XVII.

Og sex dögum þar eftir tók Jesús með sér Petrum og Jacobum og Johannem bróður hans og hafði þá afsíðis upp á hátt fjall og auglýstist fyrir þeim. [ Og hans ásján skein sem sól en hans klæði urðu so björt sem ljós og sjá, að honum birtust þeir Moyses og Elías og töluðu við hann. En Pétur ansaði og sagði til Jesú: „Herra, hér er oss gott að vera. En ef þú vilt þá viljum vær gjöra hér þrjár tjaldbúðir, þér eina, Moyse eina, Elie eina.“ Og þá er hann var þetta að tala, sjá, að bjart ský umskyggði þá og sjá, að röddin úr skýinu sagði: [ „Þessi er sonur minn elskulegur að hverjum mér vel þóknast. Heyrið honum.“ Og er lærisveinarnir heyrðu það féllu þeir fram á sínar ásjánir og urðu mjög hræddir. En Jesús gekk til þeirra, tók á þeim og sagði: „Standið upp og verið eigi hræddir.“ En er þeir litu upp sáu þeir öngvan nema Jesúm einnsaman.

Og er þeir gengu ofan af fjallinu bauð Jesús þeim og sagði: [ „Þér skuluð öngvum þessa sjón segja þar til að Mannsins son er upp aftur risinn af dauða.“ Og hans lærisveinar spurðu hann að og sögðu: „Hvar fyri segja hinir skriftlærðu þá það Elías hljóti áður að koma?“ Jesús svaraði og sagði til þeirra: „Elías á að sönnu áður að koma og alla hluti lagfæra. En eg segi yður það: Elías er nú kominn og þeir kenndu hann eigi heldur gjörðu þeir við hann hvað helst þeir vildu. So mun og Mannsins son verða af þeim að líða.“ Þá undirstóðu lærisveinarnir það hann hafði sagt af Johanne baptista.

Og er þeir komu til fólksins gekk maður til hans og féll á knén fyrir honum og sagði: [ „Herra, miskunna þú syni mínum. Því að hann er tunglsjúkur og er herfilega píndur. Því oft fellur hann á eld og þráttsinnis í vatn. Eg hafða hann og til þinna lærisveina og þeir gátu hann eigi læknað.“ En Jesús svaraði og sagði: [ „Ó þú vantrúuð og rangsnúin kynslóð, hversu lengi skal eg hjá yður vera? Hversu lengi á eg yður að líða? Hafið hann hingað til mín.“ Og Jesús hastaði á hann og djöfullinn fór út af honum og sveinninn varð heilbrigður á samri stundu.

Þá gengu lærisveinarnir heimuglega til Jesú og sögðu: „Fyrir því gátu vær eigi rekið hann út?“ Jesús svaraði og sagði til þeirra: „Fyrir yðar vantrúar sakir. Því eg segi yður fyrir sann: [ Ef þér hefðuð trú so sem mustarskorn mætti þér segja fjalli þessu: Far þú héðan og þangað, og mundi það fara. Og ekkert mundi yður ómáttugt vera. En þetta kyn rekst eigi út nema fyrir bæn og föstu.“

En sem þeir sýsluðust um í Galilea sagði Jesús til þeirra: [ „Eftirkomandi er það Mannsins sonur mun ofurseldur verða í manna hendur og líflátinn verða og á þriðja degi mun hann upp rísa.“ Og við það urðu þeir næsta hryggvir.

Og er þeir komu til Kapernaum gengu þeir að Pétri sem skattgjaldið uppbáru og sögðu: „Yðar meistari, geldur hann eigi skattpeninginn?“ Hann sagði: „Já.“ Og er hann gekk inn í húsið kom Jesús fyrr að honum og sagði: [ „Hvað líst þér, Símon: Af hvorum taka jarðlegir konungar toll eður skattpening: Af sínum sonum eður af annarlegum?“ Pétur sagði: „Af annarlegum.“ Jesús sagði til hans: „Þá eru synirnir frí. En so að vér séum þeim ei að hneykslan þá far til sjávar og kasta út önglinum og þann fisk sem fyrst kemur upp tak þú. Og er þú opnar hans gin muntu finna eina [ stateram. Þá sömu tak og gef þeim fyrir mig og þig.“