vér erum rómverskir.“ Og fólkið æstist upp í móti þeim og yfirboðararnir létu þá af fötunum færa og buðu að strýkja þá. Og er þeir höfðu veitt þeim stóra húðstroku snöruðu þeir þeim í myrkvastofu og buðu myrkvastofuverðinum að geyma þá grandvarlega. Og hann tók slíkt boð að sér og kastaði þeim í hið innsta varðhald og setti þeirra fætur í stokk.

En um miðnætti báðust þeir fyrir, Páll og Sílas, og lofuðu Guð. [ Og þeir heyrðu til þeirra sem í varðhaldinu voru. En jafnsnart varð mikill jarðskjálfti so að hrærðist allur grundvöllur myrkvastofunnar. Og jafnsnart opnuðust allar dyr og allra þeirra fjötrar uppleystust. En sem myrkvastofuvörðurinn vaknaði og sá myrkvastofudyrnar opnar dró hann út sverð og vildi fyrirfara sér meinandi bandingjana burtflýða. En Páll kallaði hárri röddu og sagði: „Gjör þér ekkert vont því að vér erum hér allir.“

En hann heimti ljós, gekk inn og óttasleginn féll hann Páli og Sila til fóta, leiðandi þá út og sagði: [ „Herra minn, hvað byrjar mér að gjöra so að eg verði sáluhólpinn?“ En þeir sögðu: „Trú þú á Drottin Jesúm, so verður þú hólpinn og þitt hús.“ Og þeir sögðu honum orð Drottins og öllum þeim er í hans húsi voru. Hann tók þá að sér þá sömu stund nætur og þerrði benjar þeirra. Hann lét þá og skíra jafnsnart sjálfan sig og allt sitt hús. Og þá leiddi hann þá í sitt hús, reisti upp borð fyrir þeim og hann gladdist með öllu sínu húsi það hann var á Guð trúaður vorðinn.

Og er dagaði sendu yfirboðararnir þénara staðarins þangað og sögðu: „Láttu þessa menn lausa.“ En myrkvastofuvörðurinn kunngjörði þetta Páli að yfirboðararnir hefðu þangað sent „að þér skylduð lausir látast. Því gangið nú út og farið í friði.“ En Páll sagði til þeirra: „Þeir hafa almennilega án dóms látið húðfletta oss, rómverska menn, og í myrkvastofu kastað og nú vilja þeir reka oss út heimuglegana? Eigi skal so heldur komi þeir sjálfir og reki oss út.“ En þessi orð kunngjörðu staðarins þénarar yfirboðurunum. Og er þeir heyrðu það að það voru rómverskir menn óttuðust þeir, komu síðan, beiddu þá og útleiddu og báðu að þeir færi burt úr borginni. [ Þeir gengu þá af myrkvastofunni og komu til Lydia. Og er þeir höfðu bræðurna séð og hugsvalað þeim ferðuðust þeir burt.