XIIII.

Og sem Jóab son Serúja merkti að kóngi rann reiði við Absalon þá sendi hann til Tekóa eftir einni vísdómskonu og sagði til hennar: [ „Lát sem þú sért harmþrungin og fær þig í sorgarbúning og smyr þig ekki með oleo heldur sýn þig svo sem ein kvinna sú sem lengi hefur grátið mannamissir. Og þú skalt ganga inn fyrir kónginn og tala við hann so og so.“ Og Jóab lagði henni orð í munn hvað hún skyldi tala.

Og kvinnan af Tekóa gekk inn fyrir kónginn, kastaði sér fram til jarðar á sitt andlit, tilbað hann og sagði: „Herra kóngur, hjálpa mér.“ Kóngurinn sagði til hennar: „Hvað skaðar þig?“ Hún svaraði: „Eg er ein ekkja, ein harmþrungin kvinna og minn bóndi er andaður. Og þín þjónustukvinna átti eftir tvo sonu. Þeir urðu missáttir á akri og sökum þess að þar var engin sem kunni að hamla þeim þá varð so að annar drap annan. Og sjá, nú rísa upp allir frændur þeirra mót þinni þénustukvinnu og segja: Framsel þann sem sló sinn bróður í hel so vér megum taka hann af lífi fyrir hans bróðurs líf sem hann drap og afmá hans arf, og vilja svo útslökkva minn gneista þann eftir er so að niður falli nafn bónda míns og allar menjar hans minningar á jörðunni.“

Kóngurinn svaraði kvinnunni: „Far heim í þitt hús, eg vil bjóða boð fyrir þig.“ Kvinnan af Tekóa svaraði kónginum: „Minn herra kóngur, sá misgjörningur vari yfir mér og mínu föðurs húsi en kóngurinn og hans hásæti sé saklaust.“ Kóngurinn svaraði: „Hver sem mælir í móti þér lát hann koma hingað fyrir mig. Þaðan af skal hann ei snerta þig.“ Hún sagði: „Minn herra kóngur, hugsa til Drottins, þíns Guðs, að blóðhefnararnir verði ei ofmargir til að fordjarfa svo að þeir afmái ekki minn son.“ Hann sagði: „Svo sannarlega sem að Drottinn lifir þá skal þar ekki falla eitt hár á jörð af þínum syni.“

Og kvinnan sagði: „Minn herra kóngur, leyf þinni þjónustukvinnu að tala nokkuð.“ [ Hann sagði: „Seg þú fram.“ Hún mælti þá: „Hvar fyrir hefur þú svoddan hugsað í móti Guðs fólki að kóngurinn hefur talað svoddan orð að hann misgjöri og lætur ekki sækja aftur þann sinn útrekna? Því að vér deyjum allir og so sem vatn rennum vér í jörðina því sem ekki er hamlað og Guð vill ekki taka lífið í burtu heldur hugsar hann að sá tapist ei með öllu er misgjörði.

Þar fyrir er eg nú komin að tala þetta við minn herra kóng því að fólkið gjörir mér sturlan. Því að þín þjónustukvinna hugsaði: Eg vil fara og tala með kónginn, ske má að hann virðist að gjöra það sem hans ambátt segir. Því að hann mun bænheyra sína þjónustukvinnu að hann frelsi mig af þeirra allra hendi sem mig vilja afmá og minn son af Guðs arfleifð. Og þín þjónustukvinna hugsaði: Míns herra kóngs orð skulu vera mín huggun því minn herra kóngur er sem Guðs engill svo að hann kann að heyra bæði gott og illt. Og því mun Drottinn, þinn Guð, vera með þér.“

Kóngurinn svaraði og sagði til kvinnunnar: „Leyn mig ekki þann hlut sem eg vil spyrja þig.“ Kvinnan svaraði: „Minn herra kóngur, tala það þú vilt.“ Kóngurinn sagði: „Er ekki Jóabs hönd með þér í öllu þessu?“ Kvinnan svaraði og sagði: „So sannlega sem þín sál lifir, minn herra kóngur, þá er enginn annar, hverki á þá hægri hönd né vinstri nema sá minn herra kóngurinn sagði. Því þinn þénari Jóab bauð mér þetta og hann lagði þinni þjónustukvinnu öll þessi orð í munn að eg skylda svo breyta fígúru þessa máls. Það hefur þinn þénari Jóab gjört. En þú, minn herra, ert vís sem einn Guðs engill að þú skilur alla hluti á jörðunni.“

Þá mælti kóngurinn við Jóab: „Sjá, eg hefi gjört þetta. Þar fyrir far nú og sæk sveininn Absalom aftur.“ Þá féll Jóab fram allur til jarðar og tilbað og þakkaði kónginum og sagði: [ „Í dag merkir þinn þénari að eg hefi fundið náð fyrir þínum augum, minn herra kóngur, að kóngurinn gjörir hvað hans þénari segir.“ Síðan bjó Jóab sig og fór til Gesúr og flutti Absalom til Jerúsalem. En kóngurinn sagði: „Látið hann fara í sitt hús aftur en komi ekki á minn fund.“ Svo kom nú Absalom í sitt hús aftur og sá ekki kóngsins ásjónu.

En þar var ekki svo fríður maður á meðal alls Israelis sem Absalon og hann hafði þá frægð fyrir öllum mönnum að ekki var lýti á honum á millum hæls og hvirfils. [ Og þá menn klipptu hans hár (sem þá plagaðist að gjöra árlega því honum var þyngd að því að hann varð að láta klippa það af) þá vó hans höfuðhár tvö hundruð skildinga eftir kóngsins vigt. Og Absalom átti þrjá syni og eina dóttir sem hét Tamar og hún var kvenna fríðust. Svo var Absalon nú tvö ár í Jerúsalem að hann kom ekki á kóngsins fund.

Og Absalon sendi eftir Jóab að hann vildi senda hann fyrir kónginn. En hann vildi ei koma til hans. Og hann sendi í annað sinn. Jóab vildi ekki að heldur koma. Þá sagði hann til sinna sveina: „Sjáið, Jóabs akur liggur í nánd mínum og hann hefur bygg þar á. So farið nú og setjið eld þar í.“ Þá fóru Absaloms sveinar og brenndu upp kornið með eldi.

Síðan stóð Jóab upp og gekk í Absaloms hús og sagði til hans: „Því settu þínir sveinar eld á minn part akursins?“ Absalom sagði til Jóab: „Sjá, eg senda eftir þér og lét segja þér: Kom til mín svo eg megi senda þig fyrir kónginn, og vilda eg hafa látið þig segja honum: Því er eg kominn frá Gesúr? Mér hefði verið betra að eg væri þar enn nú. So lát mig nú fá að sjá kóngsins auglit. En sé nokkur misgjörningur meður mér þá slá mig í hel.“ Og Jóab gekk inn fyrir kónginn og undirvísaði honum þetta. Og hann kallaði á Absalom og hann kom fyrir kónginn. Og hann féll á sitt andlit fram til jarðar fyrir kónginum og tilbað hann. Og kóngurinn kyssti Absalom.