VIII.

Þetta kom fyrir Júdít hver eð var ein ekkja, dóttir Merarí, sonar Ús, sonar Jósefs, sonar Osia, sonar Elaí, sonar Jammor, sonar Jedeon, sonar Rafaím, sonar Akítóp, sonar Malkíe, sonar Enan, sonar Natanía, sonar Sealtíel, sonar Símeon. [ Hennar maður hafði heitið Manasses. Hann hafði andast þá menn uppskáru byggkorn. Því að þá hann var á akrinum hjá verkamönnum kom að honum krankleiki af hita og andaðist í sinni borg Betulia og varð grafinn hjá sínum forfeðrum. Hann lét eftir þessa Júdít hver eð þá hafði ekkja verið í þrjú ár og sex mánaði. Hún hafði látið gjöra eitt lítið sérlegt herbergi ofanvert í sínu húsi þar eð hún sat með sínum ambáttum og var klædd einum sekk og fastaði daglega, utan á þvottdögum, tunglkomuhelgum og öðrum hátíðum Ísraels hús. Og hún var væn og vel auðig og hafði margt þjónustufólk og garða fulla af nautum og sauðum. Hún hafði og góðan lofstír af hverjum manni það hún væri guðhrædd og enginn kunni að tala illt um hana.

Þessi Júdít, þá eð hún heyrði að Oseas hafði lofað að gefa upp staðinn þeim Assyriis eftir fimm daga, sendi hún til öldunganna Kambrí og Karmí. Og þá þeir komu til hennar þá sagði hún til þeirra: „Hvað skal það vera að Oseas hefur samþykkt að gefa upp staðinn fyrir þeim Assyriis ef að oss kemur engin hjálp í fimm daga? Hverjir eruð þér að þér freistið Drottins? Ei orka slík orð náðar heldur miklu framar reiði og óvináttu. Vilji þér setja Drottni stund og stað eftir yðar vilja nær hann skal hjálpa? Þó er Drottinn þolinmóður. Því látum oss það illa þykja og leitum náðar með grátandi tárum því að reiði Drottins er ekki so sem mannsins reiði að hann láti sig ekki forlíka.

Þar fyrir skulum vér lítillækka oss af hjarta og þjóna honum og biðja hann með grátandi tárum að hann vilji veita oss miskunn eftir sínum þægilegum vilja og að vér mættum fá fögnuð eftir hryggð so sem nú hryggjunst vér af þeirra drambsemi, að vér ekki höfum eftirfylgt syndum vorra forfeðra sem yfirgáfu þeirra Guð og tilbáðu annarlega guði, hvar fyrir þeir urðu yfirgefnir í þeirra óvina hendur og eru í hel slegnir, herteknir og af þeim skammaðir. En vér meðkennum öngvan annan Guð utan hann alleina og vér viljum með þolinmæði vænta hjálpar og huggunar af honum. So mun hann Drottinn vor Guð frelsa vort blóð frá vorum óvinum og alla þá heiðingja sem oss ofsækja mun hann lítillækka og til skammar verða láta.

Og þér, góðir bræður, þér sem eruð öldungar lýðsins, huggið fólkið með yðar orðum að þeir hugsi að vorra forfeðra var og freistað so að þeir yrðu reyndir hvort að þeir þjónuðu Guði af hjarta. Áminnið þá hversu vors föðurs Abrahams var margfaldlega freistað og er Guðs vinur orðinn eftir það hann var reyndur fyrir margháttaðar freistingar. [ So hafa þeir Ísaak, Jakob, Móses og allir Guðs ástvinir verið stöðugir og hafa orðið að yfirvinna marga hörmung. En hinir aðrir sem ekki hafa viljað meðtaka hörmungina með Guðs ótta heldur hafa mælti í móti Guði af óþolinmæði og lastað Guð þeir eru af fordjarfaranum og af höggormum foreyddir. [ Þar fyrir verum ekki óþolinmóðir í þessum mótgangi, meðkennum heldur að þetta er eitt straff af Guði miklu minna en vorar syndir eru og trúum því að vér verðum tyttaðir so sem hans þénarar oss til góða en ekki til fordjörfunar.“ [

Þá andsvaraði Osias og þeir öldungarnir: „Allt er það satt sem þú hefur talað og þín orð eru óstraffanleg. Þar fyrir bið þú til Drottins fyrir oss því að þú ert ein heilög og guðhrædd kvinna.“ Og Júdít sagði: „Með því þér haldið að það sé af Guði hvað eg hefi talað, þá reynið og einnin hvert það er af Guði sem eg hugsa að gjöra og biðjið að Guð vildi gefa lukku þar til. Gætið að porti staðarins á þessari nóttu nær eg útgeng með minni ambátt og biðjið að Drottinn vilji hugga sitt fólk Ísrael á þessum fimm dögum svo sem þér hafið sagt. Og hvað eg hugsa að gjöra þar skuli þér ekki eftir grennslast heldur aðeins biðjið fyrir mér til Drottins vors Guðs þangað til að eg segi yður hvað þér skuluð gjöra.“ Og Oseas höfðingi Júda sagði til hennar: „Gakk í friði. Drottinn sé með þér og hefni vor á vorum óvinum.“ Og þeir skildust so við hana.