XXXIII.

Og orð Drottins skeði til mín og sagði: [ Þú mannsins son, prédika á móti þínu fólki og segðu til þeirra: Ef að eg læt koma sverðið yfir landið og fólkið í landinu tekur einn á meðal sín og setur hann til varðhaldsmanns og hann sér sverðið koma yfir landið og hann blæs í herlúðurinn og varar svo fólkið við, hver sem þá heyrir hljóðin herlúðursins og vill ekki vakta sig og sverðið það kemur og sviptir honum í burt, hans blóð skal vera yfir hans höfði þvi að hann heyrði herlúðursins hljóð og hefur þó ekki að heldur varað sig við. Þar fyrir þá veri hans blóð yfir honum. En hver sem lætur vara sig við hann mun bjarga sínu lífi þar í frá.

En ef varðhaldsmaðurinn sér sverðið koma og blæs ekki í herlúðurinn og varar eigi heldur sitt fólk við og sverðið kemur og sviptir nokkrum í burt: [ Þeir hinir sömu verða að vísu í burt teknir fyrir sinna synda sakir en þeirra blóðs vil eg krefja af varðhaldsmannsins hendi.

Og nú, þú mannsins son, eg hefi sett þig til eins varðhaldsmanns yfir Ísraels hús nær eð þú heyrir nokkuð af mínum munni sem þú skalt vara þá við minna vegna. Nær að eg segi nú so til hins óguðlega: „Þú hinn óguðlegi skalt vissilega deyja“ og þú segir honum ekki það sama so að sá hinn óguðlegi tæki sér vara fyrir sinni breytni þá skal hinn óguðlegi að vísu deyja fyrir síns óguðlegs athæfis sakir en eg vil krefja hans blóðs af þinni hendi. En varir þú hinn óguðlega við sinni breytni, að hann snúi sér þar í frá, og hann vill ekki snúa sér frá sínu athæfi þá skal hann deyja fyrir sinna synda sakir en þú hefur frelsað þína sálu.

Þar fyrir, þú mannsins son, seg þú til Ísraels hús: Þér segið so: „Vorar syndir og misgjörðir þær liggja á oss so að vér forgöngum þar undir. Hvernin kunnum vér þá að lifa?“ þá seg þú til þeirra: Svo sannarlega sem eg lifi, segir Drottinn Drottinn, þá hefi eg öngva þóknan á dauða hins óguðlega heldur það að sá hinn óguðlegi snúi sér frá sinni breytni og lifi. [ So snúið yður nú í frá yðvari vondri breytni. Eða hvar fyrir vilji þér deyja, þér af húsi Ísraels?

Og þú mannsins son, seg þú til þíns fólks: Nær eð einn réttlátur gjörir ranglega þá mun það ekki stoða honum að hann hefur réttlátur verið. Og nær eð einn óguðlegur gjörist réttvís þ´þa skal það ekki skaða hann að hann hefur óguðlegur verið. So kann og ekki hinn réttferðugi að lifa nær eð han syndgast. Því ef að eg segði til hins réttferðuga: „Hann skal lifa“ og hann treystir upp á sína réttvísi og gjörir ranglega þá mun öll hans réttvísi ekki í minni lögð verða heldur mun hann deyja í sínu ranglæti sem hann gjörir.

Og ef eg segi til hins óguðlega að hann skuli deyja og hann snýr sér frá sínum syndum og gjörir það sem gott og réttvíst er, so að hinn óguðlegi gefur það aftur sem í borgan var sett og bitalar það aftur sem hann hefur gripið og gengur eftir lífsins orðum so að hann gjörir ekki neitt ranglegana þá skal hann lifa og ei deyja og allar hans syndir sem hann hefur gjört skulu ekki hugleiddar verða það hann gjörir nú það sem gott er og réttvíslegt, þar fyrir skal hann lifa.

Þó segir þitt fólk: „Drottinn dæmir ekki rétt“ þótt að þeir hafi rétt. Því að nær eð hinn réttferðugi snýr sér í frá sinni réttvísi og gjörir ranglegana þá á hann með réttu að deyja þar fyrir. Og nær eð hinn óguðlegi snýr sér í frá sínu óguðlegu athæfi og gjörir það sem gott og réttvíslegt er þá á hann að lifa. Þó segi þér samt að Drottinn dæmi ekki rétt þó að eg dæmi yður af Ísraels húsi hvern eftir sinni verkan.

Og það skeði so á því hinu tólfta voru herleiðingarári, þann fimmta daginn í þeim tíunda mánaðinum, að þá kom einn til mín sá sem undan hafði komist frá Jerúsalem og sagði það staðurinn væri niðurbrotinn. Og hönd Drottins var yfir mér um kveldið fyrr en sá kom sem undan hafði komist og upplauk minn munn þar til hann kom til mín um morguninn og hann upplauk so mínum munni á mér það eg kunni ekki meir að þegja.

Og orð Drottins skeði til mín og sagði: Þú mannsins son, þeir sem búa í þeim foreyddu stöðunum í Ísraelslandi segja so: „Abraham var aðeins einn maður og hann erfði þetta land og vér erum margir, því höfum vér betra rétt til landsins.“ Þar fyrir seg þú til þeirra: So segir Drottinn Drottinn: Þér hafið etið blóðið og upphafið yðar augu til afguðanna og úthellt blóðinu og þér meinið að þér viljið eignast landið? Já þér haldið ætíð áfram um manndrápin og fremjið svívirðingar og einn hann skammar eiginkonu hins annars og þér meinið að þér viljið eignast landið?

So seg þú til þeirra: So segir Drottinn Drottinn: So sannarlega sem eg lifi, þá skulu þeir allir sem búa í þeim eyðistöðunum falla fyrir sverði og hvað sem á akurlöndunum er það vil eg gefa villudýrunum til fæðslu og þeir hinir sem eru í köstulunum og hellunum skulu deyja af drepsótt. Því að eg vil með öllu foreyða landið og gjöra einn enda á þeirra drambsemi og magtarveldi so að Ísraelsfjöll skulu so í eyði vera að enginn skal ganga þar yfir um. Og þeir skulu formerkja að eg er Drottinn nær að eg hefi landið so öldungis í eyðilagt fyrir allra þeirra svívirðinga sakir sem þeir gjöra.

Þú mannsins son, þitt fólk talar á móti þér, hjá múrveggjunum og í húsdyrunum og hver segir til annars: „Kæri, komið og látum oss heyra hvað Drottinn segir!“ Og þeir munu koma til þín í samkundunni og sitja frammi fyrir þér so sem mitt fólk og munu heyra þín orð en ekki neitt gjöra þar eftir heldur munu þeir blístra eftir þér og lifa þó samt eftir sinni ágirni. Og sjá þú, þú verður að vera þeirra [ kvæði hvert að þeir munu gjarnan kveða og sér að skemmtan hafa, so munu þeir nú heyra þín orð og ekki neitt gjöra þar eftir. En nær það kemur hvað koma skal, sjá þú, þá skulu þeir formerkja að einn propheti hefur verið á meðal þeirra.