III.

Konungurinn Nabúgodonosor lét gjöra eina gulllega líkneskju, sextígu álna há og sex álna að breidd, og lét setja hana á einn fagran flöt í landinu Babýlon. [ Og Nabúgodonosor konungur sendi eftir höfðingjum, herrum, landstjórnurum, dómurum, fóvitum og starfsmönnum, ráðgjöfum og öllum magtarmönnum í landinu að þeir skyldu til samans koma að vígja þá líkneskju hverja eð konungurinn Nabogodonosor hafði uppsetja látið. Þá komu höfðingjar, herrar, landstjórnarmenn, dómarar, hirðstjórar, ráðgjafar og starfsmenn og allir magtarmenn í ríkinu til samans að vígja þá líkneskju sem Nabúgodonosor hafði uppsetja látið og þeir stóðu gagnvart líkneskinu hvert Nabúgodonosor hafði setja látið.

Og úthróparinn kallaði mjög hátt: „Það sé yður sagt, öllum þjóðum, lýðum og tungumálum: Nær eð þér heyrið hljóð lúðursins, herpípunnar, hörpunnar, gígjunnar, saltarans, symfónsins og alls kyns hljóðfæra, þá skulu þér framfalla og tilbiðja þá gulllíkneskju sem Nabogodonosor kóngur hefur uppsetja látið. En hver sem þá ekki framfellur og tilbiður sá skal á samri stundu kastaður verða í þann brennandi eldsofn.“ Þá eð þeir heyrðu nú hljóð lúðursins, herpípunnar, hörpunnar, gígjunnar, saltarans og allsháttaðra hljóðfæra féllu fram allar þjóðir, lýðir og tungumál og tilbáðu þá gulllíkneskju sem Nabúgodonosor konungur hafði uppsetja látið.

Samstundis gengu fram nokkrir menn af Chaldeis og áklöguðu Gyðingana, hófu upp og sögðu til konungsins Nabúgodonosor: „Herra konungur, Guð gefi þér langa lífdaga! Þú hefur það boð látið út ganga að allir menn, nær eð þeir heyrðu hljóð lúðursins, herpípunnar, hörpunnar, gígjunnar, saltarans, symfónsins og allsháttaðra hljóðfæra, skyldu þeir framfalla og tilbiðja þá gulllíkneskju, en hver ekki framfélli og tilbæði sá skyldi kastaður verða í þann brennanda eldsins ofn. Nú eru þar nokkrir menn af gyðingum, hverja eð þú hefur sett fyrir ráðamenn yfir ríkið í Babýlon, Sadrak, Mísak og Abed-Negó, þeir hinir sömu fyrirlíta þitt boð og dýrka ekki þína guði og tilbiðja ekki þá gulllíkneskju sem þú hefur látið uppsetja. “

Þá skipaði Nabúgodonosor konungur með grimmd og reiði að Sadrak, Mísak og Abed-Negó skyldu fyrir hann leiddir verða. Og þeir menn urðu leiddir fyrir konunginn. Þá hóf Nabúgodonosor upp og sagði til þeirra: „Hvert vilji þér, Sadrak, Mísak og Abed-Negó, ei heiðra minn guð og tilbiðja þá gulllíkneskju sem eg hefi upplátið setja? Nú vel, þá verið viðbúnir. Jafnsnart sem þér heyrið hljóð lúðursins, herpípunnar, hörpunnar, gígjunnar, saltarans, symfónsins og alls kyns hljóðfæra, þá fallið fram og tilbiðjið þá gulllíkneskju sem eg hefi gjöra látið. En ef þér tilbiðjið hana ekki þá skulu þér á samri stundu kastaðir verða í þann brennanda eldsins ofn. Látum sjá hver sá Guð sé sem yður mun frelsa af minni hendi.“

Þá svöruðu þeir Sadrak, Mísak og Abed-Negó og sögðu til konungsins Nabúgodonosor: „Þess gjörist ekki þörf að vér svörum þér hér til. Sjá þú, það vor Guð þann vér heiðrum getur frelsað oss út af þeim brennanda eldsins ofni. Þar að auk kann hann einnin, þú konungur, að frelsa oss út af þínum höndum. Og þó hann vilji ekki það gjöra, þá skaltu þó samt vita að vér heiðrum ekki þína guði og tilbiðjum ekki heldur þá gulllíkneskju sem þú hefur látið uppsetja.“

Þá uppfylltist Nabúgodonosor af mikilli grimmdarreiði og sýndi sig óskaplega bystan viður þá Sadrak, Mísak og Abed-Negó og skipaði það kynda skyldi ofninn sjö hlutum heitara en það vanalegt var og skipaði hinum færustum mönnum af sínu stríðsfólki að binda þá Sadrak, Mísak og Abed-Negó og kasta þeim í þann brennanda eldsins ofn. So urðu þeir menn í sínum klæðu, skófötum, höfuðbúnaði og öðrum klæðnaði bundnir og innkastaðir í þann brennanda eldsins ofn því að konungsins skipan hlaut strax að gjörast. Og þeir sköruðu og kyntu bálið í ofninum mjög ákaflega so að þeir menn sem Sadrak, Mísak og Abed-Negó skyldu brenna þar fyrirfórust af eldsloganum. En þeir þrír menn Sadrak, Mesak og Abed-Negó féllu niður í þann brenndanda eldsofn sem þeir voru bundnir.

Þá ógnaði konunginum Nabúgodonosor og stökk upp skyndilega og sagði til sinna ráðgjafa: „Höfum vér ekki látið fleygja þrimur mönnum fjötruðum í eldinn?“ Þeir svöruðu konunginum og sögðu: „Já, herra konungur.“ Hann svaraði og sagði: „Eg sé þó fjóra menn lausa í eldinum ganga og þeim grandar ekki neitt og sá hinn fjórði er þvílíkast sem væri hann sonur guðanna.“

Og Nabogodonosor gekk fram fyrir munnann þess brennanda ofnsins og sagði: „Sadrak, Mesak og Abed-Negó, þér þjónustumenn ins æðsta Guðs, gangið út og komið hingað!“ Þá gengu þeir Sadrak, Mesak og Abed-Negó út úr eldinum. Og þeir höfðingjarnir, herrarnir, landsdómararnir og ráðgjafarnir konungsins komu til samans og sáu að eldurinn hafði öngva magt auðsýnt á líkömum þessara manna og eigi skaddað þeirra höfuðhárum og þeirra klæðnaður var óskemmdur, já og enginn sviðiþefur var af þeim.

Þá hóf Nabúgodonosor upp og sagði: „Blessaður sé Guð Sadrak, Mesak og Abed-Negó sem sinn engil hefur útsent og frelsað sína þjónustumenn þá sem honum treystu og ekki skeyttu konungsins orðum heldur yfirgáfu sína líkami svo að þeir vildu öngvan guð heiðra né tilbiðja utan alleinasta sjálfs þeirra eigin Guð.

Þar fyrir þá sé þetta mín skipan: Hver af öllu fólki eður af hverjum helst þjóðum eður tungumálum sem lastar Guð Sadrak, Mísak, Abed-Negó sá skal tortýnast og hans hús skemmilegana í eyðileggjast. Því að þar er enginn annar Guð sem svo kann að frelsa sem þessi.“ Og kóngurinn gaf Sadrak, Mísak og Abet-Negó mikla magt í landinu til Babýlon.