Og Drottinn talaði við Mósen og Aron og sagði: „Þessi skikkan skal vera eitt lögmál sem Drottinn hefur boðið og sagt: Seg til Ísraelssona að þeir leiði eina rauða kú til þín án lýta, sem öngvan vanka hefur á sér og sú sem enn hefur ekkert ok borið. [ Og fáið prestinum Eleasar hana í hendur, hann skal færa hana út fyrir herbúðirnar og láti slátra henni þar fyrir sér.

Og presturinn Eleasar skal taka af hennar blóði með sínum fingri og stökkva því strax sjö sinnum mót vitnisburðarins tjaldbúð og láta uppbrenna kúna fyrir sér, bæði hennar húð og hold og so hennar blóð og myki. Og presturinn skal taka sedrustré og ísóp og purpuraull og kasta því í logann þá kýrin brennur. Og hann skal þvo sín klæði og baða sinn líkama í vatni og fara so inn í herbúðirnar og vera óhreinn til kvelds. Og sá sem hana brenndi skal og þvo sín föt í vatni og baða sinn líkama í vatni og vera óhrein til kvelds.

Og einn maður sá sem hann er hreinn skal samansafna öskunni af kúnni og hella henni út fyrir herbúðirnar á hreinan stað svo hún megi vera þar geymd fyrir almúgann af Ísraelissonum til eins ádreifingarvats, því það er eitt syndaoffur. Og sá sami sem öskunni safnaði af kúnni skal þvo sín klæði og vera óhreinn til kvelds. Þetta skal vera ein eilíf skikkan fyrir Ísraelssonu og fyrir þá útlendu sem búa á millum yðar.

Hver sem kemur við nokkurn dauðan mann sá skal vera óhreinn í sjö daga. Hann skal með þessu (vatni) yfirstökkvast þann þriðja dag og þann sjöunda dag, so er hann hreinn. En ef hann verður ekki yfirstökktur þann þriðja dag og þann sjöunda dag þá blífur hann ekki hreinn. En ef nokkur snertir dauðan mann og vill ekki láta yfirstökkva sig, sá gjörir Drottins tjaldbúð óhreina og svoddan sál skal afmást af Ísrael, því að dreifingarvatni er ekki stökkt á hann. So er hann óhreinn svo lengi sem hann lætur sig ekki hreinsa þar af.

Þetta er lögmál þá nokkur maður deyr í tjaldbúðum. Hver sem gengur inn í sama tjald og allt það sem er í tjaldinu skal vera óhreint í sjö daga. Og hvert opið ker sem ekki er lok yfir eða bundið yfir, það er óhreint. Og hver sem hrærir við nokkurn sem sleginn er til dauðs út á mörkinni með sverði eða við nokkurn annan sem öðruvís liggur dauður eða við manns bein eða gröf, hann er óhreinn í sjö daga.

Svo skulu þeir nú taka fyrir þann inn óhreina af þeirri brenndu syndaoffurs ösku og láta rennandi vatn þar útyfir í eitt ker. Og einn hreinn maður skal taka ísóp og drepa í vatnið og stökkva á tjaldbúðina og öll ker og allar sálir sem þar inni eru og líka þann sem komið hefur við þess dauða manns bein eða í hel slegna eða við framliðins gröf, þá skal sá hreini stökkva á þann óhreina á þriðja degi og á sjöunda degi. Og á sjöunda degi skal hann leysa hann og hann skal þvo sín klæði og lauga sig í vatni, þá verður hann hreinn um kveldið.

Hver sem verður óhreinn og vill ekki láta sig afleysa, þess sál skal afmáð verða frá almúganum. Því hann hefur gjört Drottins helgidóm óhreinan og er ekki ádreifður með dreifingarvatninu, þar fyrir er hann óhreinn. Og þetta skal vera þeim ein eilíf skikkan. Og sá sem stökkvir dreifingarvatninu hann skal og þvo sín klæði og hver sem snertur dreifingarvatnið sá skal vera óhreinn til kvelds og allt það hann kemur við verður óhreint. Og hver sál sem snertir hann sú skal vera óhrein til kvelds.“