LII.

Zedechias var eins árs og tuttugu gamall þá eð hann varð konungur og hann ríkti í ellefu ár til Jerúsalem. [ Hans móðir hét Hamútal, dóttir Jeremía af Líbna. Hann gjörði það sem Drottni illa líkaði líka so sem að Jóakím hafði gjört. Því að reiði Drottins gekk yfir Jerúsalem og Júda þangað til að hann í burt fleygði þeim frá sínu augliti og Zedechias féll frá konunginum af Babýlon.

En á því níunda árinu hans ríkisstjórnar, á þeim tíunda degi hins tíunda mánaðar, þá kom Nabagodonosor konungurinn af Babýlon með allan sinn her á móti Jerúsalem og settist um hana og gjörði hervirki utan um kring hana. [ Og staðurinn var so umsetinn allt til hins ellefta ársins konungsins Zedechia. En á þeim níunda deginum hins fjórða mánaðar tók hungrið mjög að vaxa í staðnum og fólkið í landinu hafði öngvan mat til meir að eta. Þeir brutust þá inn í staðinn og allir stríðsmenn flýðu undan og drógu út af staðnum á náttarþeli um þann veginn að portinu, á millum tveggja múrveggja, sem er í hjá konungsins aldingarði.

En þeir Chaldei lágu í kringum staðinn. Og þá eð þeir drógu út af þeim veginum á sléttlendið þá sótti herinn þeirra Chaldeis eftir konunginum og tóku Zedechiam á þeim völlum hjá Jeríkó. Þá tvístraðist allt hans lið í burt frá hönum og þeir gripu kónginn og höfðu hann upp til konungsins af Babýlon í Riblat, sem liggur í landinu Hemat. Hann úrskurðaði dóm yfir honum. Þar lét konungurinn af Babýlon drepa börnin Zedechia fyrir hans augum, hann sló og í hel alla höfðingja Júda í Riblat. En á Zedechia sjálfum lét hann stinga út augun og binda hann með tveimur járnviðjum og konungurinn af Babýlon flutti hann so til Babýlon og setti hann í myrkvastofu þangað til að hann andaðist þar.

Á þeim tíunda deginum hins fimmta mánaðarins sem þá var það nítjánda árið Nabogodonosor konungsins af Babýlon kom Nebúsaradan höfuðsmaðurinn sem með jafnaði var hjá konunginum í Babýlon til Jerúsalem og brenndi upp hús Drottins og konungsins hús og öll húsin í Jerúsalem. Öll þau hin stærstu húsin brenndi hann upp með eldi og allur sá herinn þeirra Chaldeis sem var hjá höfuðsmanninum niðurrifu múrveggina kringum alla Jerúsalem. En það óríka fólkið og annað múgafólk sem enn var eftir í staðnum og þeir sem gengið höfðu á hendur konunginum af Babýlon og það annað handverksfólk sem eftir var þá flutti Nebúsaradan höfuðsmaðurinn hertekna í burt. Og af því fátæka fólkinu á landsbyggðinni lét Nebúsaradan höfuðsmaðurinn vera víngarðsmenn og akurkarla.

En þá koparstólpana í húsi Drottins og stólana og það koparhafið í húsi Drottins sundurbrutu Chaldei og fluttu allan þann málminn til Babýlon. Og katlana og sleifarnar, hnífana, munnlaugarnar, matkrókana og öll þau koparkerin sem þeir plöguðu að hafa til guðsþjónustunnar þá tóku þeir í burtu. Þar til með tók höfuðsmaðurinn allt það í burtu hvað gull og silfur var, bæði bikara, glóðarker, munnlaugar, katlar, ljósastjakar, skeiðir og skálir, þá tvo stólpana, það einka hafið, þá tólf koparuxana sem í staðinn stólanna stóðu hverja eð Salómon kóngur lét gjöra í húsi Drottins. Málmurinn út af öllum þessum kerum var so mikill að hann varð eigi veginn.

En þeir tveir stólparnir var hvor um sig átján álna hár og ein snúra tólf álna löng vafðist í kringum þá og hún var fjögra fingra þykk og hol innan. [ Og upp á hvorum fyrir sig stóð einn koparhnappur fimm álna hár og þar voru gjörð utan um kring hvorn hnappinn fegurðarepli, öll saman út af kopar. Og einn stólpinn var sem hinn annar og þau fegurðareplin líka so, en þau fegurðareplin voru sex og níutígi og öll þau fegurðareplin voru hundrað á einni listu allt um kring.

Og höfuðsmaðurinn tók prestinn Seraja af þeirri fyrstu skipuninni og prestinn Sefanja af þeirri annarri skipuninni og þrjá dyravörðuna og einn hirðsveininn út af staðnum sem þar var settur yfir stríðsfólkið og sjö menn þá sem vera áttu hjá kónginum, þeir eð fundust í staðnum, þar til með Sófar þann hershöfðingjann sem vanur var að velja út leiðangursliðið, þar til sextígi menn af landsfólkinu sem fundust í staðnum. [ Þessa tók Nebúsaradan höfuðsmaðurinn og flutti þá til konungsins af Babýlon í Riblat. Og konungurinn af Babýlon lét drepa þá í Riblat sem liggur í landinu Hemat. Þannin varð Júda í burt flutt af sínu landi.

Þetta er það fólk sem Nabogodonosor burtflutti, einkum á því sjöunda árinu þrjár þúsundir þrjár og tuttugu Gyðinga, en á því átjánda árinu Nabogodonosor átta hundruð þrjátígi og tvær sálir af Jerúsalem, og á því þriðja og tuttugasta árinu Nabogodonosor í burt flutti Nebúsaradan höfuðsmaðurinn sjö hundruð fjörutígi og fimm sálir af Júda. Allar sálir eru fjórar þúsundir og sex hundruð. [

En á því þrítugasta og sjöunda árinu, eftir það eð Jóakím konungurinn Júda var í burt fluttur, á þeim tuttugasta og fimmta degi hins tólfta mánaðar, upphóf Evvíl Merodak konungurinn af Babýlon á því árinu sem hann varð konungur höfuðið Jóakíns konungsins af Júda og lét hann út af myrkvastofunni og talaði vinsamlegana við hann og setti hans stól yfir stólum þeirra konunganna sem hjá honum voru í Babýlon. [ Og hann umskipti við hann þeim klæðnaði sem í myrkvastofunni hafði hann haft so að hann át með honum alla tíma so lengi sem hann lifði. Og honum varð alltíð gefið sitt uppheldi af konunginum til Babýlon, það honum var tileinkað þá stund hann lifði, allt til dauðadags.

Endir prophetans Jeremie